Ljónið
Latneskt heiti: |
Leo |
Bjartasta stjarna: | Regúlus |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
92 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
5 |
Nálægasta stjarna: |
Wolf 359 (7,8 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
5 |
Loftsteinadrífur: |
Leonítar |
Sést frá Íslandi: |
Já |
Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um stjörnumerkin í dýrahringnum og er í Ljóninu frá 10. ágúst til 16. seotember (en ekki frá 23. júlí til 23. ágúst eins og segir í stjörnuspám). Tunglið og reikistjörnurnar fara sömuleiðis aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Ljóninu. Fyrir kemur að tunglið gangi fyrir björtustu stjörnur merkisins.
Frá Íslandi séð tekur Ljónið að sjást að kvöldlagi upp úr áramótunum og er á kvöldhimninum fram í apríl. Það er í suðaustri klukkan tíu að kvöldi í mars.
Uppruni
Ljóninu var komið fyrir á himninum vegna þess að það er konungur dýranna. Merkið táknar Nemuljónið, óargardýr í grískri goðafræði sem Herakles drap í fyrstu þraut sinni af tólf. Nemuljónið hafði feld sem var járn-, brons- og steinheldur, eins og Herakles komst að raun um þegar hann skaut ör að ljóninu sem hrökk af því. Þessi stað tókst hann á við ljónið í fangabrögðum og kyrkti það. Í leiðinni missti hann einn fingur. Notaði hann síðan hnífbeittar klær ljónsins til að flá það og hafði síðan haus þess í stað hjálms og feldinn sem kufl.
Stjörnur
Stjörnumerkið Ljónið og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Um 52 stjörnur í Ljóninu sjást með berum augum. Auðvelt er að sjá fyrir sér útlínur ljóns í þessum stjörnum. Höfuðið markast af sex stjörnum sem mynda sigð eða öfugt spurningarmerki. Neðst í sigðinni er bjartasta stjarna merkisins, Regúlus, í hjarta ljónsins en í skottinu er stjarna kölluð Denebóla eftir arabíska orðinu yfir „ljónsskott“.
-
α Leonis eða Regúlus er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 1,35) og ein bjartasta stjarna næturhiminsins. Regúlus er fjórstirni í um 78 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Regúlus A er tvístirni sem samanstendur af bláhvítri meginraðarstjörnu af gerðinni B7 sem er tæplega fjórum sinnum massameiri en sólin, þrisvar til fjórum sinnum breiðari og 288 sinnum bjartari. Á braut um hana er lítil stjarna, sennilega hvítur dvergur, um 0,3 sólmassar, með um það bil 40 daga umferðartíma. Regúlus B og Regúlus C er annað tvístirni sem samanstendur af tveimur meginraðarstjörnum, annars vegar appelsínugulri stjörnu af K2 gerð og rauðum dvergi af gerðinni M4, báðar minni en sólin. Nafnið Regúlus er latneskt og merkir „prins“ eða „lítill konungur“.
-
γ Leonis er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 2,01). Hún er tvístirni í um 130 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarna kerfisins er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1 sem er 23% massameiri en sólin, 32 sinnum breiðari og 320 sinnum bjartari. Daufari stjarnan er af gerðinni G7, tíu sinnum breiðari en sólin og 40 sinnum bjartari. Stjörnurnar snúast umhverfis sameiginlega massamiðju á 410 árum. Við góðar aðstæður má með stjörnusjónauka greina á milli stjarnanna tveggja sem hafa birtustigin 2,6 og 3,5 (hornbilið er 5 bogasekúndur). Gamma Leonis er líka kölluð Algieba sem merkið „ennið“.
-
β Leonis eða Denebóla er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 2,11). Hún er hvít meginraðarstjarna af gerðinni A3 í um 36 ljósára fjarlægð frá jörðinni, samkvæmt hliðrunarmælingum evrópska gervitunglsins Hipparkosar. Denebóla er 75% massameiri en sólin, 73% breiðari og 15 sinnum bjartari. Henni svipar til stjörnunnar Vegu í Hörpunni og umhverfis þær báðar er að finna rykskífu þar sem reikistjörnur gætu myndast. Nafn stjörnunnar merkir „skott“ enda er hún í skotti ljónsins.
-
δ Leonis eða Zosma er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 2,56). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A4 í um 58 ljósára fjarlægð frá jörðinni, samkvæmt hliðrunarmælingum. Delta Leonis er rúmlega tvöfalt massameiri en sólin, tvöfalt breiðari og 15 sinnum bjartari. Nafn hennar merkir mitti og vísar til staðsetningar stjörnunnar í mjöðm ljónsins.
-
ε Leonis er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 2,97). Hún er risastjarna af gerðinni G1 í um 247 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Epsilon Leonis er fjórum sinnum massameiri en sólin, 21 sinnum breiðari og 288 sinnum bjartari. Epsilon Leonis kallast líka Ras Elased og Algenubi sem merkir „syðri stjarnan í höfði ljónsins“.
-
θ Leonis er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 3,33). Hún er hvít meginraðarstjarna af gerðinni A2 í um 165 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þeta Leonis er 2,5 sinnum massameiri en sólin og 140 sinnum bjartari. Hún ber einnig nöfnin Chertan og Chort sem merkir „lítið rifbein“.
-
ζ Leonis er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 2,56). Hún er risastjarna af gerðinni F0 í um 274 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Zeta Leonis er þrisvar sinnum massameiri en sólin, sex sinnum breiðari og 85 sinnum bjartari. Stjarnan gengur einnig undir nafninu Adhafera sem þýðir „hárlokkur“ og vísar raunar til stjörnumerkisins Bereníkuhadds en á engu að síður vel við því hún er í makkanum í höfði ljónsins.
-
η Leonis er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 3,48). Hún er hvít risastjarna af gerðinni A0 í um 1.275 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er sjö sinnum massameiri en sólin, 28 sinnum breiðari og 5.600 sinnum bjartari.
-
Ómíkron Leonis er níunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 3,53). Hún er tvístirni í um 135 ljósára fjarlægð sem samanstendur af risastjörnu af gerðinni F9 (Ómíkron Leonis A) og meginraðarstjörnu af gerðinni A5 (Ómíkron Leonis B). Stjörnurnar eru svo þétt saman að ekki er hægt að skilja þær sundur í sjónauka, heldur aðeins með litrófsmælingum. B-stjarnan hringsólar um A-stjörnuna rétt rúmum fjórtán dögum. A-stjarnan 37 sinnum bjartari en sólin, rúmlega fimm sinnum breiðari og tvisvar sinnum massameiri. B-stjarnan er rúmlega sextán sinnum bjartari en sólin og næstum tvisvar sinnum massameiri.
-
ρ Leonis er tíunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 3,86). Hún er tvístirni í um 5.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og því með fjarlægustu stjörnum sem sjá má með berum augum á himinhvelfingunni. Meginstjarnan er reginrisastjarna af gerðinni B1 sem er meira en 20 sinnum massameiri en sólin, 37 sinnum breiðari og 295.000 sinnum bjartari. Lítið sem ekkert er vitað um förunautinn.
-
μ Leonis er ellefta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 4,1). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K3 í um 133 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mu Leonis ber einnig nafnið Rasalas og Alshemali sem þýðir „nyrðri stjarnan í höfði ljónsins“.
-
ι Leonis er tólfta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 4,00). Hún er tvístirni í um 79 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stærri og bjartari stjarnan er undirmálsstjarna af gerðinni F4 sem er að breytast í risastjörnu en fylgistjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni G3 sem líkist sólinni okkar mjög. Umferðartími þeirra er 186 ár.
-
λ Leonis er risastjarna af gerðinni K5 í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 4,32). Hún er í um 330 ljósára fjarlægð frá jörðinni og skín 460 sinnum skærar en sólin. Lambda Leonis ber líka nafnið Alterf sem þýðir „augnaráð“ og vísar til staðsetningar hennar í auga ljónsins.
-
κ Leonis er appelsínugul risastjarna af gerðinni K2 í stjörnumerkinu Ljóninu (birtustig 4,46). Hún er í um 201 ljósára fjarlægð frá jörðinni og skín 95 sinnum skærar en sólin, er 17 sinnum breiðari og tvöfalt massameiri.
-
Wolf 359 er rauður dvergur af gerðinni M6,5 í stjörnumerkinu Ljóninu. Hún er þriðja nálægasta stjarnan við sólkerfið okkar í 7,8 ljósára fjarlægð. Þrátt fyrir nálægðina er hún mjög dauf og sést aðeins með stjörnusjónaukum (birtustig 13,5). Wolf 359 er aðeins 9% af massa sólar, 16% af breidd hennar og 0,1% af birtunni.
Djúpfyrirbæri
Ljónsþrenningin er hópur þriggja vetrarbrauta, M65, M66 og NGC 3628. Mynd: ESO/INAF-VST/OmegaCAM. Acknowledgement: OmegaCen/Astro-WISE/Kapteyn Institute |
Í Ljóninu eru mörg áhugaverð djúpfyrirbæri fyrir stjörnuáhugafólk að skoða, aðallega bjartar vetrarbrautir.
-
Messier 65 er þyrilvetrarbraut í um 35 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er hluti af Ljónsþrenningunni svonefndu. Hún er nokkuð björt og áberandi og sést því vel í gegnum áhugamannasjónauka.
-
Messier 66 er þyrilvetrarbraut í um 35 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er hluti af Ljónsþrenningunni svonefndu. Hún er björt og áberandi, talsvert stærri en nágranninn Messier 65 og sést því vel í gegnum áhugamannasjónauka.
-
Messier 95 bjálkaþyrilvetrarbraut í um 32 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þótt hún sé með daufari fyrirbærum Messierskrárinnar er fremur auðvelt að koma auga hana í gegnum litla stjörnusjónauka við góða aðstæður.
-
Messier 96 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 39 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er nokkuð dauf en sést engu að síður fremur auðveldlega í gegnum litla stjörnusjónauka við góðar aðstæður.
-
Messier 105 er sporvöluvetrarbraut í um 32 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þótt hún sé tiltölulega dauf sést hún leikandi með litlum áhugamannasjónaukum.
-
NGC 2903 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 30 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er nokkuð björt og sést í gegnum litla áhugamannasjónauka.
-
NGC 3370 er þyrilvetrarbraut í um 98 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er dauf og sést best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.
-
NGC 3521 er þyrilvetrarbraut í um 35 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er björt og tiltölulega nálæg og sést því fremur auðveldlega með litlum áhugamannasjónaukum.
-
NGC 3628 er þyrilvetrarbraut á rönd í um 36 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er hluti af Ljónsþrenningunni svonefndu. Hún er daufasta vetrarbrautin í hópnum en sést samt sem áður nokkuð auðveldlega í gegnum litla áhugamannasjónauka.
Loftsteinadrífur
Aðalgrein: Leonítar
Leonítar er loftsteinadrífa sem sést milli 15. nóvember og 18. desember. Drífan er í hámarki 17.-18. nóvember og virðist geislapunkturinn vera við stjörnuna Algíebu í sigðinni fremst í ljónsmerkinu. Leoníta má rekja til halastjörnunnar Tempel-Tuttle. Þeir eru án efa þekktasta loftsteinadrífan vegna þess að á um það bil 33 ára fresti fer Jörðin í gegnum sérlega þéttan hluta af rykslóða halastjörnunnar. Árið 1833 var einstaklega mikil loftsteinahríð og gátu áhorfendur sér þess til að sést hefðu um 100 þúsund stjörnuhröp á einni klukkustund.
Stjörnukort
Stjörnukort af Ljóninu í prentvænni útgáfu er að finna hér.