Messier 66

Bjálkaþyrilvetrarbraut í Ljóninu

  • M66, Messier 66, vetrarbraut
    Vetrarbrautin M66 í Ljóninu
Helstu upplýsingar
Tegund: Bjálkaþyrilvetrarbraut
Stjörnulengd:
11klst 20mín 15,0sek
Stjörnubreidd:
+12° 59′ 30″
Fjarlægð:
~35 milljón ljósár
Sýndarbirtustig:
+8,9
Hornstærð:
9,1 x 4,2  bogamínútur
Stjörnumerki: Ljónið
Önnur skráarnöfn:
NGC 3627

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði M66 og færði í skrá sína þann 1. mars, 1780 ásamt nágrannavetrarbrautinni M66. Í skrá sinni tekur Messier fram að hann hafi ekki séð vetrarbrautirnar tvær árið 1773 þegar halastjarna fór milli þeirra þann 1. og 2. nóvember það ár, líklega vegna birtu halastjörnunnar. 

M66 er talsvert stærri en nágranninn M65. Hún er 96 þúsund ljósár í þvermál og nokkuð afmynduð vegna þyngdartogsins sem verkar milli vetrarbrautanna í Ljónsþrenningunni. Þyrilarmarnir eru ósamhverfir, sem er harla óvenjulegt því oftast vinda þétt gas- og ryksvæði og nýmyndaðar stjörnur upp á miðju vetrarbrautar á samhverfan hátt. Kjarninn er heldur ekki í miðju vetrarbrautarinnar. Í þyrilörmunum sjást stjörnuþokur og nýmyndaðar stjörnuþyrpingar.

Frá árinu 1973 hafa fjórar sprengistjörnur sést í M66, seinast árið 2009:

  • 1973R sem var sprengistjarna af gerð II. Hún fannst 12. desember 1973 og náði 15. birtustigi.

  • 1989B fannst 31. janúar 1989 og náði birtustigi 12,2 þann 1. febrúar 1989.

  • 1997bs fannst 15. apríl 1997 og náði 17. birtustigi. Sprengistjarna af gerð IIn.

  • 2009hd fannst 2. júlí 2009 og náði birtustigi 15,8

Í júlí 2011 birti ESO glæsilega mynd af Ljónsþríeykinu sem tekin var með VST kortlagningarsjónaukanum og OmegaCAM myndavélinni.

Tenglar

Heimildir

  1. NASA/IPAC Extragalactic Database
  2. SEDS Messier: Messier 66

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). M66 - Bjálkaþyrilvetrarbraut í Ljóninu. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/m66 (sótt: DAGSETNING).