Kjalarþokan
Tegund: | Stjörnumyndunarsvæði |
Stjörnulengd: |
10klst 45mín 8,5s |
Stjörnubreidd: |
-59° 52′ 04" |
Fjarlægð: |
7.500 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+1,0 |
Stjörnumerki: | Kjölurinn |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 3372, ESO 128-EN013 |
Franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille uppgötvaði þokuna árið 1751 þegar hann var við stjörnuathuganir frá Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku. Þokan er fjórum sinnum stærri og þónokkuð bjartari en Sverðþokan í Óríon á himinhvolfinu.
Kjalarþokan er mjög öflugt stjörnumyndunarsvæði sem hefur getið af sér fjölda stjarna, bæði stakra og í þyrpingum. Þokan er mótuð af stjörnuvindum og útfjólublárri geislun frá risastjörnum sem í henni eru. Þessi stóra þoka geymir meira en tug skærra stjarna sem taldar eru að minnsta kosti 50 til 100 sinnum massameiri en sólin okkar.
Flugeldasýningin í Kjalarþokunni hófst fyrir um þremur milljónum ára þegar fyrst kviknaði á fyrstu kynslóð stjarna í miðju skýs úr köldu sameindavetni. Sólin okkar og sólkerfið gætu hafa myndast innan í samskonar óveðursskýi fyrir um 4,6 milljörðum ára. Þegar við horfum á Kjalarþokuna sjáum við stjörnumyndun eins og hún gerist einna mest meðfram þéttum þyrilörmum vetrarbrauta.
Enski stjörnufræðingurinn John Herschel gaf einum hluta Kjalarþokunnar nafnið Skráargatsþokan. Hún er mun smærra og dekkra ský úr kaldara sameindagasi og ryki.
Eta Carinae
Risastjarnan Eta Carinae í stjörnumerkinu Kilinum. Stjarnan sjálf er í miðjunni en þokan í kring varð til á 19. öld. (Sjá nánar hér) Mynd: NASA/ESA-Hubble |
Risastjarnan Eta Carinae er innan í Kjalarþokunni. Hún er mjög bjartur reginrisi, um 100 til 150 sinnum massameiri en sólina og fjórum milljón sinnum bjartari.
Eta Carinae er á lokastigum stuttrar ævi sinnar og er mjög óstöðug þess vegna. Árið 1841 varð í henni hviða sem gerði hana að næst björtustu stjörnu himins í nokkur ár. Þá þeytti stjarnan frá sér miklu gasi og ryki og myndaði þoku sem kölluð er Litli maðurinn (e. Homunculus Nebula). Þokan er eins og hneta í laginu og sést vel í gegnum litla stjörnusjónauka frá jörðinni.
Talið er að Eta Carinae hafi förunaut sem hringsólar um hana á rúmu fimm og hálfu ári. Báðar gefa stjörnurnar frá sér sterka vinda sem rekast saman og mynda ýmis áhugaverð mynstur í þokunni.
Við hviðuna árið 1841 framleiddi hún álíka mikið ljós og sprengistjarna en sprakk þó ekki.
Aðeins tímaspursmál er hvenær Eta Carinae springur.
Myndasafn
Kjalarþokan á mynd VLT Survey TelescopeVLT Survey Telescope í Paranal stjörnustöð ESO hefur tekið glæsilega nýja ljósmynd af stjörnumyndunarsvæðinu Kjalarþokunni. Myndin var tekin með hjálp Sebastián Piñera, forseti Chile, á meðan heimsókn hans í stjörnustöðina stóð yfir þann 5. júní 2012 og var hún birt í tilefni af vígslu nýja sjónaukans í Napólí þann 6. desember 2012. Mynd; ESO. Þakkir: VPHAS+ Consortium/Cambridge Astronomical Survey Unit |
||
Innrauð ljósmynd af Kjalarþokunni
|
||
Kjalarþokan í sýnilegu og innrauðu ljósi (samanburður)
|
||
Dulafjall í KjalarþokunniÞessi mynd af Dulafjalli (e. Mystic Mountain) í Kjalarþokunni sýnir þau fallegu en sérkennilegu form sem gas- og rykský taka á sig í stjörnumyndunarsvæðum vetrarbrautarinnar. Í tindi hæsta stólpsins á myndinni, sem er þrjú ljósár á hæð, er nýmynduð stjarna. Frá henni skaga gasstrókar tveir út hvor í sína áttina; greinileg merki um að í kringum stjörnuna er gas- og rykskífa sem stjarnan er smám saman að sanka að sér. Innan í skýinu er fjöldi annarra ungra og nýmyndaðra stjarna sem geisla frá sér orkuríku ljósi og mótar skýið með veðrunarmætti sínum. Sjá hér. Mynd: NASA/ESA |
||
Ljós og skuggar í KjalarþokunniÞessi mynd sýnir hluta af Skráargatsþokunni í Kjalarþokunni. Skráargatið er sporöskjulaga svæðið sem nær yfir stærstan hluta þessarar myndar og er um 7 ljósár á breidd. Á myndinni sjást einnig smærri stólpar og hnoðrar sem allt eru staðir virkar stjörnumyndunar. Mynd: NASA/ESA |
||
Kjalarþokan snýr afturÞessi mynd lítur út fyrir að vera glæsilegt abstrakt listaverk eftir færan listmálara en er í raun ljósmynd Hubblessjónauka NASA og ESA af litlu svæði í Kjalarþokunni. Hluti þokunnar var á 20 ára afmælismynd Hubbles en á þessari mynd sést furðulegt landslag hennar enn betur. Sjá mynd vikunnar 4. júlí 2011. Mynd: NASA/ESA-Hubble |
||
Kjalarþokan með auga HerschelsHér sést Kjalarþokan á mynd sem Herschel geimsjónauki ESA tók í innrauðu ljósi. Mynd: ESA/PACS/SPIRE/Thomas Preibisch, Universitäts-Sternwarte München, Ludwig-Maximilians-Universität München, Germany. |