Evklíð geimsjónaukinn opnar augun

Sævar Helgi Bragason 09. nóv. 2023 Fréttir

Stórfenglegar fyrstu innrauðu ljósmyndir evrópska geimsjónaukans Evklíðs sem rannsaka á hinn hulda alheim

Fyrstu myndirnar frá Evklíð geimsjónauka ESA hafa verið birtar og er óhætt að segja að þær séu stórglæsilegar. Aldrei áður hefur geimsjónauki tekið jafn skarpar myndir af jafn stórum svæðum á himninum í einu og á sama tíma horft svo djúpt út í alheiminn. 

Hamfarir - Vísindalæsi

Evklíð geimsjónaukanum var skotið á loft 1. júlí á þessu ári. Sjónaukinn á að rannsaka 95% alheimsins sem við vitum lítið sem ekkert um: Hulduefni sem heldur saman vetrarbrautum og vetrarbrautaþyrpingum og hulduorku sem virðist valda vaxandi útþensluhraða alheimsins. 

Næstu sex ár mun Evklíð kortleggja lögun, fjarlægð og hreyfingu milljarða vetrarbrauta í allt að 10 milljarða ljósára fjarlægð. Þannig verður útbúið stærsta þrívíða kortið af alheiminum til þessa.

Fyrstu myndirnar geyma ótrúleg smáatriði. Þær eru ekki bara fallegar, heldur innihalda líka ómetanlegar upplýsingar fyrir stjörnufræðinga að vinna úr og gera nýjar uppgötvanir á komandi misserum og árum. Myndirnar sýna hve vel sjónaukinn og mælitækin virka sem lofar góðu um eframhaldið.

Perseifs-vetrarbrautaþyrpingin

Euclid_s_view_of_the_Perseus_cluster_of_galaxies

Á myndinni sjást 1000 vetrarbrautir sem tilheyra Perseifsþyrpingunni, auk meira en 100.000 enn fjarlægari vetrarbrauta í bakgrunni. Sumar hverjar hafa aldrei sést áður og aðrar eru svo langt í burtu að ljósið frá þeim hefur verið 10 milljarða ára að berast til okkar.  Perseifsþyrpingin sjálf í forgrunni er „aðeins“ 240 milljón ljósár í burtu.

Þyrilvetrarbrautin IC 342

Euclid_s_view_of_spiral_galaxy_IC_342

Þyrilvetrarbrautin IC 342 er í aðeins 11 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Hún líkist nokkuð Vetrarbrautinni okkar.

Óreglulega vetrarbrautin NGC 6822

Euclid_s_view_of_irregular_galaxy_NGC_6822

NGC 6822 er óregluleg vetrarbraut í aðeins 1,6 milljón ljósára fjarlægð og tilheyrir því Grenndarhópnum.

Kúluþyrpingin NGC 6397

Euclid_s_view_of_globular_cluster_NGC_6397

Kúluþyrpingin NGC 6397 er sveimur gamalla stjarna. Hún er næst nálægasta kúluþyrpingin við Jörðina, um það bil 7800 ljósár í burtu.

Riddaraþokan

Euclid_s_view_of_the_Horsehead_Nebula

Riddaraþokan er stjörnumyndunarsvæði í Óríon í 1375 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Dökka Riddaraþokan sjálf er skuggaþoka.

Frétt frá ESA

Myndir: ESA / Euclid / Euclid Consortium / NASA, myndvinnsla J.-C. Cuillandre (CEA Paris-Saclay), G. Anselmi; CC BY-SA 3.0 IGO