Perseifur
Latneskt heiti: |
Perseifur |
Bjartasta stjarna: | Mirfak/Algenib |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
65 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
5 |
Nálægasta stjarna: |
GJ 3182 (34 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
2 |
Loftsteinadrífur: |
Persítar |
Sést frá Íslandi: |
Já |
Perseifur sést að kvöldlagi frá Íslandi allan veturinn, frá september fram í mars. Hann er í suðri um klukkan tíu að kvöldi í kringum áramótin. Best er að finna Perseif út frá stjörnumerkinu Kassíópeiu sem er fyrir ofan hann á himninum (björtustu stjörnurnar í Kassíópeiu mynda „W“).
Uppruni
Perseifur er ein frægasta hetja grískra goðsagna. Hann var sonur Danae, dóttur Akrisíusar konungs af Argos. Akrisíus hafði læst dóttur sína í dýflissu eftir að véfrétt nokkur sagði honum, að barnabarn hans myndi drepa hann. Seifur heillaðist af Danae og heimsótti hana í líki gullregns sem féll í gegnum gat á dýflissunni í skaut hennar og gerði hana barnshafandi. Þegar Akrisíus varð var við hvítvoðunginn Perseif, læsti hann mæðginin í viðarkistu og kastaði þeim á haf út.
Í kistunni hélt Danae þéttingsfast um barn sitt og bað Seif um hjálp. Nokkrum dögum síðar rak kistuna á land á eyjunni Serifos, þar sem fiskimaðurinn Diktys fann mæðgingin sársvöng og þyrst. Diktys ól síðan Perseif upp sem sinn eigin son.
Bróðir Diktys var Pólydektes konungur. Hann vildi kvænast Danae en hún var treg til. Þegar Perseifur var stálpaður varði hann móður sína fyrir hinum ágenga konungi. Pólydektes sætti sig illa við það og lagði á ráðin um að losa sig við Perseif. Konungur kvað honum að færa sér höfuð gorgónans Medúsu sem eftirfarandi orð eru höfð um á Vísindavefnum:
Medúsa eða Gorgó var ein þriggja systra, gorgónanna svonefndu, en hinar tvær voru þær Sþenó og Evrýale. Gorgónurnar voru hræðilegar á að líta, og var sagt að aðeins sjávarguðinn Póseidon væri óhræddur við þær.
Medúsa hafði beittar tennur í ógurlegum skoltinum og á höfði hennar voru lifandi eitursnákar í stað hárs. Hendurnar voru úr bronsi og hún hafði gullna vængi. Augnaráðið var svo skelfilegt að allir sem litu í augu hennar urðu jafnskjótt að steini.
Ólíkt systrum sínum var Medúsa dauðleg. Vopnaður demantasverði frá Hefæstosi, bronsskildi frá Aþenu, vængjuðum sanddölum frá Hermesi og huliðshjálmi frá Hadesi, flaug Perseifur upp á Atlasfjall þar sem systurnar dvöldu. Þar fylgdi hann slóð steingerðra manna og dýra sem höfðu verið svo óheppin að berja gorgónana augum.
Höfuð Medúsu eftir Peter Paul Rubens frá 1617 til 1618. Mynd: Wikimedia Commons |
Perseifur læddist óséður að dvalarstað gorgónana og beið þar til þær sofnuðu. Í skjóli nætur, á meðan Medúsa var í fastasvefni, horfði hann á spegilmynd hennar og komst þannig hjá því að verða að steini, brá síðan sverði sínu á loft og hjó höfuðið af henni. Úr höfðinu spratt meðal annars vængfákurinn Pegasus.
Perseifur sótti síðan höfuðið og flaug burt áður en hinir gorgónarnir vöknuðu. Blóðið draup úr höfðinu og breyttist í snáka þegar það skall á eyðimörkinni í Líbýu.
Perseifur staðnæmdist í konungsríki Atlasar en þegar Atlas neitaði Perseifi um að dvelja þar, sýndi Perseifur konungi höfuð Medúsu. Við það breyttist Atlas í fjallgarðinn sem nú ber nafn hans.
Stjörnumerkið Perseifur og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Daginn eftir hóf Perseifur sig aftur til flugs. Á ströndinni fyrir neðan sá hann glitta í íðilfagra stúlku hlekkjaða við klifið. Þetta var Andrómeda, dóttir Sefeusar og Kassíópeiu, sem verið var að fórna fyrir sjávarskrímslinu (Hvalnum) vegna drambsemi móður hennar. Perseifur drap skrímslið, bjargaði Andrómedu undan þessum nöturlegu örlögum og bað síðan um hönd hennar. Andrómeda játaðist Perseifi og saman flugu þau til ríkis Pólýdektesar konungs. Perseifur kom stormandi inn í höll konungs, tók upp höfuð Medúsu og breytti konungnum og fylgjendum hans í stein. Perseifur fékk síðan gyðjunni Aþenu höfuðið sem festi það á ægisskjöldinn, skjöld Seifs sem var úr geitarskinni.
Perseifur stendur næst ástinni sinni Andrómedu á himninum. Skammt frá eru foreldrar hennar Sefeus og Kassíópeia og skrímslið Hvalurinn. Pegasus er líka í nágrenninu en Perseifur sjálfur er sýndur haldandi á höfði Medúsu.
Í miðju höfðinu er stjarnan Algol, nefnd Djöflastjarnan. Hún breytir birtu sinni á 2,9 dögum, eins og Medúsa sé að depla auganum.
Stjörnur
Í Perseifi eru fimm stjörnur bjartari en 5. birtustig.
-
α Persei er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Perseifi (birtustig 1,80). Hún er risastjarna af gerðinni F5, rúmlega sjö sinnum massameiri en sólin, 60 sinnum breiðari og 5.000 sinnum bjartari. Alfa Persei er einnig þekkt undir nöfnunum Mirfak og Algenib sem þýðir „síðan“ eða „hliðin“. Hún er í 510 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
β Persei eða Algol er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Perseifi (birtustig 2,09). Hún er þrístirni en tvær stærri stjörnurnar, Algol A og Algol B, mynda myrkvatvístirni því brautir þeirra eru í sjónlínu við jörðina. Algol A er meginraðarstjarna af gerðinni B8, rúmlega þrisvar sinnum massameiri en sólin, fjórum sinnum breiðari og 98 sinnum bjartari. Algol B er undirmálsstjarna af gerðinni K0, 79% af massa sólar en þrisvar sinnum breiðari og þrisvar sinnum bjartari. Algol C er meginraðarstjarna af gerðinni A5, 67% massameiri en sólin en 90% af breidd hennar og fjórum sinnum bjartari. Algol B gengur fyrir Algol A á tveggja sólarhringa, 20 klukkustunda og 49 mínútna fresti. Þá standa yfir rúmlega tíu klukkustunda langir deildarmyrkvar sem breyta birtu Algols frá +2,1 niður í +3,4. Tafla yfir þessa myrkva birtast í Almanaki Háskóla Íslands ár hvert. Aðeins 0,062 stjarnfræðieiningar skilja A og B stjörnurnar að. Þriðja stjarnan í tríóinu, Algol C, er í 2,69 stjarnfræðieininga fjarlægð frá myrkvatvíeykinnu en umferðartími þeirra um sameiginlega massamiðju er 681 dagur. Algol er í um 93 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Fyrir rúmum sjö milljónum ára var hún í tæplega tíu ljósára fjarlægð frá sólkerfinu. Nafnið Algol er arabískt að uppruna og þýðir „höfuð ófreskjunnar“ er hún er einnig þekkt sem Djöflastjarnan á íslensku.
-
ζ Persei eða Atik er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Perseifi (birtustig 2,84). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni B1 sem er að þróast yfir í risastjörnu. Stjarnan er fimmtán sinnum massameiri, 26 sinnum breiðari og 47.000 sinnum bjartari en sólin okkar. Þessi risastjarna er í 750 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
ε Persei er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Perseifi (birtustig 2,90). Hún er tvístirni í um 640 ljósára fjarlægð. Bjartari stjarna tvíeykisins er, Epsilon Persei A, er meginraðarstjarna af gerðinni B0,5; 12 til 16 sinnum massameiri en sólin, nærri átta sinnum breiðari og 28.000 sinnum bjartari. Hún er einnig sveiflustjarna af Beta Cephei gerð. Fylgistjarnan er töluvert minni eða álíka massamikil og sólin okkar og álíka breið. Hún er sennilega meginraðarstjarna.
-
γ Persei er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Perseifi (birtustig 2,91). Hún er myrkvatvístirni með rúmlega 14 ára umferðartíma í um 243 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarna kerfisins er risastjarna af gerðinni G9, tæplega þrisvar sinnum massameiri en sólin. Fylgistjarnan er líklega meginraðarstjarna af gerðinni A2 eða A3, um 65% massameiri en sólin. Geislapunktur loftsteinadrífunnar Persítar er um fjórar gráður norður af Gamma Persei.
-
δ Persei er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Perseifi (birtustig 3,01). Hún er tvístirni í um 520 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stærri og bjartari stjarna kerfisins er risastjarna af gerðinni B5, um sjö sinnum massameiri en sólin og ríflega sex sinnum breiðari.
-
ρ Persei er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Perseifi (birtustig 3,32). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni M4, um fimm sinnum massameiri en sólin, 150 sinnum breiðari og yfir 2.000 sinnum bjartari. Ró Persei gengur líka undir nafninu Gorgonea Tertia enda ein af stjörnunum í höfði Gorgónans Medúsu. Hún er í um 308 ljósara fjarlægð frá jörðinni.
-
η Persei eða Miram er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Perseifi (birtustig 3,77). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K3, 35.000 sinnum bjartari en sólin okkar, í um 1330 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
Ómíkron Persei er. Hún er litrófstvístirni sem samanstendur af risastjörnu af gerðinni B1 og meginraðarstjörnu af gerðinni B3 með 4,5 daga umferðartíma. Ómíkron Persei ber einnig nafnið Atik sem þýðir „öxlin“.
-
ω Persei er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1 í um 305 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Perseifi (birtustig 4,63). Stjarnan ber einnig nafnið Gorgonea Quarta enda að finna í höfði Gorgónans Medúsu.
-
π Persei er meginraðarstjarna af gerðinni A2 í um 362 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Perseifi (birtustig 4,68). Stjarnan ber einnig nafnið Gorgonea Secunda enda að finna í höfði Gorgónans Medúsu.
Djúpfyrirbæri
Stjörnuþyrpingarnar NGC 869 og NGC 884. Mynd: N. A. Sharp/NOAO/AURA/NSF |
Vetrarbrautarslæðan liggur um Perseif og þar er að finna þyrpingar og geimþoku. Þekktasta djúpfyrirbærið í Perseifi er NGC 869 og NGC 884 eða Double Clouster sem samanstendur af tveimur lausþyrpingum. Þær sjást saman sem daufur þokublettur á himninum þar sem ljósmengun spillir ekki.
-
Messier 34 er lausþyrping í um 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þyrpingin sést naumlega með berum augum við bestu aðstæður en leikandi með handsjónauka. Best er að skoða þyrpinguna við litla stækkun í gegnum stjörnusjónauka.
-
Messier 76 er hringþoka sem kölluð er Litla Dymbilþokan. Hún er í um 2.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Nokkuð snúið getur reynst að finna hana á himninum því fáar bjartar stjörnur eru í nágrenni hennar. Hún sést sem daufur þokublettur í gegnum handsjónauka en lögunin sést best með stórum stjörnusjónauka.
-
NGC 869 og NGC 884 eða Double Cluster eru tvær stórar lausþyrpingar í um 7.600 og 6.800 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þær eru hlið við hlið á himninum og sjást sem daufur þokublettur þar sem ljósmengun spillir ekki. Þær henta vel fyrir allar gerðir hand- og stjörnusjónauka og eru hreint stórfenglegar að sjá í gegnum meðalstóra og stóra sjónauka í víðu sjónsviði.
-
NGC 1275 er sporvöluvetrarbraut með virkan kjarna. Hún er hluti af Perseifsþyrpingunni (Abell 426) sem er stór vetrarbrautaþyrping í 250 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni eru næstum 200 vetrarbrautir.
-
NGC 1333 er endurskinsþoka í 720 til 1.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
NGC 1499 er ljómþoka í um 1.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er stundum kölluð Kaliforníuþokan vegna líkinda sinna við Kaliforníuríki í Bandaríkjunum. Þokan er lýst upp af stjörnunni Xí Persei. Hún sést með berum augum þó dauf sé og hefur raunar svo lága yfirbrðsbirtu að hún sést ekki ýkja vel í gegnum stjörnusjónauka.
Loftsteinadrífur
Persítar er öflug loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 23. júlí til 20. ágúst. Drífan er í hámarki 13. ágúst og sjást þá á bilinu 80 til 100 hraðfleygir loftsteinar á klukkustund. Persíta má rekja til slóðar sem halastjarnan Swift-Tuttle skilur eftir á 130 ára hringferð sinni um sólina. Drífan hefur þekkst í um 2000 ár og er alla jafna með öflugustu loftsteinadrífa á árinu.
Stjörnukort
Stjörnukort af Perseifi í prentvænni útgáfu er að finna hér.