Sverðfiskurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Sverðfiskurinn
    Kort af stjörnumerkinu Sverðfisknum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Doradus
Bjartasta stjarna: α Doradus
Bayer / Flamsteed stjörnur:
14
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
GJ 2036
(37 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Suðurþríhyrningurinn var eitt þeirra tólf stjörnumerkja sem hollenski kortagerðarmaðurinn Petrus Plancius bjó til eftir athugunum landa sinna Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtman í lok 16. aldar. Keyser og de Houtman höfðu siglt til Austur Indía í einum af fyrstu leiðangrum Hollendinga þangað og gert stjörnuathuganir.

Suðurþríhyrningurinn birtist fyrst á hnattlíkani sem Plancius og landi hans Jodocus Hondius gáfu út í Amsterdam árið 1598. Merkið er nefnt eftir hinum litríka gullmakríl sem finnst í suðurhöfum en hollensku landkönnuðirnir sáu þessa ránfiska elta flugfiska. Á himninum er þessu eins farið, þar sem Sverðfiskurinn eltir Flugfiskinn.

Stjörnur

  • α Doradus er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sverðfisknum (birtustig 3,3). Samkvæmt hliðrunarmælingum er hún í um 169 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Alfa Doradus er tvístirni sem samanstendur af undirmálsstjörnu af gerðinni B sem hringsólar um um risastjörnu af gerðinni A á tólf árum. Stærri stjarnan er rúmlega þrisvar sinnum stærri en sólin en 195 sinnum bjartari á meðan daufari stjarnan er tvisvar sinnum stærri en sólin og 70 sinnum bjartari. Báðar stjörnur eru álíka heitar, um 11 til 12 þúsund gráður.

  • β Doradus er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sverðfisknum (birtustig 3,6). Samkvæmt hliðrunarmælingum er hún í um 1.040 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Beta Doradus er risastjarna. Hún er sefíti af gerðinni F4-G4 Ia-II, þ.e.a.s. hún sveiflar ekki aðeins birtu sinni heldur eru litrófsgerð og ljósaflsflokkur hennar líka breytilegir. Stjarnan er rúmlega sex sinnum massameiri og 67 sinnum breiðari en sólin og meira en 3.000 sinnum bjartari.

  • γ Doradus er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sverðfisknum (birtustig 4,25). Hún er stjarna á meginröð af gerðinni F0 og er ekki svo ólík sólinni okkar þótt hún sé meira en 50% massameiri, 70% stærri og sjö sinnum bjartari.

Djúpfyrirbæri

Í Sverðfisknum er stór hluti af Stóra Magellansskýinu, lítilli fylgivetrarbraut okkar eigin vetrarbrautar sem er í um 170.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í Stóra Magellansskýinu eru fjölmörg áhugaverð djúpfyrirbæri:

  • NGC 2070 eða 30 Doradus er risavaxin ljómþoka sem gengur líka undir nafninu Tarantúluþokan. Hún er virkasta og stærsta stjörnumyndunarsvæði sem vitað er um í Grenndarhópnum. Í miðju hennar er ein stærsta stjörnuþyrping sem vitað er um en í henni er massamesta stjarna sem þekkist. Í útjaðri þokunnar sást sprengistjarnan 1987A

  • NGC 2080 eða Draugahöfuðþokan er ljómþoka sem er um 50 ljósár í þvermál og dregur nafn sitt af tveimur áberandi ljósblettum sem minna á „draugaaugu“.

  • NGC 1553 er linsulaga vetrarbraut í um 79 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • NGC 1672 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 60 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • NGC 1818 er kúluþyrping í um 164.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Sverðfiskurinn
Stjörnumerkið Sverðfiskurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Sverðfisknum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Dorado the goldfish

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Dorado