Flakkari stígur dans geims og stjarna

24. desember 2012

  • NGC 1097, vetrarbraut
    Vetrarbrautin NGC 1097 í stjörnumerkinu Ofninum. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Þessa vikuna sýnir Hubble geimsjónauki NASA og ESA okkur mynd af björtum og glæsilegum stjörnumyndunarhring sem umlykur miðju bjálkaþyrilvetrarbrautarinnar NGC 1097. Á myndinni er stórgerð vetrarbrautarinnar vart sjáanleg: Gisnir þyrilarmar hennar, sem eru fremur daufir og umlykja miðjuna, ná langt út fyrir þessa mynd.

Við sjáum þessa tignarlegu vetrarbraut ofan frá úr 45 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Ofninum. NGC 1097 er svonefnd Seyfert vetrarbraut. Í miðju hennar er risasvarthol, 100 milljón sinnum massameira en sólin okkar sem sýgur til sín efni úr nágrenninu. Svæðið í kringum svartholið skín skært vegna geislunar sem berst frá efni sem er að falla inn í það.

Hringurinn í kringum svartholið orsakar hrinu stjörnumyndunar vegna innstreymis efnis að bjálkanum við miðju vetrarbrautarinnar. Þessi stjörnumyndunarsvæði eru björt vegna geislunar frá jónuðum vetnisskýjum. Hringurinn er um það bil 5.000 ljósár í þvermál en þyrilarmarnir teygja sig tugi þúsunda ljósára út í geiminn.

Í NGC 1097 hafa stjörnufræðingar komið auga á þrjár sprengistjörnur á aðeins 11 ára tímabili (frá 1992 til 2003).

Það áhugaverðasta við NGC 1097 er þó sú staðreynd að hún flakkar ekki ein um geiminn. Við hana eru alla vega tvær fylgivetrarbrauti, NGC 1097A sem er sporvöluvetrarbraut í um 42.000 ljósára fjarlægð frá NGC 1097, og NGC 1097B sem er smærri dvergvetrarbraut. Báðar eru fyrir utan þessa ljósmynd. Stjörnufræðingar hafa komist að því að NGC 1097 og NGC 1097A hafa víxlverkað í fortíðinni.

Þessi mynd var tekin í gegnum sýnilegar og innrauðar síur með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum.

Eedresha Sturdivant sendi inn sína útgáfu af þessari mynd í Hubble's Hidden Treasures myndasamkeppnina.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 1097
  • Tegund: Vetrarbraut
  • Fjarlægð: 45 milljónir ljósára
  • Stjörnumerki: Ofninn

Þysjanleg mynd

Myndir

Tengt efni

Ummæli