Kassíópeia

  • stjörnukort, stjörnumerki, Kassíópeia
    Kort af stjörnumerkinu Kassíópeiu
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Cassiopeia
Bjartasta stjarna: γ Cassiopeiae
Bayer / Flamsteed stjörnur:
53
Stjörnur bjartari +3,00:
4
Nálægasta stjarna:
η Cassiopeiae
(19,4 ljósár)
Messier fyrirbæri:
2
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:

Kassíópeia er svo nálægt norðurpól himins að hún er pólhverf og því alltaf sjáanleg á himninum yfir Íslandi. Hún er nánast beint fyrir ofan athugendur á vetrarkvöldum í kringum áramótin.

Kassíópeia er bjart og auðþekkjanlegt stjörnumerki. Björtustu stjörnurnar mynda bókstafinn „W“ og er hún því oft notuð sem leiðarmerki til að finna önnur fyrirbæri á himinhvelfingunni.

Uppruni

Kassíópeia var hin hégómafulla drottning í Eþíópíu. Hún var kona Sefeusar Eþíópíukonungs sem situr næst henni á himninum. Þau eru einu „hjónin“ meðal stjörnumerkjanna.

Þegar Kassíópeia greiddi langa lokka sína dag einn sagðist hún vera fallegri en sjávardísirnar. Slíka forsynju gátu sjávardísirnar, hinar fimmtíu dætur Nereifs, ekki látið yfir sig ganga og leituðu hefnda. Ein þeirra, Amfitríta, var gift sjávarguðinum Póseidoni og bað hún hann að refsa Kassíópeiu fyrir sjálfumgleðina.

Póseidon varð að ósk þeirra. Hann sendi ógurlegt skrímsli að ströndum ríkidæmis Sefeusar sem gerði þar mikinn usla. Skrímslið er nú minnst í stjörnumerkinu Hvalnum. Til að friðþægja ófreskjuna hlekkjuðu Sefeus og Kassíópeia Andrómedu dóttur sína við klett og færðu skrímslinu að fórn. En í sömu andrá og sjávarskrímslið ætlaði að bíta í Andrómedu, kom hetjan Perseifur aðvífandi, drap skrímslið og bjargaði Andrómedu.

Í refsingarskyni var Kassíópeiu færð upp á himininn. Þar situr hún í hásæti sínu og strýkur hár sitt. TIl að bæta ofan á refsinguna var hún dæmd til að hringsóla að eilífu um norðurpól himins og hangir hún þar stundum á hvolfi, skelfingu lostin.

Stjörnur

Kassíópeia, stjörnumerki
Ljósmynd af stjörnumerkinu Kassíópeiu. Appelsínugula stjarnan er Schedar sem er í brjósti drottningarinnar. Mynd: Akira Fujii

Fjórar stjörnur Kassíópeiu eru bjartari en birtustig 3 en fimm björtustu stjörnurnar mynda tvöfalda vaffið.

  • γ Cassiopeiae er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kassíópeiu (birtustig 2,15). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni B0,5, næstum tuttugu sinnum massameiri en sólin, fjórtán sinnum breiðari og 55.000 sinnum bjartari. Hún er sveiflustjarna sem breytir birtu sinni með óreglulegum hættum milli birtustiga 2,20 og 3,40. Gamma Cassiopeia er einnig litrófstvístirni með 204 daga umferðartíma en massi förunautsins er talinn álíka mikill og massi sólar.

  • α Cassiopeiae eða Schedar (brjóstið) er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kassíópeiu (birtustig 2,24). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0, rúmlega fjórum sinnum massameiri en sólin, fjörutíu sinnum breiðari og næstum 700 sinnum bjartari. Samkvæmt hliðrunarmælingum evrópska gervitunglsins Hipparkosar er Alfa Cassiopeia í um 228 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • β Cassiopeiae eða Caph (lófinn) er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kassíópeiu (birtustig 2,28). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni F2 sem er að þróast yfir í risastjörnu. Beta Cassiopeiae er breytistjarna af Delta Scuti gerð, bjartasta stjarna þeirrar tegundar á himninum á eftir Altair og breytir hún birtu sinni frá 2,25 til 2,31 á rúmlega tveggja stunda fresti. Beta Cassiopeia er tvístirni en lítið er vitað um fylgistjörnuna.

  • δ Cassiopeiae er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kassíópeiu (birtustig 2,66). Hún er myrkvatvístirni þar sem tvær stjörnur ganga fyrir hvor aðra á 759 dögum. Bjartari stjarnan er undirmálsstjarna af gerðinni A5 sem er að þróast yfir í risastjörnu. Kerið er í um 99 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Delta Cassiopeiae ber einnig nafnið Ruchbah sem þýðir „hné“.

  • ε Cassiopeiae er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kassíópeiu (birtustig 3,35). Hún er risastjarna af gerðinni B3 í um 400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er rúmlega níu sinnum massameiri en sólin, sex sinnum breiðari og 2.500 sinnum bjartari. Epsilon Cassiopeiae ber einnig nafnið Segin.

  • η Cassiopeiae er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kassíópeiu (birtustig 3,46). Hún er tvístirni í rúmlega 19 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni G0 sem svipar mjög til sólarinnar. Daufari stjarnan er rauður dvergur af gerðinni K7 sem er rúmlega helmingi minni en sólin en gefur aðeins frá sér 6% af birtu sólar. Stjörnurnar snúast um sameiginlega massamiðju á 480 árum. Eta Cassiopeiae ber einnig nafnið Achird.

  • θ Cassiopeiae er tíunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kassíópeiu (birtustig 4,34). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A7 í um 137 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þeta Cassiopeiae ber einnig nafnið Marfak sem þýðir „olnboginn“.

  • ρ Cassiopeiae er fjórtánda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kassíópeiu (birtustig 4,51). Hún er gulur reginrisi af gerðinni F8 í um 11.600 ljósára fjarlægð. Ró Cassiopeiae er 40 sinnum massameiri en sólin, 450 sinnum breiðari og 500.000 sinnum bjartari. Hún er því með stærstu og björtustu stjörnum sem vitað er um í vetrarbrautinni okkar.

  • R Cassiopeiae er rauð risastjarna af gerðinni M7 í stjörnumerkinu Kassíópeiu. Hún er sveiflustjarna af Mírugerð sem breytir birtu sinni frá +4,7 upp í +13,5 á rúmum 430 dögum. R Cassiopeia er í 348 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Vetrarbrautin liggur í gegnum Kassíópeiu svo þar eru mörg áhugaverð djúpfyrirbæri, einkum lausþyrpingar og geimþokur en líka fáeinar vetrarbrautir.

  • Messier 52 er lausþyrping í um 5.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. í henni eru um 100 stjörnur, þar á meðal ein mjög áberandi appelsínugul stjarna við jaðar þyrpingarinnar. Skammt suðvestur af henni er ljómþokan NGC 7635 eða Bóluþokan, mun lengra í burtu eða í um 11.000 ljósára fjarlægð. M52 sést vel með hand- og stjörnusjónaukum en Bóluþokan er mun daufari og sést best í gegnum stóra áhugamannasjónauka.

  • Messier 103 er lausþyrping í um 8 til 10 þúsund ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hana er að finna aðeins eina og hálfa gráðu norðaustur af stjörnunni Delta í Kassíópeiu. Hún er nokkuð gisin en sést sem keilulaga móðublettur í gegnum handsjónauka.

  • NGC 278 er þyrilvetrarbraut í um 39 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er fremur dauf og sést því best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

  • NGC 281 eða Pacmanþokan er ljómþoka í um 9.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • NGC 457 eða Ugluþyrpingin er lausþyrping í um 8.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er tiltölulega björt og sést leikandi í gegnum handsjónauka.

  • NGC 663 er lausþyrping í um 6.900 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er víðfeðm og sést með berum augum við bestu aðstæður en betra er að notast við stjörnusjónauka til að skoða hana.

Cassiopeia A, sprengistjörnuleif
Sprengistjörnuleifin Cassiopeia A er sú yngsta sinnar tegundar í nágrenni okkar í vetrarbrautinni. Mynd: NASA, ESA

Í Kassíópeiu eru tvær dvergsporvölur sem vert er að nefna, NGC 147 og NGC 185. Báðar eru í yfir tveggja milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni og eru fylgivetrarbrautir Andrómeduvetrarbrautarinnar (M31).

Í Kassíópeiu eru tvær sprengistjörnuleifar.

  • 3C 10 er leifar sprengistjörnu sem sást snemma í nóvember árið 1572 og Tycho Brahe lýsti í ritum sínum. Sprengistjarnan var af gerðinni Ia og náði mest birtustigi –4, sem er álíka mikil og birta Venusar. Leifarnar eru í 8.000 til 9.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • Cassiopeia A er önnur sprengistjörnuleif í um 11.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan sem myndaði hana sprakk fyrir um 300 árum en engar ritaðar heimildir eru til um hana og leifar hennar fundust ekki fyrr en árið 1947. Cas A er ein skærasta útvarpslindin á himninum.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Kassíópeia
Stjörnumerkið Kassíópeia og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Kassíópeiu í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Cassiopeia

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Cassiopeia_(constellation)