Sefeus

  • stjörnukort, stjörnumerki, Sefeus
    Kort af stjörnumerkinu Sefeusi
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Cepheus
Bjartasta stjarna: α Cephei
Bayer / Flamsteed stjörnur:
43
Stjörnur bjartari +3,00:
1
Nálægasta stjarna:
Kruger 60
(13,15 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Sefeus var goðsögulegur konungur Eþíópíu, þó ekki þeirrar Eþíópíu sem við þekkjum í dag heldur svæðisins við suðausturströnd Miðjarðarhafsins, þar sem Ísrael, Jórdanía og Egyptaland eru í dag.

Sefeus var kvæntur Kassíópeiu, hinni hégómafullu drottningu sem stærði sig af fegurð sinni og reitti þannig Póseidon til reiði, svo hann sendi sjávarskrímsli (Hvalinn) til að herja á konungveldi Sefeusar. Ammon-véfréttin sagði Sefeusi að færa sjávarskrímslinu dóttur sína Andrómedu sem fórn til að friðþægja Póseidon. Andrómeda var hlekkjuð við klifið en bjargað af hetjunni Perseifi, sem drap skrímslið og bað Andrómedu um að giftast sér.

Sefeus bauð til íburðarmikillar brúðkaupsveislu í höll sinni. En Andrómeda hafði verið lofuð öðrum, Fíneusi, bróður Sefeusar sem var ekki allskostar sáttur með ráðahagin. Á meðan athöfnin stóð yfir, þustu Fíneus og fylgjendur hans inn í veislun og kröfðust þess að fá Andrómedu afhenta. Sefeus hafnaði því svo upphófst orrusta. Sefeusi staulaðist af vettvangi og skildi Perseif einan eftir til að verja sig. Hetjan hjó niður hvern árásarmanninn á fætur öðrum og breytti þeim sem eftir voru í stein með því að sýna þeim höfuð gorgónans Medúsu.

Stjörnur

Sefeus er nálægt norðurpóli himins. Björtustu stjörnur hans raðast upp í fimmhyrnt mynstur sem minnir á hús. Frægasta stjarna merkisins er sefítinn Delta Cephei sem breytir birtu sinni á 5,4 dögum og allir aðrir sefítar eru nefndir eftir. Af öðrum markverðum stjörnum má nefna Mu Cephei og VV Cephei sem báðar eru meðal stærstu stjarna sem vitað er um í vetrarbrautinni okkar.

  • α Cephei er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 2,5). Hún er stjarna af gerðinni A7 sem er að þróast úr meginraðarstjörnu í undirmálsstjörnu sem verður að rauðum risa að lokum. Hún er 74% massameiri en sólin, rúmlega tvisvar sinnum breiðari og 17 sinnum bjartari. Samkvæmt hliðrunarmælingum er stjarnan í aðeins 49 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Beta Cephei gengur einnig undir nafninu Alderamin sem þýðir „hægri höndin“.

  • γ Cephei er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 3,22). Hún er tvístirni í um 45 ljósára fjarlægð sem samanstendur af appelsínugulri undirmálsstjörnu af gerðinni K1 (Gamma Cephei A) og rauðum dverg af gerðinni M4 (Gamma Cephei B). Gamma Cephei A er 40% massameiri en sólin og tæplega fimm sinnum breiðari. Gamma Cephei B er tæplega 41% af massa sólar. Stjörnurnar snúast um sameiginlega massamiðju á rúmum 67 árum. Í kringum árið 3.000 verður Gamma Cephei pólstjarna vegna pólveltu jarðar.

  • β Cephei er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 3,23). Hún er þrístirni í um 690 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartasta stjarnan í kerfinu, Beta Cephei A, er blá risastjarna af gerðinni B2, tólf sinnum massameiri en sólin, níu sinnum breiðari og 36.900 sinnum bjartari. Hún er sveiflustjarna sem breytir birtu sinni frá +3,16 til 3,27 á rúmum fjórum klukkustundum.

  • ζ Cephei er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 3,39). Hún er appelsínugulur reginrisi af gerðinni K1,5 sem er átta sinnum massameiri en sólin, 110 sinnum breiðari og 5.600 sinnum bjartari. Zeta Cephei er í um 730 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • η Cephei er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 3,41). Hún er appelsínugul undirmálsstjarna af gerðinni K0 sem er að þróast yfir í risastjörnu. Stjarnan er 1,6 sinnum massameiri en sólin, fjórum sinnum breiðari og tæplega tíu sinnum bjartari. Hún er í um 47 ljósára fjarlægð frá jörðinni samkvæmt hliðrunarmælingum.

  • ι Cephei er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 3,5). Hún er risastjarna af gerðinni K0 í um 115 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er tvisvar sinnum massameiri en sólin, tífalt breiðari og 50 sinnum bjartari. Í kringum árið 5.200 verður hún pólstjarna vegna pólveltu jarðar.

  • δ Cephei er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 4,1). Hún er tvístirni í 887 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Delta Cephei A er risastjarna af gerðinni F5, rúmlega fjórum sinnum massameiri en sólin, 44 sinnum breiðari og 2000 sinnum bjartari. Delta Cephei B er risastjarna af gerðinni B7, 54 sinnum massameiri en sólin og 500 sinnum bjartari. Stjörnurnar snúast um sameiginlega massamiðju á 500 árum. Sefítar, sérstök tegund sveiflustjarna, eru nefndir eftir Delta Cephei. Hún breytir birtu sinni frá +3,48 upp í +4,37 á rúmum fimm dögum.

  • ε Cephei er níunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 4,18). Hún er gulhvít meginraðarstjarna af gerðinni F0 í um 85 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • μ Cephei er ellefta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 4,23). Hún er rauður ofurrisi af gerðinni M1 í um 6.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mu Cephei er með stærstu og björtustu stjörnum sem þekkjast í vetrarbrautinni okkar. Hún er allt að 1.400 sinnum breiðari en sólin, 19 sinnum massameiri og líklega 3,7 milljón sinnum bjartari. Mu Cephei er stundum kölluð Granatstjarna Herschels vegna rauðs litar sem sést greinilega í sjónauka.

  • ξ Cephei er stjarna á meginröð af gerðinni A3 í um 100 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 4,29). Hún ber einnig nafnið Kurrhah.

  • VV Cephei er stjarna í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 4,9). Hún tvístirni í um það bil 2.400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stærri stjarnan, VV Cephei A, er rauður ofurrisi af gerðinni M2 sem er átta sinnum massameiri en sólin, 1050 til 1900 sinnum breiðari og ef til vill meira en 500.000 sinnum bjartari. Hún er þar af leiðandi ein stærsta stjarna vetrarbrautarinnar. Væri hún í miðju okkar sólkerfis næði hún út fyrir braut Satúrnusar. VV Cephei B er líklega blá meginraðarstjarna af gerðinni B0. Sú fyrrnefnda er 3.400°C heit en sú síðarnefnda um 25.000°C.

  • Tvær stjörnur í Sefeusi bera bókstafinn . ρ1 Cephei er stjarna á meginröð af gerðinni A3 í um 220 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 5,83). ρ2 Cephei er einnig stjarna af meginröð af gerðinni A3 en í um 260 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 5,50).

  • RW Cephei er rauður ofurrisi af gerðinni K2 í um 11.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 6,52). Stjarnan er 1.650 sinnum breiðari en sólin okkar og því með stærstu stjörnum sem vitað er um. Væri hún í miðju okkar sólkerfis næði hún út fyrir braut Júpíters. Hún er 40 sinnum massameiri en sólin og meira en 700.000 sinnum bjartari.

  • V354 Cephei er rauður ofurrisi í um 9.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sefeusi (birtustig 11). Hún er 1.520 sinnum breiðari en sólin og því með stærstu stjörnum sem vitað er um. Væri hún í miðju okkar sólkerfis næði hún út fyrir braut Júpíters.

  • T Cephei er ofurrisastjarna í stjörnumerkinu Sefeusi. Hún er 540 sinnum breiðari en sólin og með stærstu stjörnum sem vitað er um. Hún er breytistjarna af Mírugerð, 15 til 18 sinnum massameiri en sólin okkar.

Djúpfyrirbæri

Í Sefeusi eru nokkur markverð djúpfyrirbæri.

  • NGC 40 er hringþoka í um 3.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 11,4). Þótt þokan sé dauf sést hún ágætlega í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

  • NGC 188 er lausþyrping í um 5.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er fræg fyrir að vera ein elsta lausþyrping okkar vetrarbrautar, líklega yfir 5 milljarða ára gömul.

  • NGC 6946 eða Flugeldavetrarbrautin er þyrilvetrarbraut í um 22 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 9,6). Um 40 bogamínútum norðvestur af vetrarbrautinni er lausþyrpingin NGC 6939. Hún er í 5.800 ljósára fjarlægð frá jörðinni og inniheldur um 80 stjörnur. Sú bjartasta er af 12. birtustig. Sjá mynd hér.

  • NGC 7023 er björt endurskinsþoka í um 1.300 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 6,8). Þokan er skammt frá stjörnunni T Cephei, sem er sveiflustjarna af Mírugerð og Beta Cephei. Hún er stundum kölluð Sjáaldursþokan.

  • NGC 7129 er lausþyrping og endurskinsþoka í um 3.300 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 11,5).

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Sefeus
Stjörnumerkið Sefeus og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Sefeusi í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Cepheus

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Cepheus_(constellation) 

  3. Jim Kaler's Stars

  4. What's Up Cepheus