Fréttasafn
  • Kórónuregn á sólinni

Sólblossar valda kórónuregni

1. júl. 2014 Fréttir

Um árabil hefur kórónuregn — rafgasrigning á sólinni — valdið stjörnufræðingum miklum heilabrotum. Nýjar upplýsingar frá gervitunglum og sjónaukum á Jörðinni sýna að kórónuregn fylgir í kjölfar sólblossa og að úrkoma á sólinni á sér ýmsar hliðstæður við veður á Jörðinni.

Á sólinni er stundum leiðinlegt veður, rétt eins og á Jörðinni, með öflugum vindum og úrhellisrigningu. Ólíkt rigningunni sem við upplifum hér á Íslandi eru regndroparnir á sólinni ekki úr vatni heldur rafhlöðnu gasi — rafgasi eða plasma — sem fellur niður á yfirborðið úr kórónunni, ytri hluta lofthjúps sólar, á um 200.000 km hraða á klukkustund. Á þeim hraða kæmist maður til tunglsins á rétt undir tveimur klukkustundum. Hver „dropi“ í kórónuregninu er á stærð við Ísland.

Kórónuregn uppgötvaðist fyrir næstum fjörutíu árum en vísindamenn hafa hingað til ekki getað útskýrt myndun þeirra. Í dag er hins vegar hægt að rannsaka hraglandann á sólinni í smáatriðum, þökk sé gervitunglum á borð við Solar Dynamics Observatory og sjónaukum á jörðinni eins og sænska 1 metra sólarsjónaukanum á La Palma, einni Kanaríeyja.

Gögn frá þessum sjónaukum hafa gert sólareðlisfræðingum, undir forystu Dr. Eamon Scullion við Trinity College í Dublin, kleift að útskýra uppruna „steypiregnið“ í lofthjúpi sólar.

Í ljós kom, nokkuð óvænt, að kórónuregn á sólinni myndast á svipaðan hátt og úrkoma á Jörðinni, með uppgufun og þéttingu. Við réttar aðstæður í lofthjúpi sólar geta ský úr heitu og þéttu rafgasi kólnað, þést og fallið til yfirborðsins sem í miklu steypiregni. Hliðstæðan við jarðneskt veður kom vísindamönnunum mjög á óvart.

Myndir sýna að kórónuregnið fylgir í kjölfar sólblossa, öflugustu sprenginga í sólkerfinu. Sólblossar valda hraðri uppgufun á rafgasi og myndar þannig regnskýin í kórónunni. Skýin kólna hratt svo efnið þéttist og myndar regndropa. Sólblossar eru einnig taldir hjálpa til við að hita upp kórónuna (uppruni kórónuhitunar er ein helsta ráðgátan í sólareðlisfræði).

Myndskeiðið hér undir sýnir einstaklega tignarlegt kórónuregn á sólinni sem fylgdi í kjölfar sólblossa þann 19. júlí 2012.

Myndskeiðið hér undir var sett saman úr myndum sem teknar voru með sænska sólarsjónaukanum yfir 1 klukkustundar og 10 mínútna tímabil. Á því sést kórónuregn. Svæðið á myndinni er 16.000 x 20.000 km, nokkru stærra en Jörðin. Myndskeið: E. Scullion/SST

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslamds
Reykjavík, Ísland
Farsími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þessi frétt er byggð á fréttatilkynningu frá Royal Astronomical Society

Tengdar myndir

  • sólin, kórónuregnSamsett mynd sem tekin var með sænska sólarsjónaukanum á La Palma og sýnir stærðarinnar kórónuregn sem fellur á sólblett. Jörðin sýnd til stærðarsamanburðar. Mynd: E. Scullion/SST

Krakkavæn útgáfa