Messier 8

Lónþokan í Bogmanninum

  • Lónþokan, Messier 8, Bogmaðurinn, ljómþoka, rafað vetnisský
    Lónþokan Messier 8 í Bogmanninum. Mynd: ESO
Helstu upplýsingar
Tegund: Rafað vetnisský / ljómþoka
Stjörnulengd:
18klst 03mín 37s
Stjörnubreidd:
-24° 23′ 12"
Fjarlægð:
4-6.000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+6,0
Stjörnumerki: Bogmaðurinn
Önnur skráarnöfn:
Sharpless 25, RCW 146, Gum 72, NGC 6523

Ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Batista Hodierna uppgötvaði Lónþokuna fyrir árið 1654. Nærri öld seinna, árið 1746, sá Frakkinn Philippe Loys de Chéseaux fyrirbærið, greindi í því stjörnur og flokkaði sem þyrpingu. Ári síðar skoðaði Guillaume Le Gentil hana og sá þoku og þyrpingu. Þann 23. maí árið 1764 skrásetti Charles Messier fyrirbærið og lýsti bæði þoku og þyrpingu.

Lónþokan er staður virkrar stjörnumyndunar. Í þokunni er ung lausþyrping sem nefnist NGC 6630. Í henni eru 50 til 100 stjörnur sem mælingar benda til að séu örlítið fyrir framan þokuna sjálfa. Hún er enn umlukin ryki eins og sjá má af geimroðnun ljóssins frá stjörnunum, áhrif sem verða þegar litlar rykagnir dreifa ljósi.

Í Lónþokunni er fjöldi þéttra svæða sem kallast Bokhnoðrar þar sem gas og ryk er að falla saman. Þessir dökku hnoðrar eru svo þéttir að meira að segja innrautt ljós frá stjörnum í bakgrunni berst illa í gegnum þá. Frægasti dökki hnoðrinn í þokunni er lónlaga rykslæða sem vindur sig í gegnum glóandi gasskýið og sá hnoðri sem þokan er nefnd eftir.

Sterkt útfjólublátt ljós frá heitum, ungum stjörnum lýsir upp þokuna. Í Lónþokunni eru líka fjölmörg yngri stjörnumyndunarsvæði. Þar hafa fundist nýfæddar stjörnur sem eru svo ungar að enn í kringum þær eru aðsópskringlurnar sem umluktu þær við fæðingu. Stundum skaga skammlífir en bjartir efnisstrókar út frá pólum þessara nýfæddu stjarna sem grafa sig í gasið í kring og mynda Herbig-Haro fyrirbæri. Undanfarin ár hafa nokkur Herbig-Haro fyrirbæri fundist í Lónþokunni sem segir okkur að þar fæðast enn stjörnur.

Á himninum

Við kjöraðstæður sést Lónþokan með berum augum. Hægt er að sjá hana frá Íslandi eins og höfundur þessarar greinar hefur sannreynt (þó ekki með berum augm heldur sjónauka). Hún kemst aldrei mjög hátt yfir sjóndeildarhringinn og best er að skoða hana á haustin, í lok ágúst og snemma í september. Notast þarf við stjörnukort af Bogmanninum til að finna hana.

Lónþokan er nokkuð stór, meira en þrisvar sinnum breiðari en nemur sýndarþvermáli fulls tungls á himninum. Raunstærð hennar er um 140 x 60 ljósár. Hún er glæsileg að sjá með stjörnusjónauka við fremur litla stækkun en það hjálpar líka að nota OIII eða UHC síur til að sjá hana betur og draga fram smáatriði.

Myndasafn

Lónþokan, Messier 8, Bogmaðurinn, ljómþoka, rafað vetnisský

370 milljón pixla mynd af Lónþokunni

Þessi mynd af Lónþokunni er sett saman úr myndum sem teknar voru með Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöðinni í La Silla í Chile. Myndin er hluti af GigaGalaxy Zoom verkefni ESO. Sjá eso0936.

Mynd: ESO

Innrauð ljósmynd VISTA af Lónþokunni (Messier 8)  

VISTA starir djúpt í bláa lónið

Þessi ljósmynd, sem er innrauð, var tekin með VISTA sjónauka ESO. Í innrauðu ljósi má skyggnast inn í svæði sem annars eru okkur hulin og sjá stjörnumyndun eiga sér stað. Sjá eso1101.

Mynd: ESO/VVV. Þakkir: Cambridge Astronomical Survey Unit

Lagarþokan, M8, Lagoon Nebula

Brimbrot í Lónþokunni

Myndin var tekin með Advanced Camera for Surveys (ACS), einni af myndavélum Hubblessjónaukans, og sýnir stórbrotin mynstur gass og ryks sem sterk geislun frá heitum og ungum stjörnum í miðju Lagarþokunnar (M8) mótar. Sjá heic1015.

Mynd: NASA/ESA

Lónþokan, Messier 8, NGC 6523, Bogmaðurinn, Ljómþoka  

Myndbreyting Messier 8

Þessi mynd er sett saman úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir sem sýna rafað vetni voru litaðar rauðar, myndir sem sýna jónað nitur voru litaðar grænar og myndir teknar í gegnum gula síu voru litaðar bláar. Bláhvíta ljósið sem sést neðarlega til vinstri er tvístrað ljós frá stjörnu rétt fyrir utan sjónsviðið sem spannar 3,3 x 1,7 bogamínútur af himinhvelfingunni. Sjá mynd vikunnar 16. maí 2011.

Mynd: NASA/ESA

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 9, SEDS Messier pages

  2. Brimbort í Lagarþokunni 

  3. Myndbreyting Messier 8

  4. VISTA starir djúpt í bláa lónið

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 9. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-9 (sótt: DAGSETNING).