Messier 83

Suðursvelgurinn: Bjálkaþyrilþoka í Vatnaskrímslinu

  • M83, bjálkaþyrilvetrarbraut
    Bjálkaþyrilvetrarbrautin M83 í Vatnaskrímslinu
Helstu upplýsingar
Tegund: Bjálkaþyrilþoka
 Gerð: SAB(s)c
Stjörnulengd:
13klst 37mín 00,9s
Stjörnubreidd:
-29° 51′ 57"
Fjarlægð:
15 milljónir ljósára
Sjónstefnuhraði:
513 ± 2 km/s
Sýndarbirtustig:
+7,54
Stjörnumerki: Vatnaskrímslið
Önnur skráarnöfn:
NGC 5236

Franski stjörnufræðingurinn Nicholas Louis de Lacaille uppgötvaði M83 þann 23. febrúar 1752 er hann var við stjörnuathuganir frá Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku. Þetta var þriðja vetrarbrautin sem fannst á eftir Messier 31 og Messier 32 og fyrsta vetrarbrautin sem fannst fyrir utan Grenndarhópinn. Þann 17. febrúar 1781 skrásetti landi hans Charles Messier þokuna og hafði orð á því að mjög erfitt væri að greina hana þar sem hún væri á mörkum þess að vera of sunnarlega á himinhvelfingunni frá athugunarstað sínum í Frakklandi.

Franska hljómsveitin M83 er nefnd eftir þessari vetrarbraut.

Eiginleikar

Messier 83 er bjálkaþyrilþoka í um 15 milljón ljósára fjarlægð. Hún er aðeins 40.000 ljósár á breidd eða 40 prósent af stærð Vetrarbrautarinnar en svipar þónokkuð til hennar, bæði hvað varðar þyrilarmana og bjálkans í miðjunni. Á myndum sést að þyrilarmarnir eru bláleitir og útataðir í bleikum stjörnumyndunarsvæðum, þ.e. stórum ljómþokum úr vetnisgasi sem glóir fyrir tilverknað ungu, heitu, bláu stjarnanna. Í miðjunni eru eldri og rauðleitari stjörnur svo hann sýnist gulleitur.

Messier 83 er fræg meðal stjörnufræðinga vegna þeirra fjölmörgu sprengistjarna, risasprenginga sem marka ævilok sumra stjarna, sem hún hefur hýst. Á síðustu öld sáust sex sprengistjörnur í Messier 83 — metfjöldi sem aðeins ein önnur vetrarbraut státar líka af — en ein þeirra, SN 1957D var sýnileg í 30 ár!

Messier 83 er stundum nefnd Suðursvelgurinn (Svelgurinn á norðurhveli er Messier 51). Hún tilheyrir litlum hópi vetrarbrauta sem kenndur er við hana og inniheldur meðal annars NGC 5128 sem er betur þekkt sem Centaurus A.

Á himninum

Messier 83 er svo sunnarlega á himinhvelfingunni að hún sést því miður ekki frá Íslandi. Það er mikil synd því hún er með glæsilegustu djúpfyrirbærum himins, eins og höfundur þessarar greinar getur vitnað til um eftir að hafa skoðað hana nokkrum sinnum frá Chile og Suður Afríku. Í Chile skoðaði höfundur hana með 17 tommu sjónauka en 14 tommu sjónauka í Suður Afríku og var hún hreint stórkostleg að sjá. Messier 83 sést leikandi með handsjónauka en hún nýtur sín best í gegnum stjörnusjónauka.

Til að finna vetrarbrautina þarf að styðjast við stjörnukort af Vatnaskrímslinu. Frá suðurhveli jarðar er auðveldast að finna hana út frá stjörnumerkinu Mannfáknum þar sem hún er við norðurmörk þess merkis og Vatnaskrímslisins, norðan við stjörnunar Jóta og Þeta í Mannfáknum.

Myndasafn

 M83, bjálkaþyrilvetrarbraut  

Suðursvelgurinn í allri sinni dýrð

Mynd Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile af Messier 83 eða Suðursvelgnum í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu. Messier 83 er í um 15 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni og er um 40.000 ljósár í þvermál eða 40% af stærð okkar vetrarbrautar. Messier 83 svipar þó til Vetrarbrautarinnar því báðar eru bjálkaþyrilþokur.

Mynd: ESO

Messier 83, bjálkaþyrilþoka, Suðursvelgurinn, Vatnaskrímslið

Ný og skýr sýn á klassíska þyrilþoku

Innrauð ljósmynd af Suðursvelgnum Messier 83 sem tekin var með HAWK-I myndavélinni á Very Large Telescope (VLT) ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile. Þetta er skarpasta og nákvæmasta mynd sem tekin hefur verið af þessari vetrarbraut frá jörðinni.  Í innrauðu ljósi verður mestur hluti ryksins sem hylur stóran hluta Messier 83 gegnsætt. Björt gasský umhverfis heitar ungar stjörnur í þyrilörmunum eru sömuleiðis ekki eins áberandi á innrauðum myndum. Þess vegna sést uppbygging vetrarbrautarinnar betur sem og þær fjölmörgu stjörnur sem hún inniheldur.

Mynd: ESO/M. Gieles. Þakkir: Mischa Schirmer

Messier 83, bjálkaþyrilþoka, Suðursvelgurinn, Vatnaskrímslið

Mynd Hubble geimsjónaukans af Messier 83

Mynd Hubble geimsjónaukans af Suðursvelgnum Messier 83. Á myndinni sjást mörg hundruð ungar, bláleitar stjörnuþyrpingar, gamlar rauðleitar kúluþyrpingar og mörg hundruð þúsund stjörnur, mestmegnis bláir risar og rauðir reginrisar. Rauðbleiku svæðin eru stjörnumyndunarsvæði, ekki ósvipuð Sverðþokunni í Óríon.

Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team STScI/AURA).

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 83. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-83 (sótt: DAGSETNING).