Sjáðu deildarmyrkva á sólu 8. apríl 2024

Sævar Helgi Bragason 26. mar. 2024 Fréttir

Í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada sést almyrkvi, sá seinasti þar til 12. ágúst 2026 á Íslandi

  • Deildarmyrkvi 21. ágúst 2017. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Mánudaginn 8. apríl sést deildarmyrkvi á sólu frá Íslandi öllu, ef veður leyfir. Frá Reykjavík sést allur myrkvinn en frá Austurlandi sest sólin á meðan hann stendur yfir. Tunglið hylur um og yfir 40% af sólinni frá Íslandi séð en í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada verður almyrkvi. Til að sjá deildarmyrkvann þarf að nota hlífðarbúnað, til dæmis sólmyrkvagleraugu.

Í Reykjavík hefst sólmyrkvinn kl. 18:49:25 þegar sól er lágt á lofti í vestri. Myrkvinn er í hámarki kl. 19:39:59 en sólin er þá aðeins tæplega 6 gráður yfir sjóndeildarhring, svo lágt á lofti að gæta þarf þess að háar byggingar eða tré skyggi á. Deildarmyrkvanum lýkur rétt fyrir sólsetur kl. 20:28:35. Við hámark hylur tunglið á tæplega 47% sólar. 

Frá Egilsstöðum hefst deildarmyrkinn k. 18:50:16. Við hámark kl. 19:38:14 hylur tunglið tæp 42% sólar. Þá er sólin aðeins tæplega 3 gráður yfir sjóndeildarhring. Sólin sest svo kl. 20:12 áður en deildarmyrkvanum lýkur. Frá Austurlandi sést því deildarmyrkvað sólsetur en til að sjá það þarf að koma sér fyrir þar sem fjöll skyggja ekki á.

Til að sjá deildarmyrkvann þarf að nota sólmyrkvagleraugu.

Staður
Deildarmyrkvi hefst
Hámark
% sólar myrkvuð
Sólarhæð
Deildarmyrkva lýkur
Reykjavík18:49:25
19:39:59
47%

20:28:35
Ísafjörður
18:48:34
19:37:45
41%

20:25:22
Akureyri
18:49:31
19:38:01
41%

Sól sest áður en myrkva lýkur
Egilsstaðir
18:50:16
19:38:14
42%

Sól sest áður en myrkva lýkur
Höfn í Hornafirði
18:50:23
19:38:17
44%

Sól sest áður en myrkva lýkur

Almyrkvi í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada

Í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada sést almyrkvi sem hefst við sólarupprás í suðurhluta Kyrrahafsins kl. 16:40 að íslenskum tíma. 

Fyrstu 85 mínúturnar liggur almyrkvaslóðin aðeins yfir hafi, fjarri öllu byggðu bóli. Almyrkvinn nemur fyrst land í Mexíkó klukkan 18:05 en myrkvinn er mestur og lengstur þaðan kl. 18:17:20 og stendur yfir í 4m og 28s.

TSE2024_map_for_ST_tilted_Vector_GD_TD

Slóð almyrkvans 8. apríl 2024. Mynd: Sky & Telescope

Á almyrkvaslóðinni búa yfir fjörutíu milljónir manna og búist er við að margar milljónir í viðbót muni ferðast inn í slóðina sem er 185 km breið. 

Víða Í Texas, þar sem veðurútlitið er best, er búist við slíkum fjölda ferðafólks og umferðaröngþveiti að lýst hefur verið yfir neyðarástandi vegna þess. 

Íslendingar á ferðalagi um þessar slóðir ættu sannarlega að gjóa augunum til himins og verða vitni að þessu stórfenglega sjónarspili. Sjá má mun ítarlegri kort á GreatAmericanEclipse.com.

Ég verð staddur í Bandaríkjunum að elta almyrkvann. Hægt verður að fylgjast með því á Instagram @saevarhb og @icelandatnightis.

Næsti almyrkvi í ágúst 2026 á Íslandi

Næsti almyrkvinn eftir sólmyrkvann 8. apríl 2024 verður 12. ágúst 2026. Sá almyrkvi verður sjáanlegur frá vestasta hluta Íslands. Er það janframt fyrsti almyrkvinn sem sést frá Reykjavík síðan 17. júní árið 1433. 

Undirbúningur er þegar hafinn og verða opnaðir sérstakir vefir, eclipse2026.is og solmyrkvi2026.is þar sem finna má allar helstu upplýsingar um almyrkvann, kort, veður og fleira. 

Þangað til fáum við einn deildarmyrkva í viðbót, þann 29. mars árið 2025. Þá myrkvar tunglið yfir 70% af sólinni frá Íslandi séð.