47 Tucanae
Tegund: | Kúluþyrping |
Stjörnulengd: |
00klst 24mín 05,6s |
Stjörnubreidd: |
-74° 04′ 52,6" |
Fjarlægð: |
16.700 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+4,9 |
Stjörnumerki: | Túkaninn |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 104, Caldwell 106 |
Franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille uppgötvaði 47 Tucanae árið 1751 þegar hann var við stjörnuathuganir á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku. Vegna þess hve hún er sunnarlega á himinhvolfinu hafði hún farið framhjá evrópskum athugendum þar til þá.
Sýndarbirtustig þyrpingarinnar er +4,9 svo hún sést með berum augum við góðar aðstæður. Hún er næst bjartasta kúluþyrping á himninum á eftir Omega Centauri. Henni var þess vegna gefið skráarnúmerið 47 Tucanae eins og um væri að ræða stjörnu í stjörnumerkinu Túkaninum. Þetta númer birtist fyrst í stjörnuskrá sem Þjóðverjinn Johann Elert Bode tók saman árið 1801.
47 Tucanae er um 120 ljósár í þvermál eða á stærð við fullt tungl á himninum. Heildarmssi hennar er um 1 milljón sólmassar. Þyrpingin er svo þétt að bilið milli stjarnanna er oft innan við tíundi hluti úr ljósári, eða sem nemur stærðinni á sólkerfinu okkar. Til samanburðar er vegalengdin til nálægustu stjörnu við sólin, Proxima Centauri, um fjögur ljósár. Ef við byggjum innan í þessari þyrpingu sæjum við að minnsta kosti 10 þúsund skærar stjörnur á himninum, allar nær okkur en næsta stjarna við sólina.
Hingað til hafa fundist að minnsta kosti tuttugu tifstjörnur sem snúast nokkur hundruð til þúsund sinnum á sekúndu. Engar vísbendingar hafa fundist um svarthol í þyrpingunni. Hún er um 10 milljarða ára gömul, tvöfalt eldri en sólkerfið okkar.
Á himninum er 47 Tucanae skammt frá Litla Magellansskýinu, fylgivetrarbraut okkar. Hún er einfaldlega stórkostleg að sjá í gegnum stjörnusjónauka en sést því miður ekki frá Íslandi. Auðveldast er að finna hana með því að styðjast við sjtörnukort af Túkaninum.
Myndasafn
Litla Magellanskýið og 47 Tucanae
|