Hubble tekur hátíðlega mynd af stóru stjörnumyndunarsvæði

Sævar Helgi Bragason 15. des. 2009 Fréttir

Ný mynd frá Hubble geimsjónaukanum er sú nákvæmasta sem tekin hefur verið af stærsta stjörnumyndunarsvæðinu sem þekkt er í nágrenni Vetrarbrautarinnar.

  • 30 Dor, 30 Doradus, Tarantúluþokan, RMC 136

Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók þessa glæsilegu mynd af hundruð blárra stjarna innan um heitt, glóandi gasský. Þessi hátíðlega mynd er sú nákvæmasta sem tekin hefur verið af stærsta stjörnumyndunarsvæði sem vitað er um í nágrenni Vetrarbrautarinnar.

Þessi unga og massamikla stjörnuþyrping kallast RMC 136 eða R136 og er aðeins nokkurra milljóna ára gömul. Hana er að finna í 30 Doradus þokunni sem einnig er nefnd Tarantúluþokan í Stóra-Magellanskýinu, fylgivetrarbraut okkar. Ekki er vitað um neitt stjörnumyndunarsvæði í Vetrarbrautinni okkar sem er jafn stórt og virkt og 30 Doradus.

Margar þessara bláu stjarna sem hér sjást eru meðal massamestu stjarna sem þekkjast í alheiminum. Sumar þeirra eru meira en 100 sinnum massameiri en sólin okkar. Þessum þungavigtarstjörnum bíða nöturleg örlög því þær munu springa í tætlur eftir fáeinar milljónir ára.

Myndin var tekin í útfjólubláu, sýnilegu og innrauðu ljósi með Wide Field Camera 3 myndavélinni í Hubble geimsjónaukanum og þekur 100 ljósára breitt svæði. Þokan er nógu nálægt jörðinni til þess að Hubble geti greint stakar stjörnur sem veita stjörnufræðingum mikilvægar upplýsingar um myndun og þróun stjarnanna.

Skæru stjörnurnar mynda stór skörð í efnið í kring með öflugum stjörnuvindum (straumi hlaðinna agna) og orkuríku útbláu ljósi. Stjörnuvindurinn og útbláa ljósið blæs vetnisgasskýjunum sem stjörnurnar urðu til úr í burtu. Í leiðinni myndast ævintýralegt landslag stöpla, dala og dökkra svæða. Skæru stjörnurnar geta líka hjálpað til við að skapa önnur afkvæmi þokunnar á sama tíma og þær móta gasskýið. Þegar stjörnuvindurinn rekst á þétt gassvæði myndast höggbylgjur sem geta leitt af sér nýja hrinu stjörnumyndunar.

Hreyfing Stóra-Magellanskýsins umhverfis Vetrarbrautina gæti hafa hrundið af stað myndun þessarar massamiklu þyrpingar með ýmsum hætti. Þyngdartog Vetrarbrautarinnar og Stóra-Magellanskýsins gæti hafa þétt gas í fylgivetrarbrautinni. Einnig gæti þrýstingur sem rekja má til þess þegar Stóra-Magellanskýið plægði sig í gegnum hjúp Vetrarbrautarinnar hafa þétt gasið í fylgivetrarbrautinni. Þyrpingin er sjaldgæft en nálægt dæmi um þær fjölmörgu risastjörnuþyrpingar sem mynduðust snemma í sögu alheims, þegar stjörnumyndun og gagnverkun vetrarbrauta var tíðari. Eldri athuganir Hubble geimsjónaukans hafa sýnt stjörnufræðingum að risastjörnuþyrpingar í fjarlægum vetrarbrautum eru mjög algengar.

Stóra-Magellanskýið er í um 170.000 ljósára fjarlægð frá okkur. Það tilheyrir Grenndarhópnum, safni vetrarbrauta sem inniheldur líka Vetrarbrautina okkar.

Athuganir Hubbles vorðu gerðar milli 20.-27. október árið 2009. Bláa litinn má rekja til ljóss frá heitustu og massamestu stjörnunum; græna litinn til glóandi súrefnis og rauða litinn til rafaðs vetnis.

Skýringar

Hubble geimsjónaukinn er samstarfsverkefni NASA og ESA.

Mynd: NASA, ESA og F. Paresce (INAF-IASF, Bologna á Ítalíu), R. O'Connell (University of Virgina, Charlottesville) og Wide Field Camera 3 Science Oversight Committee.

Tenglar

Þetta er tilkynning frá Stjörnufræðivefnum stj0901

Tengdar myndir

  • 30 Dor, 30 Doradus, TarantúluþokanÁ þessari mynd sem tekin var með Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést þyrping nýmyndaðra stjarna í 30 Doradus eða Tarantúluþokunni (NGC 2070) í Stóra-Magellanskýinu. Þyrpingin nefnist RMC 136. Bláa litinn má rekja til ljóss frá heitustu og massamestu stjörnunum; græna litinn til glóandi súrefnis og rauða litinn til rafaðs vetnis.
  • 30 Dor, 30 Doradus, TarantúluþokanInnrauð ljósmynd Hubble geimsjónaukans af RMC 136 stjörnuþyrpingunni í 30 Doradus eða Tarantúluþokunni í Stóra-Magellanskýinu.