Tempruð bergreikistjarna í næsta nágrenni
Hópur evrópskra stjörnufræðinga sem notaði HARPS mælitækið á 3,6 metra sjónauka ESO í Chile hafa fundið reikistjörnur á stærð við Jörðina í kringum rauðu dvergstjörnuna Ross 128.
Reikistjarnan kallast Ross 128 b og gengur hún um móðurstjörnuna sína á tæplega 10 dögum. Þótt reikistjarnan sé tuttugu sinnum nær henni en Jörðin frá sólinni er yfirborðshitastig hennar á bilinu -60 til 20°C. Ross 128 b er því líklega lífvænleg.
Móðurstjarnan er rauður dvergur — daufasta, kaldasta en um leið algengasta gerð stjarna í alheiminum — í tæplega 11 ljósára fjarlægð frá sólkerfinu okkar í stjörnumerkinu Meyjunni . Stjarnan er næstum helmingi kaldari en sólin okkar (um 3000°C) en svo lítil og dauf að hún sést ekki nema með stórum sjónaukum.
Uppgötvunin er afar áhugaverð vegna þess að Ross 128 er rólegur rauður dvergur. Rauðir dvergar eru þekktir fyrir öfluga stjörnublossa sem baða nálægar reikistjörnur í orkuríkri geislun sem gæti bæði nánast sótthreinsað yfirborð og feykt lofthjúpum þeirra út í geiminn. Þess vegna gæti til dæmis TRAPPIST-1 verið skeinuhætt lífi í sínu sólkerfi.
Ross 128 stefnir í átt að sólkerfinu okkar og verður eftir um 71.000 ár nálægasta stjarnan við sólkerfið okkar, þá um það bil 6 ljósár í burtu frá okkur. Á sama tíma mun Proxima Centauri , sem nú er nálægasta stjarnan, hafa fjarlægst okkur.
Nánar er sagt frá þessu á vef ESO sem er á íslensku.
Lærðu meira
Bókin Geimverur – Leitin að lífi í geimnum fjallar um eina stærstu spurningu vísindanna: Erum við ein í alheiminum eða er líf á öðrum hnöttum? Hvers vegna höfum við ekki enn sannað tilvist geimvera? Hafa þær kannski nú þegar heimsótt jaðarbúa? Hvernig gætu geimverur litið út? Höfum við reynt að senda skilaboð til þeirra?
Í bókinni er sagt frá plánetum og tunglum í sólkerfinu okkar þar sem líf gæti hugsanlega leynst eða þrifist og þeirri miklu byltingu sem orðið hefur á undanförnum árum eftir að lífvænlegar fjarreikistjörnur komu í leitirnar. Við færumst sífellt nær því að finna svörin við stóru spurningunum.
Bókin fæst í öllum bókaverslunum.