Mars 2024

  • Hvað er á himni í mars?
    Hvað er á himni í mars?

Í mars 2024 skín Júpíter skærast á himni og á fallegt stefnumót við tunglið að kvöldi 13. mars. Að morgni 25. mars verður djúpur hálfskuggamyrkvi á tungli.

HELST Á HIMNI Í MARS 2024

13. mars - Kvöld: Júpíter og tunglið saman á himninum.

14. mars - Kvöld: Tunglið við hlið Sjöstirnisins á kvöldhimninum.

20. mars - Vorjafndægur á norðurhveli kl. 03:06.

25. mars - Fullt tungl - Hálfskuggamyrkvi á tungli - Að morgni mánudagsins 25. mars verður hálfskuggamyrkvi á tungli. Hálfskuggamyrkvar verða þegar tunglið gengur inn í hálfskugga Jarðar. Slíkir myrkvar sjást alla jafna ekki með berum augum en í þetta skiptið er myrkvinn djúpur (96% af skífu tunglsins fer inn í hálfskuggann), svo glöggir athugaendur gætu séð að fulla tunglið virkar ögn dimmara en venjulega, sér í lagi neðri hluti þess. Ætti þetta að sjást best í kringum klukkan 06:30. Myrkvinn hefst kl. 04:53 og er í hámarki kl 07:13. Þá er tunglið að setjast frá Íslandi séð.

TUNGLIÐ

Nánari upplýsingar um tunglstöðu hvers dags má finna undir Tunglið í dag.

Tunglið Dagsetning Kvartil Fróðleikur
Tunglid-thridja-kvartil 3. mars
kl. 15:23
Þriðja kvartil
(minnkandi)
Rís í kringum miðnætti og er í suðri við sólarupprás. Sést á morgnana. Góður tími til að skoða gígana í sjónauka.
Nytt-tungl 10. mars
kl. 09:00
Nýtt tungl Milli Jarðar og sólar og sést því ekki á himni.
Tunglid-fyrsta-kvartil 17. mars
kl. 04:11
Fyrsta kvartil
(vaxandi)
Rís í kringum hádegi og er á suðurhimni við sólsetur. Góður tími til að skoða gígana í sjónauka.
Fullt-tungl 25. febrúar
kl. 07:00
Fullt tungl Rís við sólsetur, er hæst á himni um miðnætti, sést alla nóttina
  • Tungl næst Jörðu: 10. mars - 356.895 km
  • Tungl fjærst Jörðu: 23. mars - 406.294 km

NORÐURLJÓS

Á nýjum vef, icelandatnight.is, eru bestu upplýsingarnar um geimveðrið og norðurljósaútlit auk skýjahuluspár fyrir Ísland.

REIKISTJÖRNUR Á LOFTI

Merkúríus er ekki á lofti.

Venus er ekki á lofti.

Mars er ekki á lofti.

Júpíter er kvöldstjarna í Hrútnum. Hann er í vest-suðvestri við sólsetur í byrjun mánaðarins en vestri í lok mánaðarins og sest fyrir miðnætti.

Satúrnus er ekki á lofti.

Úranus er kvöldstjarna í Hrútnum. Nota þarf sjónauka til að sjá hann.

Neptúnus er ekki á lofti.

LOFTSTEINADRÍFUR

Í mars eru engar meiriháttar loftsteinadrífur.

Stjornuskodun-scaledLÆRÐU MEIRA

Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna er leiðarvísir um stjörnuhiminninn yfir Íslandi.

Í bókinni eru kort þar sem merkt eru áhugaverð fyrirbæri að skoða með handsjónaukum eða litlum stjörnusjónaukum.

VANTAR ÞIG STJÖRNUSJÓNAUKA?

VILT ÞÚ KOMAST Í STJÖRNUSKOÐUN?

Á Hótel Rangá er besta aðstaða landsins til stjörnuskoðunar

Í litlu húsi með afrennanlegu þaki eru tveir fyrsta flokks rafdrifnir og tölvustýrðir sjónaukar. Stjörnuskoðunarhúsið er opið öll heiðskír kvöld milli kl. 21 og 22:30. Þangað eru öll velkomin og er aðgangur ókeypis, þótt auðvitað sé skemmtilegast að gera sér glaðan dag og snæða kvöldverð á staðnum. Um eina og hálfa klukkustund tekur að aka frá höfuðborgarsvæðinu á Hótel Rangá.

Ég mæli með að fjölskyldur komi á föstudegi eða laugardegi svo yngsta fólkið sé ekki þreytt í skólanum daginn eftir.

Sævar Helgi Bragason