Mynd vikunnar
Fyrirsagnalisti

Innrauð Sverðþoka
20. mars
Sverðþokan í Óríon (M42) er ein allra glæsilegasta geimþoka sem hægt er að skoða í gegnum litla stjörnusjónauka frá Íslandi. Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók nýverið nýja mynd af henni í sýnilegu og nær-innrauðu ljósi en með því er hægt að skyggnast inn í þokuna á svæði sem annars eru ógegnsæ. Með myndinni voru stjörnufræðingar að leita að brúnum dvergum og reikistjörnum á flandri. Að auki fannst stjarna sem er að þjóta úr þokunni á 200.000 km hraða á klukkustund.
Mynd: NASA, ESA/Hubble

Furðutunglið Pan
13. mars
Hér sést Pan, eitt örsmárra tungla Satúrnusar, á mynd sem Cassini geimfar NASA tók 7. mars 2017 úr tæplega 25.000 km hæð. Aldrei áður hafa smáatriði sést betur á þessu sérkennilega tungli sem minnir um margt á fljúgandi furðuhlut. Pan er aðeins 14 km á breidd og hringsólar um Satúrnus í Encke-bilinu í hringunum.
Mynd: NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Híbýli risastjörnu
6. mars
Hér sést stjörnuþyrpingin Westerlund 1 sem er í um 15.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Í henni er ein stærsta stjörnum sem fundist hefur, kölluð Westerlund 1-26. Hún er rauður ofurrisi, um 1500 sinnum breiðari en sólin okkar og næði því út fyrir braut Júpíters, væri hún í miðju sólkerfisins okkar. Þyrpingin er ung, aðeins um 3 milljóna ára gömul.
Mynd: ESA/Hubble & NASA

Blönduð vetrarbraut
27. febrúar
Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók þessa mynd af vetrarbrautinni UGC 12591. Hún er óvenjuleg blanda linsulaga vetrarbrautar og þyrilvetrarbrautar í um 400 milljón ljósára fjarlægð. UGC 12591 er gríðarlega massamikil eða fjórfalt efnismeiri en Vetrarbrautin okkar. Þess utan snýst hún miklu hraðar en við eða á 1,8 milljón km hraða á klukkustund!
Mynd: ESA/Hubble & NASA

Dymbilþokan
20. febrúar
Allar stjörnur deyja á endanum. Sumar springa en flestar deyja hægt og rólega með því að varpa frá sér ystu efnislögum sínum út í geiminn. Þannig fer fyrir sólinni okkar og þannig fór fyrir fyrrum stjörnunni sem hér sést. Þetta er Dymbilþokan eða Messier 27 í stjörnumerkinu Litlarefi. Hún er hringþoka, leifar stjörnu.
Mynd: Sævar Helgi Bragason

Juno sér suðurpól Júpíters
13. febrúar
Hinn 2. febrúar 2017 var Juno geimfar NASA í 102.100 km hæð yfir suðurpól Júpíters og tók þá þessa glæsilegu mynd. Á henni sjást einstök smáatriði í stormasömum og hrollköldum lofthjúpnum við suðurpól Júpíters. Stjörnuáhugamaðurinn Roman Tkachenko setti myndina saman úr gögnum frá JunoCam myndavél geimfarsins.
Mynd: NASA/JPL-Caltech/SwRI/MSSS/Roman Tkachenko
- Fyrri síða
- Næsta síða