NGC 1097
Tegund: | Bjálkaþyrilvetrarbraut |
Stjörnulengd: |
02klst 46mín 19s |
Stjörnubreidd: |
-30° 16′ 30" |
Fjarlægð: |
45 milljón ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+10,2 |
Stjörnumerki: | Ofninn |
Önnur skráarnöfn: |
Arp 77, Caldwell 67 |
Ensk-þýski stjörnufræðingurinn William Herschel uppgötvaði vetrarbrautina þann 9. október árið 1790.
NGC 1097 er Seyfert vetrarbraut sem á í nánum kynnum við litla sporvöluþoku NGC 1097A, sem sést ofarlega vinstra megin á myndinni. Vísbendingar eru um að þær hafi víxlverkað hvor við aðra fyrir ekki svo ýkja löngu en hún er í um það bil 42.000 ljósára fjarlægð frá miðju NGC 1097.
Út úr kjarna NGC 1097 skaga fjórir daufir strókar — of langir og daufir til að sjást á myndinni — og mynda X en þeir eru lengstu sýnilegu strókar frá vetrarbraut sem vitað er um. Talið er að strókarnir séu leifar dvergvetrarbrautar sem NGC 1097 át fyrir örfáum milljörðum ára. Sömu örlög bíða NGC 1097A.
Strókarnir óvenjulegu eru reyndar ekki einu áhugaverðu einkenni þessarar vetrarbrautar. Eins og áður sagði er NGC 1097 Seyfert vetrarbraut. Það þýðir að í miðju hennar er virkt risasvarthol. Kjarni vetrarbrautarinnar er reyndar tiltölulega daufur sem bendir til að risasvartholið í miðjunni sé ekki að gleypa mikið gas og margar stjörnur. Þess í stað er bjartur kekkjóttur hringur sem umlykur kjarnann mest áberandi einkenni miðju vetrarbrautarinnar. Björtu kekkirnir eru taldir risakúlur úr vetnisgasi, 750 til 2.500 ljósár í þvermál, sem glóa vegna sterkrar útfjólublárrar geislunar frá ungum nýmynduðum stjörnum í nágrenninu. Þessi áberandi stjörnuhringur og þær fjölmörgu bláu þyrpingar ungra og heitra stjarna í þyrilörmunum gera NGC 1097 einkar myndræna.
NGC 1097 á mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Mynd: ESA/Hubble og NASA |
Hingað til hafa þrjár sprengistjörnur sést í NGC 1097 (SN 1992bd, SN 1999eu og SN 2003B).
Myndin sem sést hér að ofan var upphaflega tekin árið 2004 með VIMOS mælitækinu á Very Large Telescope (VLT) ESO en litmyndum sem stjörnuáhugamaðurinn Robert Gendler tók hefur verið bætt við.
Heimildir
-
Flakkari stígur dans geims og stjarna — Mynd vikunnar á Stjörnufræðivefnum