Steingeitin

  • stjörnukort, stjörnumerki, Steingeitin
    Kort af stjörnumerkinu Steingeitinni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Capricornus
Bjartasta stjarna: Deneb Algedi
Bayer / Flamsteed stjörnur:
49
Stjörnur bjartari +3,00:
1
Nálægasta stjarna:
LP 816-60
(18 ljósár)
Messier fyrirbæri:
1
Loftsteinadrífur:
Alfa Capricornítar
Sést frá Íslandi:
Að hluta

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Steingeitina og telst hún því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Sólin er innan marka Steingeitarinnar frá 20. janúar til 16. febrúar (en ekki frá 22. desember til 19. janúar eins og segir í stjörnuspám).

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum og sjást því stundum í Steingeitinni. Þegar Neptúnus fannst þann 23. september árið 1846 var hann í Steingeitinni, skammt frá stjörnunni Deneb Algedi.

Miðja Steingeitarinnar er um 20 gráður sunnan við miðbaug himins og liggur merkið því heldur illa við athugun frá Íslandi. Steingeitin sést lágt á lofti í suðri að kvöldlagi í september og október.

Til að finna Steingeitina er einfaldast að finna fyrst stjörnumerkin sem hýsa stjörnur Sumarþríhyrningsins: Svaninn, Hörpuna og Örninn. Hægt er að nota neðstu stjörnuna í Sumarþríhyrningnum, Altair í Erninum, sem leiðarstjörnu en Steingeitina er að finna suðaustan við Örninn (niður og til vinstri). Það getur tekið smástund að finna merkið, því það er neðarlega á himninum og engin stjarna í hópi bjartari stjarna himins. Hún fellur í flokk með Krabbanum sem annað af tveimur daufustu stjörnumerkjum dýrahringsins.

Hvarfbaugur Steingeitarinnar er sú breiddargráða á jörðinni þar sem sólin er í hvirfilpunkti á hádegi við vetrarsólstöður, í kringum 22. desember. Á tímum forngrikkja var sólin í Steingeitinni á þessum tíma en vegna pólveltu jarðar er sólin nú í Bogmanninum við vetrarsólstöður.

Uppruni

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Steingeitin
Stjörnumerkið Steingeitin og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Steingeitin er í hópi elstu stjörnumerkja. Hún er á þeim hluta himins þar sem svonefnd „vatnsmerki“ er að finna en í þeim eru einnig stjörnumerkin Vatnsberinn, Fiskarnir, Höfrungurinn, Suðurfiskurinn og Hvalurinn. Merkið er því oft nefnt „sægeitin“ (lat. Capra marii). Ástæða þess að merkin á þessu svæði eru kennd við vatn á ef til vill rætur að rekja alla leið aftur til fornríkis Babýlóníumanna. Fyrir um 3000 árum var sólin í Steingeitinni um vetrarsólstöður (sá tími í desember þegar sól er lægst á lofti). Því hafa komið fram hugmyndir um að vatnsmerkin tengist regntímanum sem þá stóð yfir.

Grikkir tengdu stjörnumerkið Steingeitina til sveitaguðsins Pan. Fjallað er um Pan á Vísindavefnum og kemur þar eftirfarandi fram:

Í útliti var Pan aðeins hálfur maður; frá mitti og niður úr var hann eins og geit, auk þess sem hann hafði geitaeyru, horn á höfði og þykkan hökutopp eða alskegg. Hann var að sama skapi dýrslegur í hegðun, og eltist aðallega við gyðlur, en stundum líka við meyjar og fjárhirða.

Sagt er að Pan hafi getað vakið með fólki ástæðulausan ótta, eða felmtur. Af þessari ástæðu kallast felmtur 'panic' á ýmsum erlendum tungumálum; hið sama má segja um íslenska slanguryrðið 'panikka'.

Pan kom guðunum til hjálpar þegar hann öskraði varnaðarorð til þeirra, er skrímslið Týfón, sem Móðir Jörð (Gaia) hafði sent, réðst til atlögu gegn þeim. Felmtri slegnir og að áeggjan Pans, dulbjuggu guðirnir sig sem dýr til að rugla skrímslið í ríminu. Pan leitaði sjálfur skjóls í fljóti með því að breyta neðri hluta líkama síns í fisk.

Seifur glímdi við Týfon en hafði ekki erindi sem erfiði í fyrstu. Hermes og Pan hjálpuðu honum að ná fyrri styrk sem gerði honum kleift að varpa einum af þrumufleygum sínum að skrímslinu. Skrímslið laut í lægra haldi og gróf Seifur það undir Etnufjalli á Sikiley, sem enn spúir eldi og eimyrju frá andardrætti skrímslisins. Í þakklætisskyni fyrir þátt sinn í sigrinum, kom Seifur mynd af Pan fyrir á himninum sem stjörnumerkið Steingeitin.

Stjörnur

Einungis fimm stjörnur í Steingeitinni eru bjartari en 4. birtustig og aðeins ein bjartari en 3. birtustig.

  • δ Capricorni er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Steingeitinni (birtustig 2,85). Hún er myrkvatvístirni, svipuð Algol í Perseifi, í um 39 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarnan er hvít risastjarna af gerðinni A7 en förunauturinn er G eða K-stjarna, um 90% af massa sólar. Delta Capricorni er einnig nefnd Deneb Algedi sem þýðir „dindill geitarinnar“.

  • β Capricorni er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Steingeitinni (birtustig 3,05). Hún er tvístirni í um 328 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Auðvelt er að greina sundur stjörnurnar í gegnum hand- eða stjörnusjónauka. Bjartari stjarnan (birtustig 3,08) er appelsínugulur risi af K gerð en daufari stjarnan (birtustig 6,1) er risastjarna af gerðinni A0. Beta Capricorni er einnig nefnd Dabih sem þýðir „slátrarinn“ (sem er um það bil að slátra kindinni, Nu Capricorni).

  • α Capricorni er sýndartvístirni í stjörnumerkinu Steingeitinni. Hún ber einnig nafnið Algiedi sem þýðir „geitin. Alfa2 Capricorni er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Steingeitinni (birtustig 3,58). Hún er risastjarna af gerðinni G8 í um 109 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Alfa1 Capricorni er örlítið daufari (birtustig 4,30). Hún er reginrsiastjarna af gerðinni G3 í um 690 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • γ Capricorni er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Steingeitinni (birtustig 3,69). Hún er bláhvít risastjarna af gerðinni A7 í um 139 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan ber einnig nafnið Nashira sem þýðir „sá/sú heppni/heppna“ eða „boðberi góðra tíðinda“.

  • ζ Capricorni er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Steingeitinni (birtustig 3,77). Hún er tvístirni í um 398 ljósára fjarlægð. Bjartari stjarna kerfisins, A, er reginrisastjarna af gerðinni G4 en förunauturinn, B, er hvítur dvergur.

  • ν Capricorni er tvístirni í stjörnumerkinu Steingeitinni (birtustig 4,77). Hún er bláhvít meginraðarstjarna af gerðinni B9,5 í um 272 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan ber einnig nafnið Alshat sem merkir „kindin“ (stjarnan sem er um það bil að verða slátrað af Dabih eða Beta Capricorni).

Djúpfyrirbæri

Í Steingeitinni eru fremur fá áhugaverð djúpfyrirbær og aðeins eitt úr Messierskránni.

  • Messier 30 er kúluþyrping í um 29.400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er um 3 gráður austan við stjörnuna Zeta í Steingeitinni en sést aðeins með handsjónauka eða stjörnusjónauka. Þyrpingin er mjög lágt á íslenska stjörnuhimninum. Hún kemst mest 2,5° yfir sjóndeildarhringinn í Reykjavík sem þýðir að hún sést ekki á Norðurlandi vegna deyfingar ljóssins á leið sinni í gegnum lofthjúpinn.

  • NGC 6907 er þyrilvetrarbraut, nokkuð stór með fremur bjartan kjarna sem dofnar til jaðranna. Hún sést best í gegnum stóra áhugamannasjónauka. Í norðausturarmi hennar er önnur lítil þyrilvetrarbraut, NGC 6908.

Loftsteinadrífur

Alfa Capricornítar er ítilsháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 15. júlí til 11. september. Drífan er í hámarki 1. ágúst og sjást þá milli 6 og 14 loftsteinar á klukkustund, fremur bjartir en nokkuð hægfara.

Stjörnukort

Stjörnukort af Steingeitinni í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Capricornus the sea goat

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Capricornus

  3. Jim Kaler's Stars

  4. What's Up Capricorn

  5. http://meteorshowersonline.com/showers/alpha_capricornids.html