Fréttasafn
  • Stjörnumyndunarsvæði í Kjalarþokunni

Hubble fagnar tuttugu ára afmæli

23. apr. 2010 Fréttir

Þann 24. apríl 1990 hóf geimferjan Discovery sig á loft frá Canaveralhöfða í Flórída. Um borð í geimferjunni var Hubblessjónaukinn. Það sem eftir fylgdi er saga stórfenglegra uppgötvuna sjónauka sem hefur bylt sýn okkar á alheiminn. Í tilefni tuttugu ára afmælis geimsjónaukans birtu NASA og ESA þessa gullfallegu ljósmynd af stjörnumyndunarsvæði í Kjalarþokunni.

Hubble hefur einstaklega skarpa sýn á alheiminn þar sem hann svífur um jörðina í  næstum 600 km hæð, langt handan við þokukenndan lofthjúpinn. Þessi staðsetning gerir honum kleyft að sjá alheiminn betur en allir stjörnusjónaukar á jörðu niðri, jafnvel þótt hann sé talsvert minni en risasjónaukar dagsins í dag.

Þessi afmælismynd sýnir þau fallegu en sérkennilegu form sem gas- og rykský taka á sig í stjörnumyndunarsvæðum Vetrarbrautarinnar. Í tindi hæsta stólpsins á myndinni, sem er þrjú ljósár á hæð, er nýmynduð stjarna. Frá henni skaga gasstrókar tveir út hvor í sína áttina; greinileg merki um að í kringum stjörnuna er gas- og rykskífa sem stjarnan er smám saman að sanka að sér. Innan í skýinu er fjöldi annarra ungra og nýmyndaðra stjarna sem geisla frá sér orkuríku ljósi og mótar skýið með veðrunarmætti sínum. 

Mynd Hubbles var tekin 1.-2. febrúar 2010. Litirnir á myndinni svara til þess ljóss sem súrefni (blátt), vetni og nitur (grænt) og brennisteinn (rautt) gefa frá sér.

Hubblesjónaukinn skipar veglegan sess í huga stjörnufræðinga og áhugamanna um himingeiminn. Hann hefur gert stjörnufræðingum kleyft að rannsaka fjölmargt sem ekki hefur verið mögulegt að skoða í öðrum sjónaukum. Mikilvægi Hubblesjónaukans liggur ekki síður í því hvað hann hefur auðveldað kynningu á stjörnufræði. Myndir frá honum af geimþokum, fjarlægum vetrarbrautum, hnöttum sólkerfisins og alls konar fyrirbærum hafa átt mikinn þátt í stórauknum áhuga almennings á himingeimnum.

Hingað til hefur Hubble beint sjónnum sínum að meira en 30.000 fyrirbærum í geimnum og safnað meira en hálfri milljón mynda. Í maí 2009 heimsóttu geimfarar sjónaukann í hinsta sinn og gerðu hann þá 100 sinnum öflugri en þegar honum var skotið á loft fyrir tuttugu árum.