Bogmaðurinn (stjörnumerki)
Bjartasta stjarna: | Kaus Australis (ε Sagittarii) |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
68 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
7 |
Nálægasta stjarna: |
Ross 154 (9,69 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
15 |
Sést frá Íslandi: |
Að hluta |
Bogmaðurinn liggur fyrir sunnan miðbaug himins og er syðst á sólbaugnum ásamt Sporðdrekanum. Austan megin við Bogmanninn eru Steingeitin og Smásjáin og sunnan hans Sjónaukinn og Suðurkórónan. Naðurvaldi og Sporðdrekann liggja vestan Bogmannsins og norðan við hann eru Höggormshalinn, Skjöldurinn og Örninn. Bogmaðurinn er eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.
Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um stjörnumerkin í dýrahringnum og er í Bogmanninum um miðbik vetrar á haustin. Sólin er nú innan marka Bogmannsins frá 17. desember til 20. janúar (en ekki 23. nóvember til 21. desember). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.
Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Bogmanninum.
Bogmaðurinn er það sunnarlega á himinhvelfingunni að einungis er hægt að sjá örlítinn hluta merkisins frá Íslandi. Þeir sem eiga leið um Bandaríkin eða Mið- og Suður-Evrópu að sumarlagi ættu að líta til himins og sjá hvort Bogmaðurinn sjáist ekki á himninum í suðurátt. Hann er neðan við Örninn á himninum við vesturhlið Sporðdrekans.
Uppruni
Stjörnumerkið Bogmaðurinn og nágrenni |
Samkvæmt grískum goðsögnum er Bogmaðurinn mannfákur (kentár) og því til helminga hestur og maður. Hann var sonur Satúrnusar og Plýlýru og á að hafa brugðið sér í líki hests til þess að flýja afbrýðisama eiginkonu sína sem nefndist Rea. Babýloníumenn sáu þarna guðinn Pabilsag sem var með vængi og ljónshöfuð.
Þótt mynstur björtustu stjarnanna minni á teketil má þó sjá bogmann með hestbúk beina ör að Sporðdrekanum. Bogmannsmerkið er annað af tveimur merkjum sem tákna mannfáka á himninum. Hinn eiginlegi Mannfákur er nokkru sunnar á himinhvelfingunni. Athugendur staddir nálægt nyrði hvarfbaug (23° N.br) eða sunnar á jörðinni geta séð báða mannfákana en einungis tvö stjörnumerki skilja þá að, Sporðdrekinn og Úlfurinn.
Stjörnur
Engin stjarna í Bogmanninum er í hópi björtustu stjarna á himninum en bjartast stjarna merkisins er Kaus Australis (ε (epsilon) Sagittari) með birtustigið +1,79. Sem fyrr segir raðast nokkrar af björtustu stjörnunum upp í mynstur sem minnir á teketil.
-
Epsilon Sagittarii er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Bogmanninum (birtustig 1,79). Hún er tvístirni í um 143 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarna kerfisins er risastjarna af gerðinni B9,5 sem er tæplega sjö sinnum breiðari en sólin. Fylgistjarnan er áþekk sólinni okkar en aðeins minni og daufari. Epsilon Sagittarii er í stúti teketilsins. Hún gengur einnig undir nafninu Kaus Australis sem þýðir „boginn suður“.
-
Sigma Sagittarii er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Bogmanninum (birtustig 2,05). Hún er stjarna á meginröð af gerðinni B2,5 sem er tæplega átta sinnum massameiri en sólin og rúmlega fjórum sinnum breiðari. Hún er yfir 3.000 sinnum bjartari en sólin en þar sem yfirborðshitastig hennar er næstum 19.000°C gefur hún að mestu frá sér útfjólublátt ljós. Samkvæmt hliðrunarmælingum er stjarnan í 228 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún gengur einnig undir nafninu Nunki sem er babýlónískt að uppruna.
- Zeta Sagittarii er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Bogmanninum (birtustig 2,60). Hún er tvístirni með 21 árs umferðartíma í um 88 ljósára fjarlægðf rá jörðinni. Kerfið samanstendur af risastjörnu af gerðinni A2 og undirmálsstjörnu af gerðinni A4. Fjarlægðin milli þeirra er rúmlega 13 stjarnfræðieiningar. Zeta Sagittarii gengur einnig undir nafninu Ascella sem þýðir „handarkriki“.
-
Delta Sagittarii er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Bogmanninum (birtustig 2,72). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K3 sem er 3,4 sinnum massameiri en sólin, 129 sinnum breiðari og 2.500 sinnum bjartari. Stjarnan er í 348 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún gengur einnig undir nafninu Kaus Media sem þýðir „boginn miðja“.
-
Lambda Sagittarii er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Bogmanninum (birtustig 2,82). Hún er appelsínugul undirmálsstjarna af gerðinni K0 sem er 2,6 sinnum massameiri en sólin og ellefu sinnum breiðari. Stjarnan er í 78 ljósára fjarlægð frá jörðinni, samkvæmt hliðrunarmælingum. Lambda Sagittarii gengur einnig undir nafninu Kaus Borealis sem þýðir „boginn norður“. Sunnan við hana eru aðrar stjörnur í boganum, Kaus Media og Kaus Australis.
-
Pí Sagittarii er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Bogmanninum (birtustig 2,88). Hún er þrístirni í um 510 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartasta stjarna kerfisins risastjarna af gerðinni F2 sem er næstum sex sinnum massameiri en sólin. Pí Sagittarii gengur einnig undir nafninu Albaldah sem þýðir „bærinn“.
-
Gamma Sagittarii er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Bogmanninum (birtustig 2,98). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1 sem er 12 sinnum breiðari en sólin. Stjarnan ber einnig nöfnin Alnasl, Nushaba og Warida sem þýðir örvaroddurinn.
-
Tvær stjörnur í Bogmanninum bera bókstafinn Beta, Beta1 Sagittarii og Beta2 Sagittarii. Aðeins 0,36° skilja stjörnur í sundur á himninum. Beta1 Sagittarii eða Arkab Prior (fyrri hásinin) er tvístirni í um 378 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Arkab Prior A er stjarna á meginröð af gerðinni B9 með sýndarbirtustig 3,96 en Arkab Prior B er meginraðarstjarna af gerðinni A3 með sýndarbirtustig 7,4. Bilið á milli stjarnanna er yfir 3.000 stjarnfræðieiningar. Arkab Posterior B (seinni hásinin) er risastjarna af gerðinni F í um 137 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Sýndarbirtustig hennar er 4,27.
-
Alfa Sagittarii er blá stjarna á meginröð af gerðinni B8 í um 182 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum (birtustig 3,97). Hún er rúmlega tvisvar sinnum breiðari en sólin og 60 sinnum bjartari. Hún er yfir 12.000°C heit svo hún gefur að mestu frá sér útfjólublátt ljós. Alfa Sagittarii ber einnig nafnið Alrami og Rukbat sem merkir „hné bogmannsins“.
-
Tvær stjörnur í Bogmanninum bera bókstafinn Nu Sagittarii, Nu1 Sagittarii og Nu2 Sagittarii. Aðeins 0,23° skilja stjörnurnar í sundur á himninum. Nu1 Sagittarii er þrístirni í um 1.850 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartasta stjarna kerfisins er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1 (birtustig 4,86) og á braut um hana eru tvær stjörnur af 11. birtustigi. Nu2 Sagittarii er appelsínugulur reginrisi af gerðinni K1 í um 270 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 5,00). Nu Sagittarii ber einnig nafnið Ain al Rami sem þýðir „auga bogmannsins“.
-
Omega Sagittarii er undirmálsstjarna af gerðinni G5 í um 78 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum (birtustig 4,70).
-
60 Sagittarii er risastjarna af gerðinni G5 í um 340 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum (birtustig 4,85).
-
KW Sagittarii er rauður reginrisi af gerðinni M1,5 í um 10.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum (birtustig 8,93). Hún er rúmlega 1.400 sinnum breiðari en sólin okkar og því með stærstu stjörnum sem vitað er um. Hún er um 360.000 sinnum bjartari en sólin.
Djúpfyrirbæri
Miðja Vetrarbrautarinnar er í Bogmannsmerkinu. Við sjáum ekki inn að miðjunni því ryk og gas byrgja okkur sýn en með útvarpssjónaukum má greina sterkt merki frá miðjunni og telja menn að hún geymi risasvarthol sem er með yfir milljón sinnum meiri massa en sólin. Alls eru fimmtán Messierfyrirbæri að finna í Bogmanninum (M8, M17, M18, M20, M21, M22, M23, M24, M25, M28, M54, M55, M69, M70, M75) og því er hryggilegt að mestur hluti merkisins sjáist ekki frá Íslandi.
Stjörnukort
Stjörnukort af Bogmanninum í prentvænni útgáfu er að finna hér.