Átta ára ferðalag JUICE til Júpíters hafið

Sævar Helgi Bragason 16. apr. 2023 Fréttir

Jupiter Icy Moons Explorer er fyrsta evrópska könnunarfarið sem byrjar að kanna Júpíter og ístungl hans árið 2031

  • JUICE kannar Júpíter

Föstudaginn 14. apríl hófst átta ára ferðalag JUICE – Jupiter Icy Moons Explorer – gervitungls ESA, Geimvísindastofnunar Evrópu, til Júpíters. Tilgangurinn er að rannsaka reikistjörnuna sjálfa og dularfullu ístunglin Evrópu, Kallistó og Ganýmedes.

Juice_launch_pillars

Ariane 5 hefur sig á loft með JUICE innanborðs. Mynd: ESA/M. Pédoussaut

Geimskotinu var frestað um sólarhring vegna slæmra veðurskilyrða í Kourou, geimhöfn Evrópu í Frönsku-Gvæjönu í Suður Ameríku. Um seinasta geimskot Ariane 5 eldflaugar Evrópu var að ræða og tókst það eins og í sögu. Skömmu seinna birtust fyrstu sjálfsmyndir gervitunglsins þar sem það hafði opnað sólarrafhlöður sínar.

JUICE í geimnum

JUICE skömmu eftir geimskot. Mynd: ESA/Juice/JMC

JUICE er fyrsta evrópska gervitunglið sem heldur í rannsóknarleiðangur til Júpíters . Gervitunglið er stórt og þungt og því ekki hægt að senda það beinustu leið til þangað. Þess vegna verður JUICE að leggja lykkjur á leið sína og fljúga einnu sinni framhjá Jörðinni og tunglinu (ágúst 2024), einu sinni framhjá Venusi (ágúst 2025) tvisvar framhjá Jörðinni einni (september 2025 og janúar 2029) til að ná nægum hraða til að drífa alla leið til Júpíters. Ferðalagið tekur því átta ár.

Þegar til Júpíters er komið í júlí árið 2031 hefst rannsóknarleiðangurinn formlega. Með tíu mælitækjum á JUICE að rannsaka hvernig gasrisar eins og Júpíter urðu til, rannsaka veðrið í litríku og ólgandi andrúmslofti hans og finna út hvernig ógnarsterkt segulsviðið virkar.

Aðalviðfangsefnin eru þó stóru og merkilegu ístunglin þrjú : Evrópa, Kallistó og Ganýmedes. Öll eru þau íshnettir og hafa vísindamenn fundið út að undir ísskorpu þeirra séu höf úr fljótandi vatni. JUICE á að hjálpa okkur að finna út hvort svo sé í raun og veru og hvort þar gæti leynst líf.

Árið 2034 fer JUICE á sporbraut um Ganýmedes og verður þá fyrsta gervitunglið til að hringsóla um annað tungl en okkar eigið. Á næsta ári sendir NASA svo á loft annað gervitungl sem á að rannsaka Evrópu sérstaklega. Það er óhætt að segja að stjarnvísindafólk sé mjög spennt fyrir báðum leiðöngrum.