Messier 77

Þyrilþoka í Hvalnum

  • Messier 77, þyrilþoka, Seyfert vetrarbraut, Hvalurinn
    Þyrilþokan Messier 77 í Hvalnum. Mynd: NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Bjálkaþyrilþoka
 Gerð: (R)SA(rs)b
Stjörnulengd:
2klst 42mín 40,7s
Stjörnubreidd:
-00° 00′ 48"
Fjarlægð:
60 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
1137 ± 3 km/s
Sýndarbirtustig:
+9,6
Stjörnumerki: Hvalurinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 1068

Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði vetrarbrautina þann 29. október árið 1780. Þann 17. desember sama ár færði landi hans og vinur Charles Messier fyrirbærið í skrá sína. Messier og William Herschel lýstu henni báðir sem stjörnuþyrpingu en ekki vetrarbraut. Líklega hafa þeir ruglast á stjörnum í forgrunni eða kekkjum í þokunni.

Messier 77 var einn þeirra fjórtán þyrilþoka sem William Parsons, lávarður af Rosse, hafði rissað upp og skráð hjá sér. Það var ekki fyrr en upp úr 1920 að Edwin Hubble fann út að þyrilþokurnar voru langt fyrir utan vetrarbrautina okkar.

Messier 77 er í um 60 milljón ljósára fjarlægð. Árið 1914 gerði bandaríski stjörnufræðingurinn Vesti Slipher við Lowell stjörnustöðina, litrófsmælingar á vetrarbrautinni sem sýndu að hún fjarlægist okkur á 1.100 km hraða á sekúndu. Þetta var önnur vetrarbrautin sem menn uppgötvuðu að sýndi hátt rauðvik, hin var Mexíkóahatturinn M104.

Þessi glæsilega vetrarbraut er ein sú stærsta í skrá Messiers. Hún er um eða yfir 170.000 ljósár í þvermál, skreytt björtum, breiðum þyrilörmum og björtum kjarna. Á innri svæðum vetrarbrautarinnar eru ungar, bláleitar stjörnuþyrðingar en utar eru að mestu fremur einsleitar, gamlar, gulleitar stjörnur. Heildarmassi Messier 77 er um 1 trilljón sólmassar.

Messier 77 er langstærsta vetrarbrautin í litlum hópi meira en sex vetrarbrauta, mestmegnis þyrilþoka.

Seyfert vetrarbraut

Messier 77, þyrilvetrarbraut, vetrarbraut
Mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA af þyrilvetrarbrautinni Messier 7. Rauðu blettirnir í þyrilörmunum eru stjörnumyndunarsvæði. Messier 77 flokkast sem Seyfert vetrrabraut en þær hafa mjög jónað gas í kringum mjög virkan kjarna. Mynd: NASA, ESA & A. van der Hoeven

Messier 77 er nálægasta og bjartasta Seyfert vetrarbrautin við jörðina. Slíkar vetrarbrautir eru nefndar eftir Carl K. Seyfert sem lýsti þeim fyrstur árið 1943. Seyfert vetrarbrautir hafa bjarta kjarna, afbrigðilegt ljómlínuróf og sterka útvarpsútgeislun.

Breiðu ljómlínurnar í litrófi Messier 77 bendir til þess að risavaxið gasský stefni hraðbyri út frá kjarnanum á nokkur hundruð km hraða á sekúndu. Rekja má uppruna þessarar miklu virkni til 10 milljón sólmassa risasvarthols í miðjunni. Frá svæðinu í kringum svartholið berst hin mikla útvarpsgeislun. Í kringum svartholið sjálft er risavaxin skífa, um 5 ljósár í þvermál, sem inniheldur vatnssameindir. Við kjarnanna er auk þess þétt þyrping stjarna og ljómþokur þar sem mikil stjörnumyndun á sér stað. Þessar ljómþokur eru líklega þau björtustu sem vitað er um í innan við 100 milljón ljósára fjarlægð frá okkur.

Á himninum

Messier 77 sést vel frá Íslandi. Með hjálp stjörnukorts af Hvalnum er auðvelt að finna vetrarbrautina rétt innan við eina gráðu suðaustur af stjönunni Delta Ceti. Í áhugamannasjónauka eru innstu svæðin mest áberandi. Sjá má heilmikil smáatriði í stærri stjörnusjónaukum við meiri stækkun.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 77. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-77 (sótt: DAGSETNING).