Messier 95

Bjálkaþyrilþoka í Ljóninu

  • Messier 95, bjálkaþyrilþoka, Ljónið
    Bjálkaþyrilþokan Messier 95 í Ljóninu. Mynd: ESO
Helstu upplýsingar
Tegund: Bjálkaþyrilþoka
 Gerð: SB(r)b
Stjörnulengd:
10klst 43mín 57,7s
Stjörnubreidd:
+11° 42′ 14"
Fjarlægð:
32 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
778 ± 4 km/s
Sýndarbirtustig:
+11,4
Stjörnumerki: Ljónið
Önnur skráarnöfn:
NGC 3351

Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði M95 og M96 þann 20. mars árið 1781. Landi hans og vinur Charles Messier bætti þeim við skrá sína fjórum dögum síðar, 24. mars 1781.

Messier 95 er bjálkaþyrilþoka sem við horfum nánast beint ofan á. Í miðju hennar er hringlaga stjörnumyndunarsvæði sem vefur sig um kjarnann. Þetta svæði er um það bil 2.000 ljósár í þvermál.

Messier 95 er næst stærsta vetrarbrautin í hópi 8 til 24 vetrarbrauta í Ljóninu sem kenndur er við Messier 96. Í hópnum er einnig Messier 105.

Á himninum

Þótt Messier 95 og Messier 96 séu með daufari fyrirbærum Messierskrárinnar er fremur auðvelt að koma auga á þær í gegnum litla stjörnusjónauka við góðar aðstæður. Stjörnukort af Ljóninu sýnir að vetrarbrautirnar eru auðfundnar undir maga ljónsins.

Einfaldast er að byrja á að finna stjörnuna sem er svo til mitt á milli Alfa og Beta í Ljóninu og færa síðan sjónaukann hægt og rólega suður af henni. Notaðu minnstu stækkun svo sjónsviðið sé sem víðast. Best er að nota meðalstóra eða stóra áhugamannasjónauka til að skoða þær. Birta hefur mikil áhrif á sýnileika þeirra svo ekki er gott að skoða þær ef tunglið er á himni.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 95. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-95 (sótt: DAGSETNING).