Fréttasafn
  • NGC 2014, NGC 2020, Stóra Magellansskýið

Hubble geimsjónaukinn fagnar 30 ára afmæli með mynd af stjörnum að fæðast

Litadýrð NGC 2014 og NGC 2020 í Stóra Magellansskýinu

23. apr. 2020 Fréttir

Í tilefni af 30 ára afmæli Hubblessjónaukans í geimnum hafa vísindamenn birt nýja og glæsilega mynd af litríkum risafæðingastað stjarna í Stóra Magellansskýinu.

Hubble geimsjónauki NASA og ESA var skotið á loft 24. apríl árið 1990 og fagnar því þrítugsafmælinu í ár. Hægt er að lesa ítarlega grein um sögu hans hér .

Í tilefni dagsins birtu vísindamenn nýja mynd af NGC 2014 og NGC 2020. geimþokum sem tilheyra risavöxnu stjörnumyndunarsvæði í Stóra Magellansskýinu.

Stóra Magellansskýið er önnur stærsta fylgivetrarbraut Vetrarbrautarinnar í um 163.000 ljósára fjarlægð frá okkur. Myndin er kölluð „Geimkórallinn“ vegna þess að hún minnir á kóralrif á Jörðinni.

Bláleita þokan er NGC 2020. Í miðju hennar er risastjarna, af Wolf-Rayet gerð, um 200.000 sinnum skærari en sólin og er fimmtán sinnum efnismeiri en hún. Slíkar stjörnur gefa frá sér gífurlega öfluga vinda sem hafa hreinsað næsta nágrenni og búið til eyðuna sem þar sést. Bláa litinn má rekja til 11 þúsund gráðu heits súrefnisgass.

Rauðleita skýið er NGC 2014. Það er hópur stórra stjarna sem gefa frá sér orkuríkt útfjólublátt ljós sem örvar vetnisgasið í kring svo það verður rauðglóandi. Þær gefa líka frá sér öfluga stjörnuvinda sem móta umhverfið.