Fyrstu nærmyndirnar af fjærhlið Deimosar

Sævar Helgi Bragason 24. apr. 2023 Fréttir

Hope gervitunglið gerir mælingar á Mars-tunglinu Deimosi

  • Deimos frá Hope

Hope gervitungl Sameinuðu arabísku furstadæmanna hefur náð fyrstu nærmyndunum af fjærhlið Mars-tunglsins Deimosar. Myndirnar styrkja þá tilgátu að Deimos sé brot af Mars eða hafi orðið úr sama efni reikistjarnan, en sé ekki smástirni eins og lengst af hefur verið talið.

Hope eða Emirates Mars Mission (EMM) sveif framhjá Deimosi hinn 10. mars síðastliðinn. Mars var þá í bakgrunni svo óhætt er að segja að myndirnar séu einstakar og glæsilegar.

Deimos er smærra af tveimur tunglum Mars. Það er ekki ósvipað Eyjafjallajökli að stærð. Möndulsnúningurinn er bundinn sem þýðir að Deimos snýr alltaf sömu hliðinni að Mars. Af þeim sökum höfðu þar til nú aðeins náðst myndir af nærhlið þessa litla tungls.

Hope gervitunglið er á mjög ílangri braut um Mars, öfugt við flesta aðra Mars-kanna. Mest nær það 40 þúsund km hæð yfir Mars og það gerir því kleift að sjá fjærhlið Deimosar.

D41586-023-01422-1_25274766

Þegar Hope sveif framhjá Deimosi voru teknar ljósmyndir og litrófsmælingar gerðar. Litrófið gefur okkur hugmynd um efnasamsetningu yfirborðsins og benda gögnin til þess að Deimos líkist miklu frekar Mars sjálfum en smástirnum í smástirnabeltinu.

Yfirborðið ber þess merki að vera úr eldfjallagrjótinu basalti. Það bendir til þess að Deimos hafi orðið til úr sama efni og Mars.

Hugsanlega gæti Deimos hafa orðið til með Mars í árdaga sólkerfisins eða sé hreinlega brot úr Mars sem hafi kastast út í geiminn eftir stærðarinnar árekstur. Hingað til hefur þótt líklegast að Deimos og Fóbos séu smástirni sem hafi hætt sér of nærri Mars og orðið föst á sporbraut um hann.

Hope var skotið á loft í júlí árið 2020 og fór á braut um Mars í febrúar 2021. Markmið leiðangursins var að rannsaka veðrið á og árstíðabundnar sveiflur í andrúmslofti Mars.

Þegar þeim hluta leiðangursins lauk formlega var ákveðið að breyta sporbrautinni svo Hope gæti flogið nokkrum sinnum framhjá Deimosi. Við eigum því von á fleiri myndum og gögnum síðar.

Deimos-2030x2048

Upprunaleg frétt frá Nature