Vatnaskrímslið

  • stjörnukort, stjörnumerki, Vatnaskrímslið
    Kort af stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Hydra
Bjartasta stjarna: α Hydra
Bayer / Flamsteed stjörnur:
75
Stjörnur bjartari +3,00:
2
Nálægasta stjarna:
LHS 3003
(21 ljósár)
Messier fyrirbæri:
3
Loftsteinadrífur:
Alfa Hýdrítar
Sigma Hýdrítar
Sést frá Íslandi:
Að hluta

Uppruni

Vatnaskrímslið kemur við sögu í tveimur goðsögnum. Í þeirri þekktari kemur Vatnaskrímslið fram í annarri þraut Heraklesar. Í íslensku útgáfu Wikipediu eru eftirfarandi orð höfð um þessa þraut:

„[Lernuormurinn] hafði óteljandi hausa og meðal þeirra einn, sem var ódauðlegur. Herakles hjó hausana af orminum, en uxu þá jafnan tveir í stað þess, er af var höggvinn. Sveið Herakles þá með glóandi eikarstofnum fyrir strjúpana og varpaði síðan heljarmiklu bjargi á þann hausinn sem ódauðlegur var. Rauð hann síðan örvar sínar með blóði Lernuormsins og særðu þær upp frá því ólæknandi sárum.“

Í hinni sögunni tengist vatnaskrímslið stjörnumerkjunum Hrafninum og Bikarnum sem liggja ofan á skrímslinu. Apolló sendi hrafninn til að sækja vatn í bikar en freistaðist til að éta ávexti af fíkjutréi á leiðinni. Þegar hrafninn sneri aftur til Apollós, sagði hann að vatnaskrímslið hefði hindrað aðgang hans að vatninu og honum hafi þess vegna seinkað. Apolló sá í gegnum lygina og refsaði hrafninum því að setja hann á himininn þar sem vatnaskrímslið hindrar hann í að drekka úr vatnsbikarnum.

Stjörnur

Hrafninn, bikarinn, vatnaskrímslið, stjörnumerk
Stjörnumerkin Hrafninn, Bikarinn og Vatnaskrímslið. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Þótt Vatnaskrímslið sé stórt merki eru fáar áberandi stjörnur. Bjartasta stjarnan er af öðru birtustigi.

  • α Hydrae er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu (birtustig 2). Nafn hennar á arabísku, Alphard, merkir „sú einmannalega“ og vísar til þess að í nágrenni hennar eru engar bjartar stjörnur. Alphard er risastjarna af gerðinni K3 sem er þrisvar sinnum massameiri en sólin, 50 sinnum breiðari og 780 sinnum skærari. Hún er í um 177 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • γ Hydrae er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu (birtustig 2,9). Hún er risastjarna af gerðinni G8 sem er þrisvar sinnum massameiri en sólin, 13 sinnum breiðari og 115 sinnum bjartari. Gamma Hydrae er í um 134 ljósára jarlægð frá jörðinni.

  • ζ Hydrae er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu (birtustig 3,1). Hún er risastjarna af gerðinni G9 sem er 132 sinnum bjartari en sólin, rúmlega fjórum sinnum massameiri og 18 sinnum breiðari en nokkur hundruð gráðum kaldari.

  • ν Hydrae er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu (birtustig 3,1). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 eða K1 sem er tvisvar sinnum massameiri en sólin, 21 sinnum breiðari og 151 sinnum bjartari en rúmlega þúsund gráðum kaldari.

  • σ Hydrae er tuttugasta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu (birtustig 4,44). Stjarnan er einnig þekkt sem Minchir sem þýðir „nös Vatnaskrímslisins“. Sigma Hydrae er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1 í um 353 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • W Hydrae er sveiflustjarna af Mírugerð í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu (birtustig 7,5). Hún er rauð risastjarna af gerðinni M7.5, örlítið massaminni en sólin en 500 sinnum breiðari og 11.000 sinnum bjartari. W Hydrae er í um 375 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • WASP-15 er stjarna af 11. birtustigi í um 1.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu. Stjarnan er af F-gerð, 18% massameiri og 48% breiðari en sólin og örlítið heitari. Hún hefur að geyma að minnsta kosti eina fjarreikistjörnu, WASP-15b, sem er heitur gasrisi með aðeins 3,75 daga umferðartíma. Þessi reikistjarna er athyglisverð fyrir þær sakir að hún er mun stærri en Júpíter að þvermáli en helmingi massaminni.

Djúpfyrirbæri

Í Vatnaskrímslinu eru þrjú Messierfyrirbæri og nokkur NGC fyrirbæri.

  • Messier 48 er lausþyrping um 80 stjarna í 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þyrping er í höfði Vatnaskrímslisins, við vesturbrún Einhyrningsins og sést því ágætlega frá Íslandi, þótt hún komist aldrei mjög hátt á himininn.

  • Messier 68 er kúluþyrping í um 33.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni, nokkuð gisin og geymir að minnsta kosti 100.000 stjörnur. Hún er of sunnarlega á himinhvolfinu til að sjást frá Íslandi.

  • Messier 83 eða Suðursvelgurinn er glæsileg bjálkaþyrilvetrarbraut í um 15 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún sést því miður ekki frá Íslandi.

  • NGC 3242 eða Draugur Júpíters er hringþoka í um 1.400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þokan er sýnileg frá Íslandi.

  • NGC 3314 eru tvær þyrilvetrarbrautir í sömu sjónlínu frá jörðu séð. Önnur er í um 117 milljóna ljósára fjarlægð en hin í um 140 milljóna ljósára fjarlægð. Þær eru fremur daufar (birtustig 12,5).

  • NGC 3621 er þyrilvetrarbraut í um 22 milljóna ljósára fjarlægð. Hún er nokkuð björt og sést vel í meðalstórum áhugamannasjónaukum. NGC 3621 hefur enga miðbungu og telst því hrein skífuvetrarbraut.

Loftsteinadrífur

Alfa Hýdrítar er minniháttar loftsteinadrífa sem sést milli 15. og 30. janúar. Við hámarkið 20. janúar sjást 2 til 5 fremur daufir loftsteinar á klukkustund. Drífan uppgötvaðist árið 1929.

Sigma Hýdrítar er minniháttar loftsteinadrífa sem sést milli 4. og 15 desember. Drífan er í hámarki 11. desember og sjást þá venjulega 3 til 5 loftsteinar á klukkustund.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Vatnaskrímslið
Stjörnumerkið Vatnaskrímslið og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Vatnaskrímslinu í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Hydra the water snake

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Hydra_(constellation)

  3. What's Up Hydra

  4. http://meteorshowersonline.com/showers/alpha_hydrids.html

  5. http://meteorshowersonline.com/showers/sigma_hydrids.html