Vorjafndægur kl. 03:50 aðfaranótt 20. mars 2020
Nokkrar fróðlegar staðreyndir um vorjafndægur
Klukkan 03:50 aðfaranótt föstudagsins 20. mars 2020 verða vorjafndægur á norðurhveli Jarðar og haustjafndægur á suðurhveli. Á norðurhveli hefst vor en haust á suðurhvelinu þegar sólin færist norður yfir miðbaug himins. Á sumarsólstöðum verður sólin svo lengst frá miðbaug himins og byrjar eftir það að lækka aftur á lofti.
1. Dagur og nótt ekki alveg jafn löng
Á vorjafndægrum eru dagur og nótt ekki alveg jafnlöng. Við njótum örlítið meiri dagsbirtu en myrkurs, mörgum sennilega til mikillar ánægju.
Í almanökum er sólin skilgreind sem punktur, þótt hún sé skífa. Tímasetning sólarupprása og sólsetra er þar af leiðandi gefin upp sem sá tími þegar miðja sólskífunnar skríður yfir sjóndeildarhringinn en ekki þegar efri brún hennar birtist okkur fyrst eða sú neðri hverfur sjónum okkar. Þetta verður til þess að fjölga birtumínútum örlítið við sólarupprás og sólsetur.
Lofthjúpur Jarðar verkar auk þess eins og linsa sem lyftir sólinni upp um hálfa gráðu eða eitt sólarþvermál á himninum. Fyrir vikið flýtir ljósbrot lofthjúpsins sólarupprásinni um fáeinar mínútur og seinkar sólsetrinu sömuleiðis. Þess vegna er sólin í raun sest skömmu áður en við sjáum hana hverfa undir sjóndeildarhringinn.
Af þessum tveimur ástæðum eru dagur og nótt ekki nákvæmleg jafn löng á jafndægrum.
2. Á jafndægrum rís sólin í austri og sest í vestri
Flestum er kennt að sólin rísi í austri og setjist í vestri en það er ekki alltaf alveg rétt. Jafndægur eru einu tveir dagar ársins þar sem sólin rís nákvæmlega í austri og sest nákvæmlega í vestri.
Restina af árinu flakkar sólin yfir himininn svo á vetrarsólstöðum rís hún í suðaustri en í norðaustri á sumarsólstöðum.
Jafndægur eru einnig einu tveir dagar ársins þegar sólin beint fyrir ofan miðbaug Jarðar.
3. Vorpunkturinn færist
Á vorjafndægrum sker sólin bæði miðbaug himins og sólbauginn (brautarflöt Jarðar um sólina). Skurðpunkturinn kallast vorpunktur og er í dag í stjörnumerkinu Fiskunum. Fyrir rúmum 2000 árum var vorpunkturinn í hrútsmerkinu og kalla stjörnuspekingar þess vegna vorpunktinn hrútspunktinn.
Vegna pólveltu eða möndulveltu Jarðar færist vorpunkturinn um eina gráðu í vesturátt á hverjum 72 árum. Það þýðir að dagsetningar sólar innan stjörnumerkja dýrahringsins hafa breyst og halda áfram að breytast. Sólin fer heilan hring um himinninn á þennan hátt á tæplega 26.000 árum.
4. Norðurljós eru tíðari í kringum jafndægur
Mælingar hafa sýnt að norðurljós eru að meðaltali tvöfalt algengari í kringum jafndægur en sólstöður. Mestar líkur eru á að norðurljós sjáist í mars/apríl og september/október.
Enginn veit í raun hvers vegna norðurljós eru tíðari um jafndægur en líklega hefur það eitthvað að gera með möndulhalla Jarðar miðað við sólina á þessum tíma.
5. Fullt tungl og vorjafndægur stýra dagsetningu páska
Páskasunnudag ber alltaf upp fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl eftir vorjafndægur.
Í ár var síðasta fulla tungl fyrir vorjafndægur hinn 9. mars. Næsta fulla tungl ber upp aðfaranótt miðvikudagsins 8. apríl (kl. 02:35). Sunnudagurinn þar á eftir, 12. apríl, er þar af leiðandi páskasunnudagur.
6. Gregoríus 13. páfi breytir dagsetningu vorjafndægra
Tímatalsregla tryggir að vorjafndægur ber upp 19.-21. mars ár hvert. Árið 1582 setti Gregoríus 13. páfi fram tímatalið sem stærstur hluti jarðarbúi fylgir og kennt er við hann. Það gerði hann til að leiðrétta skekkju sem komið hafði fram út af júlíanska tímatalinu.
Hefði Gregoríus ekki látið útbúa nýtt tímatal hefði vorjafndægur færst fram um einn dag á hverjum 128 árum. Að lokum hefðu páskar þá verið haldnir um miðjan vetur.
Ástæðan fyrir þessu er sú að eitt ár er ekki nákvæmlega 365 dagar heldur nær 365,24219 dögum. Júlíanska tímatalið gerði ráð fyrir að árið væri 365,25 dagar svo á fjögurra ára fresti var hlaupársdegi bætt við í lok febrúar.
Mismunurinn leiðir til umtalsverðar skekkju með tímanum sem kom þannig fram að árstíðirnar færðust til af almanakinu að dæma. Árið 1500 urðu vorjafndægur t.d. hinn 11. mars.
Til að leysa vandann fyrirskipaði páfinn að flest aldamótaár (eins og árin 1700 og 1900) væru ekki hlaupár, aðeins aldamótaár sem væru deilanleg með fjögurhundruð, eins og árið 2000.
Í gregoríanska tímatalinu er árið 365,2425 dagar og því aðeins 27 sekúndum lengri en lengd árstíðaársins. Út af þessum aukasekúndum þarf að bæta við degi á hverjum 3200 árum.