Hrafninn
Latneskt heiti: |
Corvus |
Bjartasta stjarna: | γ Corvi |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
10 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
3 |
Nálægasta stjarna: |
Ross 695 (29 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
0 |
Loftsteinadrífur: |
Korvítar |
Sést frá Íslandi: |
Að hluta |
Uppruni
Þegar þorsti sótti að sólarguðinum Apolló sendi hann hrafninn með vatnsbikar til að sækja vatn úr lind. Hrafninn flaug með bikarinn í klóm sínum en þegar fíkjutré með óþroskuðum ávöxtum varð á vegi hans, ákvað hann að hvílast í nokkra daga og hinkra eftir að ávextirnir yrðu fullþroskaðir. Á meðan neyddist Apolló til að sækja sér vatn sjálfur.
Eftir að hrafninn hafði étið gómsætan ávöxtinn, náði hann loks í vatnið en tók í leiðinni upp vatnasnák og flaug með hann til baka. Hrafninn sagði Apolló að snákurinn hefði tafið sig við að sækja vatnið. Apolló sá í gegnum lygina og dæmdi hrafninn til eilífs þorsta — ein útskýringin á hvæsandi krunki hrafnsins. Til að minnast þessa atburðar kom Apolló hrafninum, bikarnum og vatnaskrímslinu fyrir á himninum.
Á himninum reynir hrafninn að kroppa í vatnaskrímslið og seilast eftir bikarnum til að svala þorstanum. Bikarinn er sýndur sem glæsilegur kaleikur með tveimur handföngum sem hallar að hrafninum en er utan seilingar. Vatnaskrímslið er svo veran sem Herakles drepur í annarri goðsögn.
Önnur saga segir frá því að hrafninn hafi eitt sinn verið skjannahvítur og talandi. Hann var heilagur fugl Apollós sem bað hann um að fylgjast með heitmey sinni Kóronis sem var ólétt. Kóronis missti áhugann á Apolló og laðaðist að dauðlegum manni. Þegar hrafninn færði Apolló fréttirnar um framhjáhaldið, beindi Apolló reiði sinni að hrafninum og gerði fjaðrir hans svartar og tók af honum málið. Artemis, tvíburasystir Apollós, myrti Kóronis en barni hennar og Apollós var bjargað. Það hlaut nafnið Asklepios og varð guð lækninga.
Stjörnur
Stjörnumerkið Hrafninn. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Í Hrafninum mynda fjórar björtustu stjörnurnar — alfa, beta, gamma og epsilon — trapisulaga samstirni.
-
α Corvi eða Alkhiba (rifbeinið) er stjarna af F-gerð í um 48 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er álíka massamikil og sólin en bæði yngri og heitari (um 7000°C). Sýndarbirtustig hennar er +4,0 svo hún er fjórða bjartasta stjarna Hrafnsins.
-
β Corvi eða Kraz er risastjarna af G-gerð í um 140 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er um 160 sinnum bjartari en sólin, sextán sinnum breiðari og rúmlega þrisvar sinnum massameiri. Beta Corvi er næst bjartasta stjarna Hrafnsins.
-
γ Corvi eða Gienah (vængurinn) er risastjarna af B-gerð í um 165 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hin er meira en tvisvar sinnum heitari en sólin okkar en 355 sinnum bjartari og bæði fjórum sinnum breiðari og massameiri. Gamma Corvi er bjartasta stjarna Hrafnsins.
-
δ Corvi eða Algorab (hrafninn) er tvístirni í um 88 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarnan (birtustig +2,95) er af B-gerð en sú daufari (birtustig +8,51) er af K-gerð. Sú stærri, Algorab-A, er 2,5 sinnum massameiri en sólin, helmingi heitari og 48 sinnum bjartari. Smærri stjarnan, Algorab-B er nokkuð minni, kaldari og daufari en sólin okkar.
-
ε Corvi eða Minkar (goggurinn) er risastjarna af K-gerð í um 300 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 930 sinnum bjartari, nokkuð kaldari en fjórum sinnum massameiri.
Djúpfyrirbæri
Loftnetið í stjörnumerkinu Hrafninum. Mynd: NOAO/AURA/NSF, B. Twardy, B. Twardy, og A. Block (NOAO) |
Engin Messierfyrirbæri eru í Hrafninum en fáein forvitnileg NGC fyrirbæri:
-
NGC 4038 / 4039 eða Loftnetið eru gagnvirkar vetrarbrautir sem eru að renna saman í eina í um 65 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í gegnum sjónauka sýnast þær hjartalaga. Út frá þeim stefna tveir mjög langir flóðhalar úr stjörnum svo minnir á loftnet eða fálma. Mjög sérstök en glæsileg sjón að sjá.
-
NGC 4361 er hringþoka í um 3.900 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
Loftsteinadrífa
Korvítar (e. Corvids) eru loftsteinadrífa sem stefna út frá stjörnumerkinu Hrafninum. Hún virðist þó aðeins hafa sést einu sinni, undir lok júní árið 1937, þegar hún uppgötvaðist.