Litlaljón

  • stjörnukort, stjörnumerki, Litlaljón
    Kort af stjörnumerkinu Litlaljóni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Leo Minor
Bjartasta stjarna: 46 Leonis Minoris
Bayer / Flamsteed stjörnur:
34
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
11 Leonis Minoris
(36,5 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Leo Mínorítar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Pólski stjörnufræðingurinn Jóhannes Hevelíus frá Gdansk bjó til stjörnumerkið Litlaljón árið 1687, út frá átján daufum stjörnum milli Stórabjarnar og Ljónsins sem áður tilheyrðu engu stjörnumerki.

Engar goðsagnir tengjast merkinu.

Stjörnur

Í Litlaljóni ber engin stjarna bókstafinn Alfa þótt þar sé hins vegar að finna Beta Leonis Minoris. Hevelíus merkti sjálfur ekki neinar stjörnur í merkinu en það gerði enski stjörnufræðingurinn Francis Baily 150 árum síðar. Í skrá Bailys frá árinu 1845 er næst bjartasta stjarna Litlaljóns Beta en fyrir mistök var bjartasta stjarnan, 46 Leonis Minoris, ekki merkt Alfa.

  • 46 Leonis Minoris er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlaljóni (birtustig 3,83). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 sem er átta sinnum breiðari en sólin og 34 sinnum bjartari. Samkvæmt hliðrunarmælingum er stjarnan í 95 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • β Leonis Minoris er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlaljóni (birtustig 4,22). Hún er tvístirni í um 146 ljósára fjarlægð frá jörðinni sem samanstendur af risastjörnu af gerðinni G8 og undirmálsstjörnu af gerðinni F8. Beta Leonis Minoris A er hér um bil tvisvar sinnum massameiri en sólin og næstum átta sinnum breiðari en 36 sinnum bjartari. Beta Leonis Minoris B er 1,35 sinnum massameiri en sólin og tvisvar sinnum breiðari en næstum sex sinnum bjartari. Stjörnurnar snúast um sameiginlega massamiðju á rúmum 38 árum. Samkvæmt hliðrunarmælingum eru þær í 146 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Í Litlaljóni eru fremur fá markverð djúpfyrirbæri en þó nokkrar vetrarbrautir innan seilingar stjörnuáhugamanna.

  • NGC 3254 er þyrilvetrarbraut, nokkurn veginn á rönd, í um 68 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 10,7).

  • NGC 3344 er bjálkaþyrilvetrarbraut, nokkuð stór og björt (birtustig 9,7).

  • Hanny's Voorwerp eða Fyrirbæri Hannýjar er sérkennilegt grænglóandi gasský sem vafist hefur fyrir stjörnufræðingum frá uppgötvun þess árið 2007. Skýið er við þyrilþokuna IC 2947 sem er í um 650 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Loftsteinadrífur

Leo Mínorítar er minniháttar loftsteinadrífa sem sést milli 19. og 27. október ár hvert. Drífan nær hámarki í kringum 24. október og sjást þá tveir loftsteinar eða svo á klukkustund. Leo Mínorítar hafa verið tengdir við halastjörnuna C/1739 K1.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Litlaljón
Stjörnumerkið Litlaljón og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Litlaljóni í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Leo minor the little lion

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Leo_Minor

  3. What's Up Leo Minor