Dagbók stjörnufræðikennara – Kennsluvika 6 – haust 2013
Um dagbókina
Hér er sagt frá einni kennsluviku í stjörnufræði við Menntaskólann í Reykjavík veturinn 2013-2014.
Tími í tölvustofu: Undirbúningur fyrir verkefni um stjörnuskoðun
Ég hafði eina kennslustund í tölvustofunni til þess að nemendur gætu undirbúið heimaverkefni um stjörnuskoðun sem á að skila seint í nóvember.
Verkefnið skiptist í fjóra þætti:
1) Fara með einhvern í stjörnuskoðun (sem er ekki í stjörnufræði hjá mér í vetur :-) – nemandinn ákveður hvaða fyrirbæri hann sýnir út frá Stjörnukorti mánaðarins og því sem sést á himninum (tungl, norðurljós, vetrarbrautarslæðan, gervitungl... o.s.frv.).
2) Skoða stjörnurnar sem mynda Sumarþríhyrninginn
3) Skoða Karlsvagninn í Stórabirni og Pólstjörnuna í Litlabirni.
4) VALFRJÁLST: Taka þátt í Stóru alþjóðlegu stjörnutalningunni (Great World Wide Star Count) 25. október - 8. nóvember.
Sýndi nemendum sjónauka og fór í „stjörnuskoðun“ utanhúss
Ég mætti með annan af sjónaukunum mínum og sýndi nemendum hvernig spegilsjónauki virkar. Eftir þetta fórum við út og skoðuðum tunglið og klukkuna á Dómkirkjunni. Nemendum fannst mjög athyglisvert að myndin var á hvolfi í augnglerinu (sem er alþekkt í spegilsjónaukum). Það atriði skiptir hins vegar ekki miklu máli þegar horft er á fyrirbæri á næturhimninum.
Örfyrirlestrar um stjörnumerkin
Nokkrir nemendur fluttu örfyrirlestra um stjörnumerki sem var sagt frá í umfjöllun um kennsluviku 3.