Ekkert fullt tungl í febrúar 2018
Í ár — 2018 — er ekkert fullt tungl í febrúarmánuði. Það gerist um það bil fjórum sinnum á öld að meðaltali. Seinast gerðist þetta árið 1999 og næst árið 2037.
Ástæðan fyrir þessu er sú að tunglmánuðurinn — tíminn milli tveggja fullra tungla — er 29,5 dagar. Fyrst tunglið var fullt 31. janúar síðastliðinn og febrúarmánuður telur aðeins 28 daga í ár, verður tunglið aldrei fullt í mánuðinum.
Mun sjaldgæfara er að hlaupársfebrúar, með sína 29 daga, hafi ekkert fullt tungl. Það gerðist seinast árið 1608 og gerist ekki aftur fyrr en árið 2572.
Á 21. öld verða engin full tungl í febrúarmánuði árin 2018, 2037, 2067 og 2094. Hlaupárið 2048 verður tunglið fullt á hlaupársdag. 29. febrúar.
Skemmtilegast er að skoða tunglið þegar það er vaxandi eða dvínandi. Tunglið er nýtt 15. febrúar svo síðustu tvær vikur mánaðarins er um að gera að beina sjónum sínum að vaxandi tungli á kvöldhimninum.