Tunglmyrkvi
Yfirlit
Tunglmyrkvi (e. lunar eclipse) verður þegar tunglið gengur inn í skugga jarðar. Það gerist aðeins þegar sólin, jörðin og tunglið eru í beinni línu (kallað raðstaða eða okstaða). Tunglmyrkvar verða því aðeins á fullu tungli.
Tunglmyrkvar eru með fallegustu stjarnfræðilegu sjónarspilum sem sjá má með berum augum. Í Almanaki Háskóla Íslands eru reiknaðar út upplýsingar um þá tunglmyrkva sem sjáanlegir eru frá Íslandi ár hvert. Seinast sást almyrkvi á tungli frá Íslandi hinn 28. september 2015. Næst sést almyrkvi á tungli frá Íslandi í heild sinni hinn 31. desember árið 2028.
1. Gerðir tunglmyrkva
Skýringarmynd af tunglmyrkva. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Hermann Hafsteinsson |
Skuggi jarðar skiptist í alskugga (e. umbra) og hálfskugga (e. penumbra). Því eru til þrjár gerðir af tunglmyrkvum: Almyrkvar, deildarmyrkvar og hálfskuggamyrkvar.
Alskuggi jarðar er keilulaga og nær langt út fyrir braut tunglsins eða um 1,4 milljón kílómetra út í geiminn. Við braut tunglsins er alskugginn 2,6 sinnum breiðari en þvermál tunglsins eða um 9200 km.[1] Oftast fer tunglið norðan eða sunnan skuggans en fyrir kemur að það gengur allt eða að hluta inn í hálfskuggann. Það kallast hálfskuggamyrkvi. Hálfskugginn veldur lítilli deyfingu á birtu tunglsins og því eru slíkir myrkvar vart sjáanlegir með berum augum.
Þegar tunglið gengur aðeins að hluta til inn í alskuggann verður deildarmyrkvi. Fari tunglið allt inn í alskuggann verður almyrkvi á tungli.
Almyrkvi á tungli 28. sepember 2010. Eins og sjá má er jarðskugginn bogadreginn. Hér sést bæði deildarmyrkvinn og almyrkvinn Mynd: Sævar Helgi Bragason |
Tímasetningar myrkva eru tilgreindar eftir því hvenær tunglið snertir jarðskuggann:
-
P1 (Fyrsta snerting): Hálfskuggamyrkvi hefst. Hálfskuggi jarðar snertir rönd tunglsins.
-
U1 (Önnur snerting): Deildarmyrkvi hefst. Alskuggi jarðar snertir rönd tunglsins.
-
U2 (Þriðja snerting): Almyrkvi hefst. Tunglið er allt inn í alskugga jarðar.
-
Miður myrkvi: Myrkvi í hámarki. Tunglið er næst miðju alskugga jarðar.
-
U3 (Fjórða snerting): Almyrkva lokið. Rönd tunglsins færist úr alskugga jarðar.
-
U4 (Fimmta snerting): Deildarmyrkva lokið. Alskuggi jarðar er horfinn af tunglinu.
-
P2 (Sjötta snerting): Hálfskuggamyrkva lokið. Skuggi jarðar fellur ekki lengur á tunglið.
Lengd tunglmyrkva ræðst af því hvort tunglið ferðast beint í gegnum alskuggann eða ekki. Lengd tunglmyrkva er líka háður breytilegri fjarlægð tungls og sólar. Þegar tunglið er í jarðfirð, lengst frá jörðinni, er brautarhraðinn skemstur. Þar af leiðandi varir almyrkvi lengst þegar tungl er í jarðfirð. Hraði tunglsins í gegnum alskuggann er um 1 kílómetri á sekúndu og því getur almyrkvi mest staðið yfir í næstum 107 mínútur (1 klst og 47 mínútur) fari tunglið nærri miðju skuggakeilunnar en ef það er við rönd alskuggann stendur myrkvinn skemur yfir. Tíminn milli fyrstu og síðustu snertinga tungls við alskuggans er mun lengri og getur verið 4 klukkustundir.
2. Rautt almyrkvað tungl
Sólarljós berst í gegnum efstu lög lofthjúps jarðar og beinist til tunglsins. Tunglið verður því rauðleitt við almyrkva. Mynd: Wikimedia Commons |
Þegar tunglið er inni í alskugga jarðar fær það á sig rauðleitan blæ. Í fjölmiðlum er þá stundum talað um Blóðmána. Þennan lit má rekja til allra sólarlaga og sólarupprása sem umlykja jörðina á þessu augnabliki. Sólarljósið berst í gegnum lofthjúp jarðar sem dreifir rauða litnum síðar en hinum litunum. Ljósið berst til tunglsins og gefur því rauðan lit. Frá yfirborði tunglsins sæi geimfari þunnan rauðan hring umlykja myrkvaða jörð — án efa tignarleg sjón.
2.1 Birta myrkva
Birta myrkva ræðst af leið tunglsins í gegnum jarðskuggann en líka aðstæðum í lofthjúpi jarðar, svo sem skýjum og magni ryks, t.d. eldfjallaösku, sem deyfir sólarljósið. Fari tunglið nærri miðju skuggans verður það dekkra en ef það fer í gegnum skuggann við rönd hans.
Þegar Pínatúbofjall á Filippseyjum gaus miklu sprengigosi í júní 1991 spúði það miklu magni af ösku hátt upp í lofthjúpinn. Askan dreyfðist um allt norðurhvelið og sveif í háloftunum næstu mánuði á eftir. Þann 8. desember 1992 varð fyrsti almyrkvi á tungli eftir eldgosið og var hann sá dimmasti í langan tíma. Tunglið sást varla og var það rakið til öskunnar í lofthjúpnum.[1]
2.2 Danjon kvarðinn
Danjon kvarðinn, kenndur við franska stjörnufræðinginn André Danjon (1890-1967), lýsir hve dimmur almyrkvi á tungli er:
-
L = 0: Mjög dimmur myrkvi. Tunglið næstum ósýnilegt, sérstaklega við miðbik almyrkva.
-
L = 1: Dimmur myrkvi, grár eða brúnleitur. Erfitt að greina smáatriði á tunglinu.
-
L = 2: Dimm- eða ryðrauður myrkvi. Miðja skuggans mjög dimm en ytri brúnir alskuggans tiltölulega bjartar.
-
L = 3: Vínrauður myrkvi. Brún alskuggans björt eða gulleit.
-
L = 4: Mjög bjartur koparrauður eða appelsínugulur myrkvi. Alskugginn er bláleitur með mjög bjarta brún.
3. Tíðni
Tunglmyrkvar sjást frá hálfri jörðinni í senn, þ.e. allri næturhliðinni sem snýr að tunglinu, ólíkt sólmyrkvum sem sjást aðeins frá litlum hluta jarðar.
Tungl er fullt einu sinni á 29,5 daga fresti eða svo. Þrátt fyrir það verður tunglmyrkvi ekki mánaðarlega því brautarplan tunglsins og brautarplan jarðar eru ósamsíða. Tunglbrautin hallar um 5° frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi jarðar yfirleitt undir eða yfir tunglið. Ár hvert eru því aðeins tvö eða þrjú tímabil sem myrkvar geta orðið. Þá eru sólin, jörðin og tunglið í beinni línu ásamt því að vera í sama fleti þannig að tunglið gangi inn í skugga jarðar.
Að meðaltali verða 243 tunglmyrkvar á hverri öld. Af þeim eru hálfskuggamyrkvar algengastir en almyrkvar sjaldgæfastir. Almyrkvi á tungli sést því að meðaltali á 2-3 ára fresti frá tilteknum stað á jörðinni. Mest geta orðið þrír almyrkvar á tungli á einu ári en það er mjög sjaldgæft. Seinast sáust þrír almyrkvar árið 1982 en mun ekki gerast aftur fyrr en árið 2485.[2]
3.1 Ferndir
Alla jafna verða tunglmyrkvar ekki í neinni sérstakri röð. Almyrkvar geta komið í kjölfar deildarmyrkva eða hálfskuggamyrkva o.s.frv. Stöku sinnum kemur þó fyrir að fjórir almyrkvar á tungli verða í röð með sex mánaða millibili milli hvers myrkva. Það er kallað fernd (tetrad). Á 21. öld verða átta ferndir en milli áranna 1600 og 1900 urðu engar ferndir. Á 20. öld urðu 5 ferndir.
Almyrkvinn 28. september er seinastai myrkvinn í annari fernd 21. aldar. Aðrir myrkvar í ferndinni urðu 15. apríl 2014, 8. október 2014 og 4. apríl 2015.
4. Sögufrægir tunglmyrkvar
22. maí 1453 - Deildarmyrkvi sem varð þegar Ottómanar með soldáninn Memeð sigursæla í broddi fylkingar náði hinni fornu borg Konstantínópel á sitt vald. Sagt var að tunglmyrkvinn uppfyllti spádóm um fall borgarinnar.
1. mars 1504 - Þegar Kristófer Kólumbus og áhöfn hans strandaði á Jamaíka árið 1503 ákváðu eyjaskeggjar að færa þeim ekki mat. Ekki var unnt að gera við skipin svo skipverjarnir neyddust til að dvelja um sinn á eyjunni og lifa á landinu. Þegar Kólumbus skoðaði siglingatöflur sínar tók hann eftir því að almyrkvi á tungli yrði 29. febrúar 1504. Kólumbus ákvað að notfæra sér þetta. Hann sagði eyjaskeggjum að guð reiddist svo meðferðin á skipverjunum að hann ákvað að fjarlægja tunglið af himninum og sýna þannig vanþóknun sína. Örfáum mínútum síðar byrjaði skuggi jarðar að færast yfir tunglið. Bragðið heppnaðist hjá Kólumbusi svo eyjaskeggjar ákváðu að færa þeim mat en aðeins ef guð setti tunglið aftur á himinninn.
5. Listi yfir tunglmyrkva sem sjást frá Íslandi til 2030
Dagsetning | Gerð myrkva | Myrkvi hefst | Myrkvi í hámarki | Myrkva lýkur | Athugasemdir | Kort |
---|---|---|---|---|---|---|
28.09.2015 | Almyrkvi | 00:12 | 02:47 | 05:22 | Sést í heild sinni frá öllu Íslandi | # |
16.09.2016 | Hálfskugga | 16:54 | 18:54 | 20:53 | Myrkvinn stendur yfir þegar tunglið rís á himininn yfir Íslandi en verður vart greinilegur | # |
11.02.2017 | Hálfskugga | 22:35 | 00:44 | 02:53 | Sjáanlegur munur við hámark | # |
27.07.2018 | Almyrkvi | 17:15 | 20:21 | 23:29 | Hálfskuggamyrkvi stendur yfir þegar tunglið rís | # |
21.01.2019 | Almyrkvi | 02:37 | 05:12 | 07:48 | Sést í heild sinni frá öllu Íslandi | # |
10.01.2020 | Hálfskugga | 17:08 | 19:10 | 21:12 | Myrkvinn vart greinanlegur | # |
30.11.2020 | Hálfskugga | 07:32 | 09:43 | 11:53 | Myrkvinn vart greinanlegur | # |
19.11.2021 | Deildarmyrkvi | 06:02 | 09:02 | 12:03 | Myrkvinn er í hámarki við tunglsetur og sést því ekki í heild frá Íslandi. | # |
16.05.2022 | Almyrkvi | 01:32 | 04:11 | 06:50 | Myrkvinn stendur yfir við tunglsetur og sést því ekki í heild frá Íslandi | # |
28.10.2023 | Deildarmyrkvi | 18:01 | 20:14 | 22:26 | Myrkvinn sást vel frá nánast öllu landinu |
# |
25.03.2024 | Hálfskugga | 04:53 | 07:12 | 09:32 | Myrkvinn stendur yfir þegar tunglið er að setjast og verður vart greinilegur | # |
18.09.2024 | Deildarmyrkvi | 00:41 | 02:44 | 04:47 | Myrkvinn sést allur frá Íslandi |
# |
07.09.2025 | Almyrkvi | 15:28 | 18:12 | 20:55 | Tunglið er almyrkvað þegar það rís á Austurlandi en er komið út fyirr alskuggann þegar það rís í Reykjavík | # |
28.08.2026 | Deildarmyrkvi | 01:24 | 04:13 | 07:01 | Myrkvinn stendur yfir við tunglsetur. Tveimur vikum eftir almyrkva á sólu. | # |
20.02.2027 | Hálfskugga | 21:12 | 23:13 | 01:13 | Myrkvinn vart greinanlegur | # |
12.01.2028 | Deildarmyrkvi | 02:08 | 04:13 | 06:18 | Myrkvinn sést allur frá Íslandi |
# |
31.12.2028 | Almyrkvi | 14:04 | 17:28 | 19:40 | Myrkvinn sést allur frá norðausturhorni Íslands. Myrkvinn verður á 13. fulla tungli ársins 2028, sem er því einnig Blátt tungl. | # |
26.06.2029 | Almyrkvi |
00:34 | 03:22 | 06:09 | Tungl við sjóndeildarhring og sest áður en myrkvinn nær hámarki. | # |
20.12.2029 | Almyrkvi | 19:43 | 22:42 | 01:40 | Myrkvinn sést í heild sinni frá öllu Íslandi | # |
6. Að fylgjast með tunglmyrkva
Ekki er þörf á neinum búnaði til að fylgjast með tunglmyrkva. Hins vegar getur það aukið ánægjuna töluvert að nota handsjónauka eða stjörnusjónanuka til að stækka tunglið og greina smáatriði á myrkvuðu yfirborði tunglsins.
7. Myndasafn
Almyrkvi á tungli 28. október 2004Þessi almyrkvi sást vel frá Íslandi enda tungl hátt á lofti og veður hagstætt. Tunglið var almyrkvað milli 02:23 og 03:45 og var þessi mynd tekin frá Hafnarfirði um miðjan myrkva. Nánari upplýsingar um myrkvann eru á vef Almanaks Háskólans. Mynd: Snævarr Guðmundsson |
||
Almyrkvi á tungli 3.-4. mars 2007Hálfskuggamyrkvi hófst klukkan 20:18 en almyrkvinn náði hámarki klukkan 23:21. Þessi mynd var tekin skömmu eftir að almyrkva lauk en tunglið var þá að mestu enn í alskugganum. Stjarnan hægra megin á myndinni er 56 Leonis. Nánari umfjöllun um myrkvann er á vef Almanaks Háskólans. Mynd: Sævar Helgi Bragason |
||
Almyrkvi á tungli 21. desember 2010Sennilega hafa aldrei jafn margir Íslendingar séð almyrkva eins og þann sem varð á vetrarsólstöðum 21. desember 2010. Fjöldi fólks safnaðist saman fyrir framan Útvarpshúsið þar sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn stóðu fyrir stjörnuskoðun árla morguns. Þessa mynd tók Snævarr Guðmundsson og sýnir hún vel bogadreginn jarðskuggann. Nánari umfjöllun um myrkvann er á vef Almanaks Háskólans og hér á Stjörnufræðivefnum. Mynd: Snævarr Guðmundsson |
||
Almyrkvi á tungli 28. september 2015Aðfaranótt mánudagsins 28. september 2015 varð almyrkvi á tungli. Á sama tíma var tunglið næst Jörðu. Nánari umfjöllun um myrkvann má finna hér á Stjörnufræðivefnum. Mynd: Sævar Helgi Bragason |
Við óskum eftir fleiri myndum Íslendinga af tunglmyrkvum. Sendið okkur endilega myndir á [email protected].
8. Tengt efni
Heimildir
-
Þorsteinn Sæmundsson (2008). Um tunglmyrkva. Almanak Háskólans http://www.almanak.hi.is/tunglmrk.html. Sótt 27.07.11
-
Þorsteinn Sæmundsson (2011). Um tíðni sólmyrkva og tunglmyrkva. Almanak Háskólans http://www.almanak.hi.is/myrkvar.html. Sótt 27.07.11
- NASA Lunar Eclipse Page.
Hvernig vitna skal í þessa grein
-
Sævar Helgi Bragason (2011). Tunglmyrkvi. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/solkerfid-large/tunglid/tunglmyrkvi sótt (DAGSETNING)