Hubble sér hnullunga streyma frá Dímorfos

Sævar Helgi Bragason 23. júl. 2023 Fréttir

Á mynd Hubble geimsjónaukans sést hnullungasvermur í kringum smástirnið Dímorfos
  • Hnullungastraumur frá Dímorfos

Stjörnufræðingar sem notuðu Hubble geimsjónauka NASA og ESA hafa líklega komið auga á sverm hnullunga sem köstuðust burt af smástirninu Dímorfos í kjölfar þess að DART geimfar NASA skall á því í september 2022.

Ups_FB_cover

Hinn 26. september 2022 var DART gervitunglið vísvitandi látið rekast á smástirnið Dímorfos. Við áreksturinn þaut mikið magn af efni út í geiminn og breyttist sporbraut Dímorfosar um stærra smástirni, Dídýmos, nokkuð.

Um tilraun var að ræða svo kanna mætti hvort hægt væri í framtíðinni að bægja öðrum hættulegum smástirnum frá sem stefndu á Jörðina. Engin hætta var á því í þessu tilviki.

Stjörnufræðingar hafa reglulega beint ýmsum sjónaukum að smástirninu til að átta sig betur á afleiðingum árekstursins, þar á meðal Hubble geimsjónaukanum.

Í nýjum mælingum Hubbles sáust óvænt 37 hnullungar frá 1 metra upp í tæplega 7 metra að stærð. Svífa þeir burt frá smástirninu á um það bil 1 km hraða á klukkustund. Heildarmassinn er um 0,1% af massa Dímorfos. Hnullungarnir eru með daufustu fyrirbærum sem ljósmyndaðar hafa verið í sólkerfinu okkar.

Ekki er nákvæmlega vitað hvaðan hnullungarnir koma. Dímorfos er samlímd grjóthrúga sem þyngdarkrafturinn bindur saman af veikum mætti. 

Hnullungarnir gætu verið hluti af efninu sem kastaðist burt við áreksturinn en einnig er hugsanlegt að áreksturinn hafi virkað dálítið eins og hamar sem barið er í bjöllu og bylgjur frá árekstrinum borist í gegnum smástirnið, hrist upp í því og hnullungarnir þannig losnað frá.

Hnullungarnir eru áhugaverð viðbót við rannsóknir á afleiðingnum DART tilraunarinnar. Árið 2024 sendir Geimvísindastofnun Evrópu á loft Hera gervitunglinu sem á að fljúga framhjá tvíeykinu og rannsaka afleiðingar árekstursins, þar á meðal ákvarða stærð gígsins sem myndaðist. 

Frétt frá ESA

Mynd: NASA/ESA/D. Jewitt (UCLA)