Bleikleitur kjarni Omegaþokunnar

Sævar Helgi Bragason 01. jan. 2012 Fréttir

Ný mynd af Omegaþokunni sem tekin var með VLT sjónauka ESO er ein sú skarpasta sem náðst hefur af henni frá jörðinni.

  • eso1201a

Ný mynd af Omegaþokunni, sem tekin var með Very Large Telescope (VLT) ESO, er ein sú skarpasta sem náðst hefur af henni frá jörðinni. Á henni sést rykug, rósbleik miðja þessa fræga stjörnumyndunarsvæðis og ótrúleg smáatriði í þessu landslagi gass, geimryks og nýmyndaðra stjarna. 

Litríka gasið og rykið í Omegaþokunnu er hráefnið í næstu kynslóðir stjarna. Á þessu tiltekna svæði eru nýjustu stjörnurnar bláhvítar og skærar og lýsa þokuna upp. Bleikleitu rykslæðurnar birtast okkur sem skuggamyndir yfir glóandi gasinu. Rauðleitu bjarmana má rekja til vetnisgass í þokunni sem glóir fyrir tilverknað útfjólublárrar geislunar frá ungu, heitu stjörnunum.

Omegaþokan ber mörg heiti, allt eftir því hver gerði athuganirnar og hvað sá eða sú taldi sig sjá. Svansþokan, Skeifuþokan og Humarþokan er allt nöfn á Omegaþokunni. Þokan ber einnig skráarheitin Messier 17 (M17) og NGC 6618. Hún er í 6.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Bogmanninum. Þokan er vinsælt viðfangsefni stjörnufræðinga enda er um að ræða eitt yngsta og virkasta myndunarsvæði massamikilla stjarna í Vetrarbrautinni.

Myndin var tekin með FORS (FOcal Reducer and Spectrograph) mælitækinu á Antu, einum af VLT risasjónaukunum fjórum. Þegar myndin var tekin var lofthjúpurinn mjög stöðugur, jafnvel þótt nokkur ský væru á himni, og er myndin þess vegna mjög skörp.[1]. Myndin er því ein sú allra skarpasta sem tekin hefur verið af þessu svæði í Omegaþokunni frá jörðinni.

Myndin sem hér sést er ein sú fyrsta sem búin er til í Cosmic Gems verkefni ESO [2].

Skýringar

[1] Stjörnufræðingar nota hugtakið „stjörnuskyggni“ til þess að lýsa þeim áhrifum sem lofthjúpur jarðar hefur á stjörnuathuganir. Þá nótt sem þessi mynd var tekin, var skyggni gott. Algengt er að stjörnuskyggnið sé metið á hornstærð stjörnu séð í gegnum sjónauka. Í þessu tilviki mældist stjörnuskyggnið 0,45 bogasekúndur. Það þýðir að aðstæður voru góðar og fyrirbærið skýrt og skarpt.

[2] ESO Cosmic Gems verkefnið er nýtt framtak snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1201.

Krakkavæn útgáfa