„Blár ofurmáni“ miðvikudaginn 31. janúar

Almyrkvi á tungli sýnilegur hinumegin á Jörðinni

Sævar Helgi Bragason 21. jan. 2018 Fréttir

Miðvikudaginn 31. janúar tunglið fullt í annað skipti á árinu 2018 og í annað sinn í janúarmánuði. Þegar tvö full tungl verða í einum og sama mánuði er seinna fulla tunglið kallað blátt tungl

  • Full tungl. Mynd: Sævar Helgi Bragson/Stjörnufræðivefurinn

Miðvikudaginn 31. janúar — kl. 13:27 að íslenskum tíma — verður tunglið fullt í annað skipti á árinu 2018 og í annað sinn í janúarmánuði. Þegar tvö full tungl verða í einum og sama mánuði er seinna fulla tunglið kallað blátt tungl, þótt liturinn sé ekkert öðruvísi en venjulega.

851x315_Saevar

Tunglmánuðurinn — tíminn milli fullra tungla — er 29,5 dagar svo fyrst febrúarmánuður hefur aðeins 28 daga verður ekkert fullt tungl í febrúar.

Fulla tunglið 31. janúar 2018 er nálægt því að vera næst Jörðu svo hér er líka um fullan „ofurmána“ að ræða. Enginn sjáanlegur munur er þó á þessu fulla tungli og fulla tunglinu sem varð aðfaranótt 2. janúar.

Fulla bláa tunglið 31. janúar er þó merkilegra fyrir þær sakir, að það gengur inn í skugga Jarðar og myrkvast að fullu — reyndar ekki frá Íslandi séð. Fullt tungl sést aðeins frá næturhlið Jarðar og fyrst tunglið er fullt á hádegi á íslenskum tíma sést tunglmyrkvinn aðeins hinumegin á Jörðinni.

Íslendingar sem staddir eru á vesturströnd Bandaríkjanna, Hawaii og í austurhluta Asíu og Ástralíu geta þó séð tunglmyrkvann.

Næst verður almyrkvi á tungli sýnilegur frá Íslandi aðfaranótt 21. janúar árið 2019. Næsti almyrkvi á bláu tungli verður 31. desember árið 2028. Sá myrkvi verður ennfremur á þrettánda fulla tungli þess árs og sést hann frá Íslandi.