Óríon
Latneskt heiti: |
Orion |
Bjartasta stjarna: | Rígel |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
81 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
8 |
Nálægasta stjarna: |
GJ 3379 (17,5 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
3 |
Loftsteinadrífur: |
Óríonítar |
Sést frá Íslandi: |
Já |
Óríon er með auðþekkjanlegustu stjörnumerkjum næturhiminsins. Hann er að mestu norðan við miðbaug himins og sést best á kvöldhimninum yfir háveturinn, frá desember og fram í lok mars. Hann rís árla morguns, eða síðla nætur, frá lokum september og fram í nóvember og prýðir þá morgunhimininn. Óríon er í suðri um miðnætti síðla í desember en klukkan níu á kvöldin um miðjan febrúar.
Fjósakonurnar eða Belti Óríons er samstirni þriggja bjartra stjarna: Alnitak, Alnilam og Mintaka (frá vinstri til hægri). Þær eru allar risastjörnur, 90.000 til 375.000 sinnum bjartari en sólin (þegar útfjólublátt ljós er tekið með í reikninginn), sem munu enda sem sprengistjörnur. Úr beltinu hangir sverð Óríons. Í miðju þess er bjartasta geimþokan á næturhimninum, Sverðþokan í Óríon eða Messier 42.
Óríon er skammt frá sólbaugnum svo fyrir kemur að tunglið og reikistjörnur gangi í gegnum nyrsta hluta merkisins.
Betelgás í vinstri öxl Óríons er hluti af samstirninu Vetrarþríhyrningnum ásamt Prókýon í Litlahundi og Síríusi í Stórahundi. Betelgás er með stærstu stjörnum sem vitað er um.
Óríon er ekki mjög stórt stjörnumerki og fellur í 26. sæti þegar merkjunum er raðað í stærðarröð.
Uppruni
Stjörnumerkið Óríon og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Óríon er glæsilegt stjörnumerki og á vel við um það hávaxna glæsimenni og veiðimanninn sem merkið táknar. Hægri hönd og vinstri fótur hans markast af skærum stjörnum, Betelgás og Rígel en þrjár aðrar bjartar stjörnur mynda belti hans.
Óríon er eitt elsta stjörnumerkið. Babýlóníumenn litu á útlinur hans sem himneskan hjarðmann en Fornegiptar tengdu stjörnur hans við Ósíris, guð endurholgunar og framhaldslífs. Eftir að Set hafði drepið bróður sinn Ósíris, lífgaði Ísis, kona Ósíris, hann við svo hann gæti lifað að eilífu meðal stjarnanna.
Í þrígang er minnst á Óríon í Biblíunni: Í Jobsbók 9:9 („hann skóp Karlsvagninn og Óríon, Sjöstjörnuna og stjörnumerkin í suðri“) og 38:31 („Hnýtir þú strengi Sjöstjörnunnar eða leysir þú fjötra Óríons?“) og Amos 5:8 („Hann gerði Sjöstjörnuna og Óríon“).
Óríon var sonur sjávarguðsins Póseidons og Evrýölu, dóttur Mínosar konungs af Krít. Fullvaxta var hann veiðmaður, mikill að vöxtum vopnaður óbrjótanlegri kylfu úr bronsi og gat gengið á vatni (fékk þá getur í vöggugjöf frá föður sínum).
Eitt sinn varð Óríon hugfanginn af sjö dætrum Atlasar og Pleiónu. Seifi leist illa á þann ráðahag og hrifsaði systurnar til himna (lausþyrpingin Sjöstirnið). Þar gengur Óríon á eftir þeim á hverri nóttu en nær aldrei til þeirra.
Sögur af dauða Óríons eru til í nokkrum útgáfum en í öllum kemur sporðdreki við sögu. Sú þekktasta segir frá því þegar Óríon stærði sig af því, að vera mestur allra veiðimanna. Hann sagði við Artemisi, veiðigyðjuna og móður hennar Letó, að hann gæti vegið hvaða skepnu sem væri á jörðinni. Móðir Jörð byrsti sig við stærilætin í Óríon og upp úr sprungu á henni kom sporðdreki nokkur sem stakk risann til bana.
Óríon og Sporðdrekanum var báðum komið fyrir á himninum. Þar stendur hann með kylfu sína í annarri hendi en ljónshöfuð eða skjöld í hinni. Hundarnir (stjörnumerkin Stórihundur og Litlihundur) fylgja fast á hæla hans er þeir eltast við héra (stjörnumerkið Hérinn). Þegar Sporðdrekinn rís svo í austri, flýr Órion undan honum og hverfur undir sjóndeildarhringinn í vestri.
Stjörnur
Stjörnumerkið Óríon á „hvolfi“ yfir Höfðaborg í Suður Afríku. Bjartasta stjarnan ofarlega á myndinni er Síríus í Stórahundi. Mynd: Sævar Helgi Bragason |
Í Óríon eru margar bjartar stjörnur af gerð O og B. Óríon er eitt þeirra stjörnumerkja þar sem alfa stjarnan er ekki sú bjartasta
-
Rígel eða β Orionis er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Óríon og sjötta bjartasta stjarnan á næturhimninum (birtustig 0,12). Hún er blá reginrisastjarna af gerðinni B8 sem er 18 sinnum massameiri en sólin, 74 sinnum breiðari og 117.000 sinnum bjartari. Nafnið Rígel er arabískt að uppruna og merkir „vinstri fótur [Óríons]“. Rígel er í um 860 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
Betelgás eða α Orionis er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Óríon og níunda bjartasta stjarnan á næturhimninum (birtustig 0,58). Hún er rauður reginrisi af gerðinni M2 í um 640 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Betelgás er ein stærsta og bjartasta stjarna sem vitað er um. Hún er næstum tuttugu sinnum massameiri en sólin, yfir 1.100 sinnum breiðari og 140.000 sinnum bjartari. Væri hún í miðju okkar sólkerfis næði hún út fyrir braut Júpíters og myndi því gleypa allt innra sólkerfið. Betelgás er aðeins um tíu milljón ára gömul og hefur þróast hratt vegna stærðar sinnar. Hún mun springa innan næstu milljón ára og þegar það gerist verður hún bjartari en fullt tungl á himninum og sjást að degi til um nokkurra vikna skeið. Betelgás er í vinstri öxl Óríons.
-
Bellatrix eða γ Orionis er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Óríon og meðal björtustu stjarna næturhiminsins (birtustig 1,64). Hún er risastjarna af gerðinni B2 sem er 8,4 sinnum massameiri en sólin, 6 sinnum breiðari og yfir 6.000 sinnum bjartari. Stjarnan er yfir 20.000°C heit og geislar þess vegna að mestu útfjólubláu ljósi. Nafnið Bellatrix er latneskt að uppruna og merki „kvenkyns stríðsmaður“. Hana er að finna í vinstri öxl Óríons. Hún er í 250 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
Alnilam eða ε Orionis er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Óríon (birtustig 1,69). Hún er bláhvítur reginrisi af gerðinni B0 sem er 24 sinnum breiðari en sólin og 275.000 sinnum bjartari. Hún er yfir 20.000 gráðu heit og gefur því að mestu frá sér útfjólublátt ljós. Eftir örfáar milljónir ára mun stjarnan enda ævi sína sem sprengistjarna. Nafnið Alnilam er arabískt að uppruna og merkir „perlufesti“. Alnilam er í um 1.300 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
Alnitak eða ζ Orionis er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Óríon (birtustig 1,74). Hún er þrístirni í belti Óríons eða Fjósakonunum. Bjartasta stjarnan er heitur, blár reginrisi af gerðinni O9 sem er 28 sinnum massameiri en sólin og 100.000 sinnum bjartari. Hún er bjartasta O-stjarnan á himninum. Hinar stjörnurnar tvær eru risastjörnur af gerð O9 og B0, báðar um og yfir 20 sinnum massameiri en sólin. Allar stjörnurnar þrjár eru á bilinu 20.000 til 30.000°C heitar. Nafnið Alnitak er arabískt að uppruna og merkir „beltið“. Alnitak er í 700 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
Saiph eða κ Orionis er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Óríon (birtustig 2,07). Hún er risastjarna af gerðinni B0,5 sem er 15 sinnum massameiri en sólin og 22 sinnum breiðari. Stjarnan er 56.000 sinnum bjartari en sólin og yfir 25.000°C heit. Nafnið Saiph er dregið af arabíska orðasambandinu saif al jabbar sem þýðir „sverð risans“. Saiph er í um 650 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
Mintaka eða δ Orionis er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Óríon (birtustig 2,25). Hún er fjölstirni í belti Óríons eða Fjósakonunum. Tvær björtustu stjörnurnar eru annars vegar risastjarna af gerðinni B0,5 hins vegar risastjarna af gerðinni O9,5 sem er aðeins minni en heitari. Báðar eru 20 sinnum massameiri en sólin og 90.000 sinnum bjartari. Þær eru um 30.000°C heitar. Þessar risastjörnur snúast um sameiginlega massamiðju á tæpum sex dögum. Nafnið Mintaka er arabískt að uppruna og merkir „beltið“. Hún er í um 900 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
ι Orionis eða Na'ir al Saif er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Óríon (birtustig 2,77). Hún er litrófstvístirni sem samanstendur af tveimur risastjörnum, annars vegar af gerðinni O9 og hins vegar B0,8. Báðar stjörnur eru í kringum 30.000°C heitar. Þær eru miklu stærri en sólin en mun yngri eða innan við tíu milljón ára. Stjörnurnar eru mjög þétt saman og snúast um sameiginlega massamiðju á aðeins 29 dögum. Báðar stjörnur gefa frá sér öfluga stjörnuvinda sem framkalla sterka röntgengeislun þegar þeir rekast saman. Nafnið Na'ir al Saif er arabískt að uppruna og merkir „sú bjarta í sverðinu“.
-
π3 Orionis eða Tabit er níunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Óríon (birtustig 3,19). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni F6 sem er 23% massameiri en sólin, 32% breiðari og 2,8 sinnum bjartari. Hún er bjartasta stjaran í höfði ljónsins eða skjaldarins sem Óríon heldur á. Stjarnan er í 26,3 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
η Orionis er tíunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Óríon (birtustig 3,35). Hún er fjórstirni en þrjár stjörnur sjást í gegnum stjörnusjónauka. Þær eru allar stjörnur á meginröð af gerð B1, B3 og B2. Allar eru mun stærri og bjartari en sólin okkar. Eta Orionis er í 1.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
Meissa eða λ Orionis er ellefta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Óríon (birtustig 3,39). Hún er tvístirni sem samanstendur af risastjörnu af gerðinni O8 og meginraðarstjörnu af gerðinni B0,5. Risastjarnan er 28 sinnum massameiri en sólin og tíu sinnum breiðari. Hún yfir 30.000 gráðu heit og geislar því að mestu frá sér útfjólubláu ljósi sem rafar vetnisský í nágrenninu (S 264). Þessi stjarna er stærsta og bjartasta stjarnan á stjörnumyndunarsvæði sem kallast Lambda-Orionis þyrpingin eða Collinder 69. Stjarnan er aðeins 3 til 5 milljón ára gömul og mun enda ævi sína sem sprengistjarna eftir nokkrar milljónir ára. Lambda Orionis er í höfði Óríons.
-
υ Orionis er B0-stjarna á meginröð í stjörnumerkinu Óríon (birtustig 4,62). Hún er rúmlega tuttugu sinnum massameiri en sólin, sex sinnum breiðari og næstum 40.000 sinnum bjartari. Upsilon Orionis er í 1.545 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
S Orionis er rauð risastjarna af gerðinni M7 í um 10.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Óríon (birtustig 9,20). Hún er breytistjarna af Mírugerð með 420 daga sveiflutíma. Hún er á bilinu 400 til 500 sinnum breiðari en sólin okkar.
Óríon OB1 stjörnufélagið
Fjósakonurnar Alnitak, Alnilam og Mintaka í belti Óríons. Mynd: Davide De Martin og ESA/ESO/NASA |
Óríon OB1 stjörnufélagið er hópur heitra risastjarna af gerðinni O og B í stjörnumerkinu Óríon og annarra smærri stjarna sem hafa orðið til úr Óríon sameindaskýinu.
Félaginu er skipt í eftirfarandi undirhópa:
-
Óríon OB1a — Hópur stjarna norðvestur af belti Óríons sem eru að meðaltali 12 milljón ára gamlar.
-
Óríon OB1b — Björtu stjörnurnar þrjár í belti Óríons, Alnitak, Alnilam og Mintaka sem eru að meðaltali 8 milljón ára gamlar.
-
Óríon OB1c — Stjörnurnar í sverði Óríons sem eru á bilinu 3-6 milljón ára.
-
Óríon OB1d — Stjörnurnar í Sverðþokunn og Messier 43 sem eru yngstar.
Djúpfyrirbæri
Sverðþokan í Óríon. Mynd: NASA/ESA-Hubble |
Í Óríon er fjöldi bjartra geimþoka sem tilheyra Óríon sameindaskýinu. Þetta sameindaský nær yfir nánast allt stjörnumerkið og inniheldur baug Barnards (gashvel sem umlykur Óríon), Riddaraþokuna, Sverðþokuna, Messier 43, Messier 78 og Logaþokuna (sjá mynd hér). Skýið er eitt virkasta myndunarsvæði stjarna í vetrarbrautinni okkar og hefur til að mynda getið af sér Óríon OB1 stjörnufélagið.
-
Messier 42 eða Sverðþokan í Óríon er bjartasta geimþokan á næturhimninum og eitt albjartasta djúpfyrirbæri himins. Þessi stóra ljómþoka er í 1.340 ljósára fjarlægð frá jörðinni og sést ágætlega með berum augum við þokkalegar aðstæður í sverði Óríons. Í gegnum litla áhugamannasjónauka hefur þokan á sér grænleitan blæ. Í miðjunni er lítil þyrping bláhvítra risastjarna af O-gerð sem mynda hina svonefndu Trapisu. Frá þeim stafar hin sterka útfjólubláa geislun sem lýsir upp þokuna og mótar hana.
-
Messier 43 er ljómþoka í 1.400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Dökk rykslæða skilur hana frá Sverðþokunni svo auðvelt er að finna hana og sjá í gegnum stjörnusjónauka.
-
Messier 78 er endurskinsþoka í 1.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Auðvelt er að finna hana á himninum því hún er um tvær gráður norður af Alnitak i Fjósakonunum. Hún sést naumlega í gegnum handsjónauka við góðar aðstæður en er mun augljósari í gegnum stjörnusjónauka.
-
NGC 1788 er endurskinsþoka í um 1.300 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er fremur lítil og staðsett í dimmu og lítt þekktu svæði í Óríon. Hún er dauf og sést best í gegnum stóra áhugamannasjónauka.
-
NGC 1999 er björt, rykfyllt endurskinsþoka í um 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni er stórt tómt gat. Þokan er lýst upp af breytistjörnunni V380 Orionis.
-
NGC 2024 eða Logaþokan er ljómþoka í um 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er lýst upp af stjörnunni Alnitak í belti Óríons.
-
Riddaraþokan (IC 434) er skuggaþoka í um 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þessi fræga þoka er mjög dauf enda fannst hún ekki fyrr en teknar voru ljósmyndir af stjörnumerkinu Óríon. Þokan er lýst upp af fjölstirninu Sigma Orionis. Mjög erfitt er að koma auga á þokuna og er það raunar aðeins hægt með stórum áhugamannasjónaukum og vetnis-beta ljóssíu.
Loftsteinadrífur
Óríonítar er loftsteinadrífa í meðallagi sem stendur yfir frá 15. til 29. október á hverju ári. Drífan er í hámarki 20.-22. október og sjást þá venjulega í kringum 20 hraðfleygir loftsteinar á klukkustund en þeir geta verið fleiri sum ár. Óríoníta má rekja til rykslóðar sem halastjarnan Halley hefur skilið eftir sig á ferðalögum sínum inn í innra sólkerfið.
Stjörnukort
Stjörnukort af Óríon í prentvænni útgáfu er að finna hér.