Hubble skoðar vetrarbrautatvíeyki í tilefni 27 ára afmælisins

Sævar Helgi Bragason 20. apr. 2017 Fréttir

Ár hvert halda stjörnufræðingar upp á afmæli Hubble geimsjónauka NASA og ESA í geimnum. Í ár var sjónaukanum beint að tveimur þyrilvetrarbrautum

  • NGC 4302 og NGC 4298 í Bereníkuhaddi

Ár hvert halda stjörnufræðingar upp á afmæli Hubble geimsjónauka NASA og ESA í geimnum. Í ár var sjónaukanum beint að tveimur þyrilvetrarbrautum, NGC 4302 og NGC 4298, sem eru í um 55 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi.

Hubble geimsjónaukanum var skotið á loft hinn 24. apríl árið 1990 og hefur hann því verið 27 ár í geimnum. Sjónaukinn hefur bylt sýn okkar á alheiminn og tekið margar stórkostlegar ljósmyndir sem margar hverjar eru hreinustu listaverk.

Afmælismyndin 2017 er af þyrilvetrarbrautunum NGC 4302 og NGC 4298. William Herschel kom fyrstur manna auga á tvíeykið árið 1784 en það tilheyrir þyrpingu nærri 2000 vetrarbrauta sem kallast Meyjarþyrpingin.

NGC 4302 liggur á rönd og er örlítið minni en Vetrarbrautin okkar. NGC 4298 er enn smærri en lega hennar gerir það að verkum að hún virkar umfangsmeiri á myndinni.

Aðeins 7000 ljósár skilja á milli vetrarbrautanna. Þrátt fyrir það hefur engin augljós afmyndun átt sér stað í þeim vegna þyngdarkrafts sem verkar á milli þeirra.

Báðar stefna hraðbyri inn að miðju Meyjarþyrpingarinnar þar sem Messier 87, ein stærsta vetrarbraut sem vitað er um, lúrir.

Mynd: NASA, ESA