Hubble kannar leyndardóma Messier 77

Sævar Helgi Bragason 28. mar. 2013 Fréttir

Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók þessa glæsilegu mynd af vetrarbrautinni Messier 77

  • Messier 77, þyrilvetrarbraut, vetrarbraut

Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók þessa glæsilegu mynd af þyrilvetrarbrautinni Messier 77, einni þekktustu og mest rannsökuðu vetrarbraut himins. Rauðu blettirnir á víð og dreif um vetrarbrautina eru stjörnumyndunarsvæði í þyrilörmum hennar og einnig má sjá ryðrauðar rykslæður sem teygja sig inn að miðjunni.

Messier 77 er þyrilvetrarbraut í um 45 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Hvalnum. Hún er einnig þekkt sem NGC 1068 og er ein þekktasta og mest rannsakaða vetrarbrautin á himinhvolfinu. Messier 77 er eiginlega stjarna á meðal vetrarbrauta því fleiri greinar hafa verið ritaðar um hana en margar aðrar vetrarbrautir samanlagt!

Þrátt fyrir frægð sína og glæsilegt útlit hefur hún löngum valdið mönnum heilabrotum. Þegar hún fannst fyrst árið 1780 þekktu menn ekki muninn á gasskýi og vetrarbraut svo franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain, sá sem uppgötvaði hana, áttaði sig ekki á að um þyrilþoku væri að ræða og flokkaði hana sem venjulega geimþoku. Síðar var hún aftur flokkuð ranglega sem stjörnuþyrping í Messiersskránni.

Í dag er vetrarbrautin skilgreind sem bjálkaþyrilvetrarbraut með fremur gisna arma og tiltölulega litla miðbungu. Hún er nálægasta og skærasta dæmið um sérstaka tegund vetrarbrauta sem kallast Seyfert vetrarbrautir — vetrarbrautir sem eru uppfullar af heitu og mjög jónuðu gasi sem skín skært og gefur frá sér öfluga geislun.

Geislunin öfluga kemur úr hjarta Messier 77 og má rekja til mjög virks svarthols sem er í kringum 15 milljón sinnum massameira en sólin okkar. Efni sem dregst í átt að þessu svartholi hringsólar í kringum það, hitnar og skín skært. Í einni vetrarbraut getur þetta svæði, þótt það sé tiltölulega lítið, verið tug þúsund sinnum bjartara en dæmigerð vetrarbraut.

Þyrilarmar Messier 77 eru sömuleiðis nokkuð bjartir. Á víð og dreif í þeim er aragrúi rauðra kekkja — glögg merki um ný stjörnumyndunarsvæði. Ungu stjörnurnar í þeim gefa frá sér orkuríka útfjólubláa geislun sem jónar gas í kring sem gefur að lokum frá sér rauðan lit. Rykslæðurnar sem liggja þvert yfir armana virðast ryð- eða brúnrauðir vegna fyrirbæris sem kallast geimroðnun; rykið gleypir meira blátt ljós en rautt svo rauði liturinn eflist.

Skýringar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Myndir: NASA, ESA & A. van der Hoeven)

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Sími: 896-1984
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1305

Tengdar myndir

  • Messier 77, M77, þyrilvetrarbraut, vetrarbrautMynd Hubble geimsjónauki NASA og ESA af þyrilvetrarbrautinni Messier 77 — vetrarbraut í um 45 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Hvalnum. Rauðu blettirnir í þyrilörmunum eru stjörnumyndunarsvæði. Messier 77 flokkast sem Seyfert vetrrabraut en þær hafa mjög jónað gas í kringum mjög virkan kjarna. Mynd: NASA, ESA & A. van der Hoeven
  • LRLL 54361, IC 348, frumstjarna, myndun stjarna, ljósbergmál, ljósblossiMynd úr Digitized Sky Survey 2 af þyrilvetrarbrautinni Messier 77 og nágrenni. Mynd: NASA, ESA, Digitized Sky Survey 2