Messier 67
Lausþyrping í Krabbanum
Tegund: | Lausþyrping |
Stjörnulengd: |
08klst 51,4mín |
Stjörnubreidd: |
11° 49′ |
Fjarlægð: |
2.600 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+6,1 |
Stjörnumerki: | Krabbinn |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 2682 |
Þýski stjörnufræðingurinn Johann Gottfried Koehler sá þyrpinguna fyrstur svo vitað sé fyrir árið 1779 en margt bendir til að hann hafi getað greint sundur einstakar stjörnur í henni. Charles Messier fann þyrpinguna sjálfur og lýsir henni í skrá sinni þann 6. apríl 1780 sem þyrpingu smárra stjarna í þokumóðu.
Messier 67 er í hópu elstu lausþyrpinga sem fundist hafa og er langelst af þeim lausþyrpingum sem finna má í skrá Messiers. Talið er að þyrpingin sé um 3-4 milljarða ára gömul sem er fáheyrt um lausþyrpingar sem sundrast með tímanum. Stjörnufræðingar spá henni langlífi en þeir hafa reiknað út að stjörnurnar geti haldið hópinn í um 5 milljarða ára til viðbótar sem er svipaður tími og sólin okkar á eftir ólifaðan.
Stjörnur þyrpingarinnar eru nokkuð yngri en sólin okkar en hafa svipaða efnasamsetningu. Fundist hafa um 100 stjörnur í Messier 67 sem svipar til sólarinnar okkar en alls er talið að um 500 stjörnur séu í þyrpingunni sem í heild eru um 1.400 sólmassar.
Á himninum
Messier 67 er í um 2.600 ljósára fjarlægð frá sólkerfinu. Sýndarbirtustig hennar er +6,1 svo þyrpingin sést aðeins með berum augum nema við bestu mögulegu stjörnuskoðunaraðstæður. Hægt er að koma auga á hana með handsjónauka og stjörnusjónauka nærri stjörnunni alfa í suðausturhluta Krabbamerkisins (sjá stjörnukort af Krabbanum). Hún er falleg í meðalstórum sjónauka og skera 20-30 björtustu stjörnurnar sig úr skaranum.
Tengt efni
Heimildir
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 67. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-67 (sótt: DAGSETNING).