Litlibjörn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Litlibjörn
    Kort af stjörnumerkinu Litlabirni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Ursa Minor
Bjartasta stjarna: Pólstjarnan
Bayer / Flamsteed stjörnur:
23
Stjörnur bjartari +3,00:
3
Nálægasta stjarna:
UU Ursae Minoris
(43 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Úrsítar
Sést frá Íslandi:

Litlibjörn er tiltölulega lítið stjörnumerki og lendir í 56. sæti í stærðarröð stjörnumerkjanna. Stjörnumerkið Drekinn umlykur nánast allan Litlabjörn en hann liggur einnig að Sefeusi og Gíraffanum.

Norðurpóll himins er í skottinu á Litlabirni og er Pólstjarnan nánast beint yfir norðurpól jarðar. Það þýðir að hún er alltaf í norðri hjá þeim sem búa norðan miðbaugs. Þetta nýttu sæfarendur fyrri alda sér áður en áttavitinn kom til sögunnar.

Á dögum Ptólmæosar var engin björt stjarna við norðurpól himins. Stjarnan sem við í dag þekkjum sem Pólstjörnuna var ellefu gráður í burtu. Kochab, næst bjartasta stjarna Litlabjörns, var örfáum gráðum nær pólnum. Í gegnum aldirnar hefur bjartasta stjarna merkisins smám saman færst nær pólnum. Pólstjarnan verður næst norðurpól himins í kringum árið 2100 en byrjar svo að fjarlægjast hann vegna pólveltu jarðar. Í kringum árið 3000 tekur stjarnan Gamma í Sefeusi við sem pólstjarna.

Uppruni

Stjörnumerkið Litlibjörn kemur fyrst fram í grískum heimildum frá 3. öld f.Kr. Þar er sagt að stjörnufræðingurinn Þales frá Míletos hafi fyrstur minnst á merkið og að hann hefði mælt stjörnunnar sem Fönikíumenn sigldu eftir. Ekki er vitað hvort Þales hafi búið merkið til eða aðeins kynnt það fyrir Grikkjum en hann var af fönikískum ættum.

Samkvæmt sagnaritaranum Aratusi táknar Litlibjörn aðra af dísunum tveimur, Ídu og Adrasteiu, sem var eldri, sem önnuðust Seif í hellinum Dikte á Krít þegar hann var ungabarn. Litlibjörn er til minnngar um Ídu en Stóribjörn Adrasteiu.

Stjörnur

Litlabjörn mynda sjö björtustu stjörnur merkisins sem þó eru allar nokkuð daufar.

  • α Ursae Minoris eða Pólstjarnan er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlabirni (birtustig 2,07) en ekki bjartasta stjarna næturhiminsins eins og margir halda. Samkvæmt hliðrunarmælingum evrópska gervitunglsins Hipparkosar er hún í um 434 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Pólstjarnan er þrístirni. Stærsta og bjartasta stjarnan (A) er risastjarna af gerðinni F8, sex sinnum massameiri en sólin, 49 sinnum breiðari og 2.200 sinnum bjartari. Hún er nálægasta sveiflustjarnan af gerð sefíta við jörðina. Förunautarnir tveir eru báðar meginraðarstjörnur, annars vegar af gerðinni F3 (B) og hins vegar af gerðinni F0 (Ab). B-stjarnan er 50% massameiri en sólin og í um 2.400 stjarnfræðieininga fjarlægð frá stjörnu A en Ab-stjarnan er í tæplega 19 stjarnfræðieininga fjarlægð frá stjörnu A.

  • β Ursae Minoris er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlabirni (birtustig 2,07). Samkvæmt hliðrunarmælingum evrópska gervitunglsins Hipparkosar er hún í 131 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K4 sem er tvisvar sinnum massameiri en sólin, 42 sinnum breiðari og 390 sinnum bjartari. Beta Ursae Minoris ber einnig nafnið Kochab sem þýðir einfaldlega „stjarnan“.

  • γ Ursae Minoris er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlabirni (birtustig 3,00). Samkvæmt hliðrunarmælingum evrópska gervitunglsins Hipparkosar er hún í 487 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er hvít reginrisastjarna af gerðinni A3 sem er 15 sinnum breiðari og 1.100 sinnum bjartari en sólin. Gamma Ursae Minoris ber einnig nafnið Pherkad sem þýðir „kálfurinn“.

  • ε Ursae Minoris er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlabirni (birtustig 4,21). Hún er risastjarna af gerðinni G5 sem er í um 350 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • ζ Ursae Minoris er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlabirni (birtustig 4,29). Hún er hvít meginraðarstjarna af gerðinni A3 í um 380 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er rúmlega þrisvar sinnum massameiri en sólin og næstum 200 sinnum bjartari.

  • δ Ursae Minoris er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlabirni (birtustig 4,35). Hún er hvít meginraðarstjarna af gerðinni A1 í um 183 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er næstum þrisvar sinnum breiðari en sólin og 47 sinnum bjartari.

  • η Ursae Minoris er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlabirni (birtustig 4,95). Hún er gulhvít meginraðarstjarna af gerðinni F5 í um 97 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • θ Ursae Minoris er níunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlabirni (birtustig 5,00). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K5 í um 830 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • 11 Ursae Minoris er appelsínugul risastjarna í 398 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Litlabirni. Stjarnan er stundum kölluð Pherkad eða Pherkad Minor til aðgreiningar frá Pherkad (Major) sem er Gamam í Litlabirni. Stjarnan er 1,8 sinnum massameiri, 24 sinnum breiðari og 185 sinnum bjartari en sólin okkar. Árið 2009 fannst reikistjarna á braut um 11 Ursae Minoris. Stjarnan er af 5. birtustigi.

Djúpfyrirbæri

Litlibjörn er langt frá fleti vetrarbrautarinnar svo þar eru fá markverð djúpfyrirbæri, þó einkum vetrarbrautir.

  • NGC 3172 er þyrilvetrarbraut sem gengur einnig undir nafninu Polarissima Borealis vegna nálægðar sinnar við norðurpól himins (innan við eina gráðu frá honum). Hún er dauf (birtustig 13,6) og sést því best með stórum áhugamannasjónaukum.

  • NGC 6068 er lítil og dauf bjálkaþyrilvetrarbraut sem sést best í gegnum stóra áhugamannasjónauka.

  • NGC 6217 er bjálkaþyrilvetrarbraut, nokkuð stór og björt sem sést best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

  • Litlabjörnsdvergurinn er dvergvetrarbraut, ein af fylgivetrarbrautum okkar vetrarbrautar í um 200.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 11,9).

Loftsteinadrífur

Úrsítar er loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 17. til 25. desember. Geislapunktur drífunnar er nálægt stjörnuni Beta (Kochab) í Litlabirni. Drífan er í hámarki 22.-23. desember og sjást þá alla jafna í kringum tíu loftsteinar á klukkustund en þegar best lætur í hrinum, sjást allt að 100 loftsteinar á klukkustund. Úrsíta má rekja til halastjörnunnar 8P/Tuttle.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Litlibjörn
Stjörnumerkið Litlibjörn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Litlabirni í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Ursa Minor the little bear

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Ursa_Minor

  3. http://meteorshowersonline.com/showers/ursids.html