Messier 72
Kúluþyrping í Vatnsberanum
Tegund: | Kúluþyrping |
Stjörnulengd: |
20klst 53mín 27,91s |
Stjörnubreidd: |
-12° 32′ 13,4" |
Fjarlægð: |
53.000 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+9,3 |
Stjörnumerki: | Vatnsberinn |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 6981 |
Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði þyrpinguna aðfaranótt 30. ágúst 1780. Landi hans Charles Messier kíkti síðan á þyrpinguna 4. og 5. október og færði í skrá sína. Báðir töldu hana daufa þoku en ekki þyrpingu.
Messier 72 er í um 53.000 ljósára fjarlægð frá sólinni, sem er tvöfalt lengri vegalengd en til miðju Vetrarbrautarinnar. Hún er í hópi daufari kúluþyrpinga í skrá Messiers með sýndarbirtustigið +9,3. Í raun og veru er Messier 72 meðal björtustu kúluþyrpinga í Messierskránni en virðist dauf vegna mikillar fjarlægðar. Sýndarbirtustig björtustu stjarna þyrpingarinnar er í kringum +14.
Á himninum
Messier 72 er um 4° sunnan við stjörnurnar μ (mí) og ε (epsilon) og skammt frá samstirninu Messier 73 og Satúrnusarþokunni NGC 7009 (sjá stjörnukort af Vatnsberanum). Hún er það dauf að hún sést vart í handsjónauka og því þarf stjörnusjónauka til að skoða hana. Vegna fjarlægðar er einungis hægt að greina sundur einstakar stjörnur í stórum sjónaukum.
Tengt efni
-
Kúluþyrping
Heimildir
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 72. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-72 (sótt: DAGSETNING).