APEX beinir sjónum sínum að dökkum skýjum í Nautinu

Stjörnumyndun á dimmustu svæðum himins

Sævar Helgi Bragason 14. feb. 2012 Fréttir

APEX sjónaukinn fylgist með nýfæddum stjörnum og þéttum gasskýjum á mörkum þess að mynda enn fleiri stjörnur á köldustu og dimmustu svæðum himins.

  • Barnard 211, Barnard 213, myndun stjarna, sameindaský, APEX

Á nýrri mynd APEX (Atacama Pathfinder Experiment) sjónaukans í Chile sést hlykkjótt tíu ljósára löng geimryksslæða. Í henni leynast nýfæddar stjörnur og þétt gasský sem eru á mörkum þess að falla saman og mynda enn fleiri stjörnur. Þetta er eitt nálægasta stjörnumyndunarsvæðið við jörðu. Svo kaldar eru agnir geimryksins að gera þarf mælingar á bylgjulengdum í kringum einn millímetra, eins og þessar sem gerðar voru með LABOCA myndavélinni á APEX, til að greina daufan bjarma þeirra.

Sameindaskýið í Nautinu er í um 450 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Á myndinni sjást tveir hlutar langrar slæðu í þessu skýi sem nefnast Barnard 211 og Barnard 213. Rekja má nöfnin til skráar sem stjörnufræðingurinn Edward Emerson Barnard tók saman af „dökkum svæðum á himninum“ snemma á 20. öld. Í sýnilegu ljósi eru slæðurnar dökkar og dimmar og án stjarna en Barnard dró réttilega þá ályktun að um væri að ræða þétt efnisský í geimnum sem byrgðu okkur sýn.

Í dag vitum við að skýin eru úr miðgeimsgasi og rykögnum. Rykagnirnar eru á stærð við sót eða sand og gleypa sýnilegt ljós svo ekki sést í neinar stjörnur á bakvið. Sameindaskýið í Nautinu er óvenju dimmt því í nágrenninu eru engar stórar stjörnur til að lýsa hluta þess upp eins og sjá má í öðrum sameindaskýjum, til dæmis í Óríon (sjá eso1103). Rykagnirnar gefa sjálfar frá sér daufa varmageislun en þar sem þau eru nístingsköld, í kringum -260 gráður á Celsíus, er aðeins hægt að mæla hana á lengri bylgjulengdum en sýnilegs ljóss eða í kringum einn millímetra (sjá mynd eso1209b og samanburðinn á mynd eso1209ea en þar sést að á millímetrasviðinu virðist slæðan björt en dökk og dimm í sýnilegu ljósi).

Þessi gas- og rykský eru aldeilis ekki bara Þrándur í Götu stjörnufræðinga sem vilja kanna stjörnurnar á bakvið, heldur eru þau fæðingarstaðir nýrra stjarna. Skýin hlaupa í kekki þegar þau falla saman undan eigin þyngdarkrafti. Í kekkjunum geta þéttir kjarnar myndast og þegar vetnisgasið þjappast enn meira saman hækkar hitinn þar til kjarnasamruni hefst: Ný stjarna er fædd. Við fæðingu er stjarnan umlukin skel úr þéttu ryki sem kemur í veg fyrir að sýnilegt ljós berist út. Þess vegna er nauðsynlegt að gera mælingar á lengri bylgjulengdum eins og millímetrasviðinu ef við ætlum að auka skilning okkar á fyrstu stigum stjörnumyndunar.

Efri hluti slæðunnar hægra megin nefnist Barnard 211 en sá neðri vinstra megin Barnard 213. Myndir LABOCA myndavélarinnar á APEX sjónaukanum sýna varmageislun geimryksins (í appelsínugulum lit) sem hefur verið varpað ofan á ljósmynd af svæðinu í sýnilegu ljósi en á henni sjást stjörnur í bakgrunni. Bjarta stjarnan fyrir ofan slæðuna er fí Tauri en sú sem sést aðeins að hluta lengst til vinstri er HD 27482. Báðar eru nær okkur en slæðan og tengjast henni ekki á nokkurn hátt.

Myndirnar sýna að Barnard 213 hefur þegar hlaupið í kekki og myndað þétta kjarna. Þetta sést best á ljósu kekkjunum í glóandi rykinu en þar hafa stjörnur þegar myndast. Barnard 211 er hins vegar á fyrri stigum sinnar þróunar; þyngdarhrunið og kekkjamyndunin stendur yfir og mun leiða til myndunar nýrra stjarna í framtíðinni. Svæðið er þar af leiðandi kjörinn vettvangur stjörnufræðinga sem rannsaka hlutverk dökku svæða Barnards á himninum í lífsferlum stjarna.

Mælingarnar gerðu Álvaro Hacar (Observatorio Astronómico Nacional-IGN í Madríd á Spáni) og samstarfsmenn hans. LABOCA myndavélin er á hinum 12 metra breiða APEX sjónauka á Chajnantor sléttunni í Andesfjöllum Chile, í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli. APEX er undanfari Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), næstu kynslóðar hálfsmillímetrasjónauka sem verið er að smíða og starfrækja á sömu hásléttu.

Frekari upplýsingar

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans.

Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) er alþjóðleg stjörnustöð og samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1209.

Tengdar myndir

  • Barnard 211, Barnard 213, myndun stjarna, sameindaský, APEXMynd APEX sjónaukans af hlykkjótri tíu ljósára langri geimryksslæðu í Sameindaskýinu í Nautinu. Í henni leynast nýfæddar stjörnur og þétt gasský sem eru á mörkum þess að falla saman og mynda enn fleiri stjörnur. Svo kaldar eru agnir geimryksins að gera þarf mælingar á bylgjulengdum í kringum einn millímetra, eins og þessar sem gerðar voru með LABOCA myndavélinni á APEX, til að greina daufan bjarma þeirra. Á myndinni eru tvö svæði í skýinu: Efri slæðan er Barnard 211 en neðri slæðan Barnard 213. Mælingar APEX hafa verið lagðar ofan á ljósmynd í sýnilegu ljósi af svæðinu. Bjarta stjarnan fyrir ofan slæðuna er fí í Nautinu. Mynd: ESO/APEX (MPIfR/ESO/OSO)/A. Hacar et al./Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin.
  • Barnard 211, Barnard 213, myndun stjarna, sameindaský, APEXTvær myndir af sama hluta af Sameindaskýinu í Nautinu. Mælingar LABOCA myndavélarinnar á APEX sjónaukanum eru appelsínugular og sýna ljós með bylgjulengd í kringum einn millímetra. Myndin vinstra megin sýnir svæðið í sýnilegu ljósi. Mynd: ESO/APEX (MPIfR/ESO/OSO)/A. Hacar et al./Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin.
  • Barnard 211, Barnard 213, myndun stjarna, sameindaský, APEXVíðmynd af Sameindaskýinu í Nautinu sem er í um 450 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Skýið er tiltölulega nálægt okkur og er því kjörið til að rannsaka myndun stjarna. Mynd: Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin