Messier 103
Lausþyrping í Kassíópeiu
Tegund: | Lausþyrping |
Stjörnulengd: |
01klst 33,2mín |
Stjörnubreidd: |
+60° 42′ |
Fjarlægð: |
8.000 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+7,4 |
Stjörnumerki: | Kassíópeia |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 581 |
Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði þyrpinguna árið 1781. Skömmu síðar bætti landi hans og vinur Charles Messier þyrpingunni við skrá sína en hann hafði hvorki tíma né tækifæri til að skoða hana áður en skráin var gefin út.
Messier 103 er með fjarlægustu lausþyrpingum Messerskrárinnar. Hún er milli 8-10 þúsund ljósár í burtu frá jörðinni og um það bil 15 ljósár í þvermál. Í henni eru einhvers staðar á bilinu 40 og 170 stjörnur. Tvær björtustu eru bláir risar í litrófsflokki B með sýndarbirtustig +10,5 en þar á eftir kemur rauður M6 risi af birtustigi +10,8 sem er mjög áberandi á myndinni af þyrpingunni. Þyrpingin er álitin um 25 milljón ára gömul og stefnir í átt til okkar á 37 km hraða á sekúndu.
Fyrir framan þyrpinguna, í norðurjaðri hennar, er þrírstirnið Struve 131 mjög áberandi.
Á himninum
Mjög auðvelt er að finna Messier 103 á himinhvolfinu með hjálp stjörnukorts af Kassíópeiu. Þyrpingin er aðeins eina og hálfa gráðu norðaustur af stjörnunni Delta í Kassíópeiu. Hún er nokkuð gisin en sést sem keilulaga móðublettur í gegnum handsjónauka. Auðvelt er að greina sundur stjörnur í þyrpingunni með stjörnusjónauka og er þá best að nota litla stækkun. Allt í kring eru margar daufari lausþyrpingar.
Tengt efni
Heimildir
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 103. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-103 (sótt: DAGSETNING).