Júpíter glóir

Sævar Helgi Bragason 11. maí 2020 Fréttir

Veðurathuganir á stærstu plánetu sólkerfisins

  • Júpíter, Gemini North

Stjörnufræðingar birtu nýverið þessa glæsilegu ljósmynd af gasrisanum Júpíter, langstærstu plánetu sólkerfisins.

Myndin var tekin með Gemini North sjónaukanum á Hawaii og er með þeim allra skýrustu og skörpustu sem teknar hafa verið frá Jörðinni.

Til að ná svo skarpri mynd af Júpíter frá Jörðinni þurftu stjörnufræðingar að beita aðferð sem kallast „lukkuskot“. Hún snýst um að taka fjölda ljósmynda af Júpíter og stafla síðan saman aðeins þeim sem eru skýrar og skarpar.

Lofthjúpur Jarðar er nefnilega helsti óvinur stjarnvísindamanna. Stöðug ókyrrð veldur því að útsýni okkar út í geiminn er óskýrt, líkt og geimurinn sé hulinn á bak við móðu.

Mynd Gemini er í raun hitakort af Júpíter. Hún sýnir innrautt ljós eða varma sem berst úr iðrum gasrisans.

Inrautt ljós hefur lengri bylgjulengd en sýnilegt. Það gerir okkur kleift að skyggnast í gegnum mistrið efst í lofthjúpi Júpíters og inn í neðri lofthjúpslög. (Þetta tiltekna innrauða ljós hefur 4,7 míkrómetra bylgjulengd eða fimm sinnum lengri en rauðasta ljós sem mannsaugað greinir.)

Júpíter, Gemini NorthJúpíter 29. maí 2019. Myndin er sett saman úr 38 myndum sem staflað var saman í eina. Mynd: International Gemini Observatory/NOIRLab/NSF/AURA M.H. Wong (UC Berkeley) og teymi. Þakkir: Mahdi Zamani

Tilgangur myndatökunnar var að rannsaka betur veðrakerfi gasrisans og stormana sem geta geysað um áratuga skeið, jafnvel öldum saman.

Samtímis voru gerðar mælingar með Hubble geimsjónauka NASA og ESA og Juno gervitungli NASA.

Juni hefur verið á braut um Júpíter frá árinu 2016. Um borð er loftnet sem nemur snark eða útvarspbylgjur sem berst frá eldingum í lofthjúpi Júpíters þegar gervitunglið er næst honum og þýtur framhjá á 200.000 km hraða á klukkustund.

Hubble geimsjónaukinn sér sýnilegt ljós sem speglast af skýjum Júpíters. Í lofthjúpnum er líka mistur sem dreifir útfjólubláu ljósi vel og Hubble nemur líka.

Athuganir Hubble, Juno og Gemini gerðu vísindamönnum kleift að draga upp þrívíða mynd af skýjunum. Þær sýna hvar kalt loft hnígur en heitt loft og vatnsgufa rís, þéttist og býr til ský. Minnstu smáatriði á myndinni eru 400 km breið (plánetan er 140.000 km á breidd til samanburðar).

D---STSCI-H-p2021a-fSamanburður á sýnilegum/útfjólubláum mælingum Hubbles og innrauðum mælingum Gemini. Útfjólubláa myndin frá Hubble sýnir hvernig mistur dreifir sólarljós yfir Stóra rauða blett Júpíters. Bletturinn virkar rauður í sýnilegu ljói vegna þess að mistrið gleypir blátt ljós. Mynd: NASA, ESA, og M.H. Wong (UC Berkeley) og teymi.

Rannsóknirnar sýna að þrumuveðurský Júpíter eru tröllaukin – um eða yfir 80 km þykk – eða meira en fimm sinnum hærri en sambærileg óveðurský á Jörðinni. Þrumuskýin eru knúin áfram af hita sem berst úr iðrum Júpíters og vatnsgufu.

Björtu svæðin eru hlý en dökku kaldari. Dökku svæðin eru því ofar en ljósu svæðin. Á dökku svæðunum er skýjað en heiðskírt á ljósu svæðunum.

Svarthol_FB_cover