Hubble þysjar að undarlegu fyrirbæri

Ottó Elíasson 10. jan. 2011 Fréttir

Nú hefur Hubble geimsjónaukinn beint sjónum sínum að sérkennilegu grænglóandi gasskýi sem vafist hefur fyrir stjörnufræðingum frá uppgötvun þess árið 2007.

  • heic1102a

Hubble geimsjónaukinn hefur nú beint sjónum sínum að sérkennilegu grænglóandi gasskýi sem vafist hefur fyrir stjörnufræðingum frá uppgötvun þess árið 2007. Nálægt dulstirni lýsir upp skýið og svo virðist sem stjörnumyndun eigi sér þar stað.

Eitt undarlegasta fyrirbæri sem sést hefur í geimnum – dularfullur, grænglóandi gashnoðri sem svífur í geimnum nálægt þyrilþoku – hefur nú loks verið kannað með Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Á myndum Hubbles sjást fínir gasþræðir og svæði ungra stjörnuþyrpinga í þessu risastóra fyrirbæri sem er á stærð við Vetrarbrautina okkar.

Afhjúpanir Hubblessjónaukans eru nýjasta uppgötvunin í rannsókn á Hanny's Voorwerp (Voorwerp þýðir fyrirbæri á hollensku). Fyrirbærið er nefnt eftir Hanny van Arkel, hollenskum kennara sem uppgötvaði það árið 2007, en hún var og er þátttakandi í hinu netlæga Galaxy Zoo verkefni. Í Galaxy Zoo getur almenningur hjálpað til við flokkun yfir milljón vetrarbrauta sem finna má í skrám Sloan Digital Sky Survey. Verkefninu hefur vaxið fiskur um hrygg og getur fólk nú tekið þátt í Galaxy Zoo: Hubble þar sem hægt er að flokka tugþúsundir vetrarbrauta úr myndasafni Hubblessjónaukans.

Tvær myndavéla Hubblessjónaukans, Wide Field Camera 3 og Advanced Camera for Surveys, hafa náð bestu myndum sem hingað til hafa náðst af Hanny's Voorwerp. Á þeim er sýnileg stjörnumyndun innan grænu þokunnar sem svífur gengt þyrilþokunni IC 2947 sem er í um 650 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. Rannsóknir á útvarpssviðinu sýna mikið flæði gass frá miðju vetrarbrautarinnar. Nýju myndinar sýna að hluti þessa gass víxlverkar við Hanny's Voorwerp og þar fellur gasið saman og myndar stjörnur. Yngstu stjörnunar eru nokkurra milljón ára gamlar.

Grænleita fyrirbærið er sýnilegt því ljós frá kjarna vetrarbrautarinnar hefur lýst það upp. Ljósið á upptök sín í dulsirni –– björtu, orkumiklu fyrirbæri sem knúið er af svartholi. Talið er að slokknað hafi á dulstirninu fyrir um 200.000 árum síðan.

Stjörnufræðingurinn Bill Keel við Alabamaháskóla í Tuscaloosa í Bandaríkjunum sem leiðir rannsóknina mun kynna niðurstöður rannsóknanna í dag á fundi hjá Stjarnvísindafélagi Bandaríkjanna í Seattle. Nánar má lesa um þessar uppgötvanir á hlekkjunum hér að neðan.

Skýringar

Hubblessjónaukinn er samstarfsverkefni ESA og NASA.

Myndir: NASA, ESA, William Keel (University of Alabama, Tuscaloosa), og Galaxy Zoo

Tengdar myndir

  • heic1101bUndarlegheit í geimnum. Mynd: NASA, ESA, William Keel (University of Alabama, Tuscaloosa) og Galaxy Zoo teymið
  • heic1102bInnrauð mynd af umhverfi Hanny's Voorwerp. Mynd: NASA, ESA, og Hubble Heritage teymið (STScI/AURA)
  • Skýringarmynd af myndun Hanny's VoorwerpSkýringarmynd af myndun Hanny's Voorwerp. Mynd: NASA/ESA.
  • Hubble geimsjónaukinn á braut um jörðuHubble geimsjónaukinn á braut um jörðu. Mynd: European Space Agency.

Tenglar

Tengiliðir

Ottó Elíasson
Háskóla Íslands
Reykjavík, Ísland
Sími: +354-663-6867
Tölvupóstur: ote1[hjá][hi.is

Oli Usher
Hubble/ESA
Garching, Þýskalandi
Sími: +49-89-3200-6855
Tölvupóstur:
[email protected]

Donna Weaver
Space Telescope Science Institute
Baltimore, BNA
Sími: +1-410-338-4493
Tölvupóstur:
[email protected]

Bill Keel
University of Alabama
Tuscaloosa, BNA
Sími: +1-205-348-1641
Tölvupóstur:
[email protected]

Þessi frétt er þýðing á fréttatilkynningu ESA/NASA heic1102 .