Úlfurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Úlfurinn
    Kort af stjörnumerkinu Úlfinum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Lupus
Bjartasta stjarna: α Lupi
Bayer / Flamsteed stjörnur:
41
Stjörnur bjartari +3,00:
3
Nálægasta stjarna:
LHS 397
(19,4 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Úlfurinn er ævafornt merki en var lengst af talið samstirni innan Mannfáksins. Babýlóníumenn kölluðu samstirnið „villihundinn“ eða „úlfinn“ og héldi Mannfákurinn í hann við altarið (stjörnumerkið Altarið), eins og hann væri um það bil að fórna skepnunni. Ekkert tiltekið dýr var þó tengt við merkið fyrr en Ptólmæos tengdi það við úlf.

Engar þekktar goðsagnir tengjast þessu merki, líklega vegna þess að merkið er ekki grískt að uppruna.

Stjörnur

  • α Lupi er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Úlfinum (birtustig 2,3) og sést hún leikandi með berum augum. Hliðrunarmælingar evrópska gervitunglsins Hipparkosar benda til að stjarnan sé í um 460 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er risastjarna af gerðinni B1.5 III, um tíu sinnum massameiri en sólin okkar. Hún er 25.000 sinnum skærari en sólin og um 20.000 gráðu heit.

  • β Lupi er næst bjartasta stjarna stjörnumerkisins Úlfsins (birtustig 2,7) og sést hún leikandi með berum augum. Hliðrunarmælingar benda til þess að stjarnan sé í um 383 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er risastjarna af gerðinni B2 III, um það bil 25 milljóna ára gömul og mun brátt byrja að þróast yfir í rauðan reginrisa. Beta Lupi er um níu sinnum massameiri en sólin, meira en sex sinnum breiðari og yfir 20.000 gráðu heit. Hugsanlegt er að hún endi sem sprengistjarna en sá möguleiki er líka fyrir hendi að hún verði að hvítum dvergi.

  • γ Lupi er þriðja bjartasta stjarna stjörnumerkisins Úlfsins (birtustig 2,8). Hún er blá risastjarna af gerðinni B2 IV, næstum tíu sinnum massameiri en sólin.

  • δ Lupi er fjórða bjartasta stjarna stjörnumerkisins Úlfsins (birtustig 3,22). Hún er í um 900 ljósára fjarlægð frá jörðinni og flokkast til stjörnu af gerðinni B1.5 IV sem er að þróast yfir í risastjörnu. Delta Lupi er um 10.000 sinnum bjartari en sólin okkar og yfir 20.000 gráðu heit. Hún er næstum tólf sinnum massameiri en sólin og endar líklega ævi sína sem sprengistjarna eftir nokkrar milljónir ára.

  • ε Lupi er fimmta bjartasta stjarna stjörnumerkisins Úlfsins (birtustig +3,4). Hún er í um 510 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er þrístirni, þ.e. þrjár stjörnur á sveimi hver um aðra. Stjörnurnar þrjár eru á bilinu 7 til 13 sinnum massameiri en sólin.

  • ν2 Lupi er stjarna áþekk sólinni (litrófsflokki G4V) í um 48 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Úlfinum. Stjarnan er nánast jafn massamikil, jafn breið, jafn björt og jafn heit og sólin okkar. Hún gefur okkur því góða hugmynd um hvernig sólin okkar lítur út úr þessari fjarlægð. Birtustig hennar er +5,65 svo hún sést með berum augum við allra bestu aðstæður, þá með naumindum. Þann 12. september árið 2011 fundust þrjár reikistjörnur við Nu2 Lupi með HARPS mælitækinu á 3,6 metra sjónauka ESO. Reikistjörnurnar eru á 5, 11 og 10 sinnum massameiri en jörðinni svo að minnsta kosti tvær þeirra teljast risajarðir. Þær eru hins vegar svo nálægt sinni sól að hitinn á yfirborðum þeirra er líklega alltof hár til að líf gæti þrifist þar.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Úlfurinn
Stjörnumerkið Úlfurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Úlfinum eru nokkur forvitnileg djúpfyrirbæri. Nefna má kúluþyrpingarnar NGC 5824, sem er í yfir 100.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og NGC 5986 sem er í um 34.000 ljósára fjarlægð. Sú fyrrnefnda er fremur dauf og sést best með stórum sjónaukum. Báðar þessar þyrpingar eru í norðurhluta merkisins.

NGC 5822 og NGC 5749 eru lausþyrpingar í suðurhluta merkisins, báðar mjög daufar. Í vesturhluta merkisins er hringþokan IC 4406 sem er fremur sívalningslaga. Hún er í um 2.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í merkinu miðju er svo önnur mjög falleg hringþoka, NGC 5882.

Í Úlfinum er einnig að finna sprengistjörnuleifina SN 1006, nefnd eftir ártalinu sem hún sást á himninum. Leifin er í um 7.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni og var ein bjartasta sprengistjarna sem sést hefur (náði sennilega birtustigi -7,5). Hún sást springa 30. apríl eða 1. maí árið 1006. Líklega var um að ræða sprengistjörnu af gerð Ia.

SN 1006, sprengistjörnuleif
Sprengistjörnuleifin SN 1006. Mynd: Röntgen: NASA/CXC/Rutgers/G.Cassam-Chenaï, J.Hughes et al.; Útvarp: NRAO/AUI/NSF/GBT/VLA/Dyer, Maddalena & Cornwell; Sýnilegt: Middlebury College/F.Winkler, NOAO/AURA/NSF/CTIO Schmidt & DSS

Stjörnukort

Stjörnukort af Úlfinum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Lupus the wolf

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Lupus_(constellation)