Messier 37
Lausþyrping í Ökumanninum
Tegund: | Lausþyrping |
Stjörnulengd: |
5klst 52mín 19s |
Stjörnubreidd: |
+32° 33′ 2" |
Fjarlægð: |
4.400 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+6,2 |
Stjörnumerki: | Ökumaðurinn |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 2099 |
Ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Batista Hodierna uppgötvaði þyrpinguna fyrir árið 1654. Uppgötvun Hodiernas varð mönnum reyndar ekki ljós fyrr en árið 1984. Þann 2. september árið 1764 rataði hún í skrá franska stjörnufræðingsins Charles Messier yfir þokukennd fyrirbæri á stjörnuhimninum sem líktust halastjörnum.
Messer 37 er í um 4.400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni eru yfir 500 stjörnur á svæði sem er í kringum 25 ljósár í þvermál. Hér um bil 150 stjörnur með birtustig á bilinu +9 til +12,5 sjást í gegnum áhugamannasjónauka og fellur sú bjartasta í litrófsflokk B9V.
Messier 37 er um það bil 300 milljón ára gömul. Í henni er rúmur tugur rauðra risa, öfugt við Messier 36 sem inniheldur enga.
Á himninum
Messier 37 er alla jafn hátt á íslenska stjörnuhimninum. Þyrpingin sést með berum augum sem daufur þokublettur við bestu aðstæður en gott er að nota stjörnukort af Ökumanninum til að finna hana.
Messier 37 er björtust og stærst lausþyrpinganna þriggja í Ökumanninum og sú glæsilegasta að sjá með stjörnusjónauka. Best er að nota litla stækkun til að skoða hana því flatarmál hennar á himninum er álíka mikið og flatarmál fulls tungls.
Þyrpingin er kjörið viðfangsefni byrjenda í stjörnuskoðun og vitaskuld lengra kominna líka.
Tengt efni
Heimildir
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 37. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-37 (sótt: DAGSETNING).