Janúar 2024

  • Hvað sést á himninum í janúar?
    Hvað sést á himninum í janúar?

Í janúar 2024 kveður Venus morgunhimininn og Satúrnus kvöldhimininn. Júpíter skín þó enn skært á kvöldin innan um glæsileg vetrarstjörnumerki eins og Óríon.

HELST Á HIMNI Í JANÚAR 2024

2. janúar - Jörð næst sólu:

4. janúar - Morgun: Loftsteinadrífan Kvaðrantítar nær hámarki þennan morgun

14. janúar - Kvöld: Vaxandi tungl við Satúrnus í suðvestri

18. janúar - Kvöld: Tunglið skammt frá Júpíter

TUNGLIÐ

Nánari upplýsingar um tunglstöðu hvers dags má finna undir Tunglið í dag.

Tunglið Dagsetning Kvartil Fróðleikur
Tunglid-thridja-kvartil 4. janúar
kl. 03:30
Þriðja kvartil
(minnkandi)
Rís í kringum miðnætti og er í suðri við sólarupprás. Sést á morgnana. Góður tími til að skoða gígana í sjónauka.
Nytt-tungl 11. janúar
kl. 23:32
Nýtt tungl Milli Jarðar og sólar og sést því ekki á himni.
Tunglid-fyrsta-kvartil 18. janúar
kl. 03:52
Fyrsta kvartil
(vaxandi)
Rís í kringum hádegi og er á suðurhimni við sólsetur. Góður tími til að skoða gígana í sjónauka.
Fullt-tungl 25. janúar
kl. 17:54
Fullt tungl Rís við sólsetur, er hæst á himni um miðnætti, sést alla nóttina
  • Tungl fjærst Jörðu: 1. janúar - 404.909 km
  • Tungl næst Jörðu: 13. janúar - 362.267 km
  • Tungl fjærst Jörðu: 29. janúar - 405.777 km

NORÐURLJÓS

Á nýjum vef sem opnaður verður árið 2024, icelandatnight.is, verða aðgengilegar langbestu upplýsingarnar um geimveðrið og norðurljósavirkni, skýjahuluspá fyrir Ísland og annað sem sjá má á himni.

REIKISTJÖRNUR Á LOFTI

Merkúríus er ekki á lofti.

Venus er morgunstjarna í Sporðdrekanum í byrjun mánaðar, mjög lágt á lofti í birtungu. Venus hverfur af morgunhimninum upp úr miðjum mánuði og sést ekki aftur frá Íslandi fyrr en í desember á þessu ári.

Mars er hinumegin sólar og því ekki á lofti.

Júpíter er kvöldstjarna í Hrútnum. Að kvöldi 18. janúar verður tunglið rétt fyrir ofan Júpíter. Líttu eftir þeim um klukkan 20 þegar þau eru hátt á lofti í suðri.

Satúrnus er kvöldstjarna í Vatnsberanum  Hann er í suðri þegar orðið er dimmt upp úr klukkan 18:00 í byrjun janúar og sest í kringum klukkan 21:00. Satúrnus hættir að sjást í lok mánaðarins.

Úranus er kvöldstjarna í Hrútnum. Nota þarf sjónauka til að sjá hann.

Neptúnus er kvöldstjarna í Fiskunum. Nota þarf sjónauka til að sjá hann.

LOFTSTEINADRÍFUR

Loftsteinadrífan Kvaðrantítar er í hámarki að morgni 4. janúar.

Stjornuskodun-scaledLÆRÐU MEIRA

Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna er leiðarvísir um stjörnuhiminninn yfir Íslandi.

Í bókinni eru kort þar sem merkt eru áhugaverð fyrirbæri að skoða með handsjónaukum eða litlum stjörnusjónaukum.

VANTAR ÞIG STJÖRNUSJÓNAUKA?

VILT ÞÚ KOMAST Í STJÖRNUSKOÐUN?

Á Hótel Rangá er besta aðstaða landsins til stjörnuskoðunar

Í litlu húsi með afrennanlegu þaki eru tveir fyrsta flokks rafdrifnir og tölvustýrðir sjónaukar. Stjörnuskoðunarhúsið er opið öll heiðskír kvöld milli kl. 21 og 22:30. Þangað eru öll velkomin og er aðgangur ókeypis, þótt auðvitað sé skemmtilegast að gera sér glaðan dag og snæða kvöldverð á staðnum. Um eina og hálfa klukkustund tekur að aka frá höfuðborgarsvæðinu á Hótel Rangá.

Ég mæli með að fjölskyldur komi á föstudegi eða laugardegi svo yngsta fólkið sé ekki þreytt í skólanum daginn eftir.

Sævar Helgi Bragason